Nú standa yfir í Avignon í Frakklandi réttarhöld í máli sem hefur ekki bara vakið óhug þar í landi heldur út um allan heim. Fjölskyldufaðir á áttræðisaldri er ákærður fyrir hrottaleg brot gegn eiginkonu sinni, en hann byrlaði henni ítrekað svefnlyf til að bæði brjóta sjálfur kynferðislega gegn henni sem og til að leyfa öðrum karlmönnum að gera slíkt hið sama. Talið er að hann hafi leyft minnst 72 karlmönnum að brjóta gegn henni á árunum 2011-2020 en lögreglu hefur tekist að bera kennsl á 51 geranda sem allir eru ákærðir í málinu. Pelicot hefur játað sök hvað þessa ákæruliði varðar sem og 13 aðrir gerendur. 38 neita þó sök.
Nú í morgun útskýrðu saksóknarar að Pelicot hafi boðið allt að þremur öðrum karlmönnum með í eins konar nauðgunar-kynsvall þar sem þeir brutu allir gegn eiginkonu hans, Gisele, á meðan hún var meðvitundarlaus vegna byrlunar. Pelicot tók svo brotin up og geymdi á tölvu sinni. Sumar upptökurnar eru allt að sex klukkustundir að lengd og sést skýrt á þeim að Gisele hafði enga rænu á meðan.
Fram kom í gær að á einum tíma hafi Gisele glímt við óþægindi á kynfærasvæðinu. Hún greindist í kjölfarið með kynsjúkdóm og átti erfitt með að skilja hvers vegna. Til að fela slóð sína ákvað Pelicot að saka hana um framhjáhald.
Lögreglustjórinn Jerome Bosse Platiere bar vitni í vikunni í málinu og lýsir því hvernig rannsóknin hófst. Pelicot var staðinn að blygðunarsemisbrotum í verslunarmiðstöð, en hann reyndi þar að koma myndavél undir pils þriggja kvenna. Við rannsókn lögreglu á þeim brotum fannst tölva Pelicot og á henni rúmlega 20 þúsund myndbönd og myndir sem sýndu brotin gegn eiginkonu hans. Pelicot hafði tekið öll brotin upp og ekki bara það heldur haldið skrá yfir nöfn þeirra karlmanna sem hann leyfði að brjóta gegn henni.
Lögregla sá að eiginkona Pelicot, Gisele, virtist sofandi á öllum upptökunum. Ekki væri útilokað að hún hefði þó samþykkt verknaðinn en þegar myndböndin voru borin undir hana sjálfa, fékk Gisele áfall. Hún hafði ekki veitt samþykki og ekki haft hugmynd um hvað væri að eiga sér stað. Lögregla metur að Gisele hafi verið nauðgað minnst 200 sinnum.
„Mér býður við honum. Mér finnst ég óhrein, saurguð, svikin. Þetta var stormur tilfinninga. Ég varð fyrir hraðlest,“ sagði Gisele sem fékk taugaáfall í kjölfarið á samtali sínu við lögreglu. Hún glímdi í kjölfarið við alvarlegt þunglyndi og á nokkrar sjálfsvígstilraunir að baki.
Dóttir hjónanna, Caroline Darian, hefur skrifað bók um málið sem kallast: Ég kalla hann ekki lengur pabba. Hún fékk áfall í dómsal í gær þegar fram kom að á tölvu Pelicot fannst mappa sem hafði að geyma nektarmyndir af henni. Mappan hét: Dóttir mín nakin og má þar sjá Caroline meðvitundarlausa og klæðlitla. Caroline skalf í dómsal í gær og þurfti að styðja hana út úr salnum.
Caroline sagði í hlaðvarpi France Culture í fyrra að mennirnir sem brutu gegn móður hennar komi úr öllum kimum samfélagsins. Þetta séu vörubílstjórar, blaðamenn, forstjórar og hvaðeina.
Margir meintra gerenda í málinu hafa neitað sök á þeim forsendum að hafa staðið í trú um að Gisele væri samþykk verknaðinum. Þeir segjast hafa staðið í þeirri trú að þeir væru að hjálpa henni að uppfylla kynferðislega draumóra. Einn maðurinn notaði þá afsökun að hann hafi ekki vitað að það væri hægt að nauðga konu ef eiginmaður hennar væri viðstaddur. Annar segist hafa staðið í þeirri trú að Gisele væri vakandi. Pelicot segir þó að allir hafi verið meðvitaðir um hvað væri að eiga sér stað. Hann hafi skýrt sagt öllum að hann hafi byrlað konu sinni ólyfjan og að hún hefði ekki veitt samþykki.
Til að tryggja að Gisele kæmist ekki að myrkraverkunum hafði Pelicot sett strangar reglur um nauðganirnar. Aðkomumennirnir áttu að leggja bifreiðum sínum smá spöl frá heimili hjónanna, þeir þurftu að hafa baðað sig og áttu að vera lyktarlausir, máttu ekki hafa reykt eftir baðið og ekki vera með rakspíra. Svo þurftu mennirnir að afklæðast í eldhúsi hjónanna til að tryggja að þeir gleymdu engum fatnaði á heimilinu. Loks þurftu þeir að klippa á sér neglurnar svo þeir rispuðu Gisele ekki óvart.
Undanfarna daga hafa lögreglumenn og saksóknarar rakið innihald þeirra myndbanda sem fundust á tölvu Pelicot en efni þeirra er sagt slíkt að það sé ekki hafandi eftir í fjölmiðlum. Réttarhöldin fara fram fyrir opnum dyrum sem er óvenjulegt fyrir kynferðisbrot sem þessi, en Gisele krafðist þess sjálf svo heimurinn fengi að sjá og heyra hvað maður hennar og hinir höfðu gert. Gisele situr þessa daganna í dómsalnum þar sem hún horfir á sínar eigin nauðganir aftur og aftur og aftur. Réttargæslumaður hennar segir erfitt að ímynda sér hvers konar hrylling hún gengur nú í gegnum. Hún þurfi að endurupplifa áratug af kynferðisbrotum.
Gisele hefur áður sagt við blaðamenn að maður hennar hafi eitt sinn stungið upp á að þau tækju þátt í makaskiptum. Hún hafi þó skotið þá hugmynd í kaf. Pelicot hafi verið frábær maður í hennar augum. Þau byrjuðu saman árið 1971 og hann hafði reynst henni góður eiginmaður og góður faðir barna þeirra þriggja. Allt reyndist þetta þó tálsýn.