fbpx
Föstudagur 06.september 2024
Pressan

Kínversk stjórnvöld vara við „fallegum konum“ og „myndarlegum körlum“

Pressan
Fimmtudaginn 5. september 2024 19:30

Xi Jinping, forseti Kína.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kínverska leyniþjónustan hefur varað ungt fólk við „fallegum konum“ og „myndarlegum körlum“ sem ætla sér að gera það að njósnurum.

NBC greinir frá þessu.

Leyniþjónustan og ráðuneyti öryggismála beina þessum viðvörunum sérstaklega að háskólanemum sem hafa aðgang að viðkvæmum og leynilegum rannsóknargögnum. Verði nemarnir að vara sig á erlendum njósnurum sem reyni að lokka þá til rómantískra samskipta á fölskum forsendum og nota það til að fá nemana til njósna sem beinist gegn Kína.

Var viðvörunin birt á samfélagsmiðlinum WeChat og er sú nýjasta í röð færslna þar sem almenningur er hvattur til að vera á varðbergi gagnvart hvers kyns ógnum erlendis frá.

Gagnkvæmar njósnir

Þessi nýja viðvörun kemur í kjölfar gagnkvæmra ásakana um njósnir sem gengið hafa á milli Bandaríkjanna og Kína undanfarin misseri.

Eitt nýjasta njósnamálið sem upp hefur komið í samskiptum ríkjanna er mál konu að nafni Linda Sun. Hún starfaði áður sem aðstoðarmaður Kathy Hochul ríkisstjóra New York en Sun hefur verið ákærð fyrir að hafa stundað njósnir í þágu Kína. Sun neitar sök.

Kínversk stjórnvöld halda því fram að það hafi aukist á síðustu árum að kínverskir háskólanemar séu plataðir til að veita aðgang að viðkvæmum upplýsingum með til að mynda atvinnutilboðum og samböndum í gegnum internetið.

Þau segja einnig að erlendir njósnarar sem þykist vera ráðgjafar, vísindamenn eða háskólakennarar lokki háskólanemana til njósna með tilboðum um háar peningaupphæðir eða gjafir. Njósnararnir ávinni sér traust háskólanemanna með því að bjóða þeim ýmis konar aðstoð og  fái jafnvel nemana, með fölskum átarjátningum, til að taka saman og afhenda leynilegar upplýsingar. Í slíkum tilfellum séu njósnararnir „fallegar konur“ og „myndarlegir karlar“.

Næsta skref sé síðan að fá nemana til annars konar njósna eins og til að mynda að taka myndir af hernaðarmannvirkjum. Séu nemarnir tregir til fari njósnararnir að beita þvingunum.

Öryggismálaráðuneyti Kína segir að undanfarið hafi komið upp mál þar sem kínverskir ríkisborgarar hafi verið fengnir til að njósna fyrir erlend ríki.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Ótrúlegustu bækur bannaðar í umdeildu bókabanni í Flórída – „Hver þremillinn?“

Ótrúlegustu bækur bannaðar í umdeildu bókabanni í Flórída – „Hver þremillinn?“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Barnahópur grunaður um morð

Barnahópur grunaður um morð