fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Pressan

Neitaði að trúa að móðir hans hefði framið sjálfsvíg – Eyddi öllum arfinum í að koma upp um morðingjann

Pressan
Laugardaginn 24. ágúst 2024 19:00

John og Uta á góðri stund. Mynd:CBS 48HOURS

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkrum vikum áður en Uta von Schwedler lést hafði hún gert mikilvæga uppgötvun í rannsóknum sínum á hvítblæði barna. Hún var á góðri leið með að fá fullt forræði yfir börnum sínum og hafði fundið ástina á nýjan leik eftir skilnað við eiginmann sinn til 16 ára, John Brickman Walls (Johnny). En síðan fannst hún látin í baðkarinu sínu.

Heimurinn hafði þar með misst góða vísindakonu og fjögur börn misstu móður sína. Dánardómsstjóri kvað upp úr um að hún hefði tekið eigið líf en sonur hennar, Pelle, neitaði að trúa því að móðir hans hefði svipt sig lífi. Hann eyddi öllum arfinum sínum í að reyna að sanna að hún hefði verið myrt.

Ekki nóg með það, hann sagðist vita hver myrti hana.

Þetta gerðist árið 2011. Uta, sem var frá Þýskalandi, bjó í Salt Lake City í Utah í Bandaríkjunum, var 49 ára og var að reyna að fá fullt forræði yfir börnum sínum.  Hún hafði skilið við föður þeirra, Johnny, fjórum árum áður. Þau kynntust þegar þau voru við nám í Kaliforníu. Johnny var góður og virtur barnalæknir.

Uta. Mynd:Facebook

Uta hafði upphaflega einbeitt sér að rannsóknum á HIV og hafði náð góðum árangri á þeim vettvangi. Hún flutti sig síðan yfir í rannsóknir á hvítblæði og miðað vel áfram við þær. Hún var staðráðin í að ná árangri í rannsóknum sínum en börnin hennar voru í forgangi hjá henni. Hún gaf sér tíma til að fara í útilegur með þeim eða fjallgöngur og eyddi mörgum stundum í að búa til úrklippubækur og ljósmyndamöppur með myndum af þeim.

Þegar slitnaði upp úr hjónabandinu var Uta sökuð um að hafa átt í ástarsambandi við vinnufélaga sinn. Hún flutti út af heimilinu og börnin urðu eftir hjá Johnny.

Andlátið

Pelle var 17 ára þegar Uta lést. Hann bjó með föður sínum og yngri systkinum. Johnny hafði kvænst aftur en var skilinn á nýjan leik. En hvað varðaði samskiptin við Uta var mikil spenna í þeim.

Uta átti í ástarsambandi við Nils Abramson og í september höfðu þau höfðað mál fyrir dómi til að hún fengi fullt forræði yfir börnunum sínum. Dómari féllst á að taka málið fyrir og Uta var bjartsýn á að hafa sigur en Johnny fannst sem allt væri að renna honum úr greipum.

Þann 27. september ætlaði Uta að hitta Nils en þegar hann kom heim til hennar heyrði hann að vatn rann í baðkarið og í því var Uta á kafi. Hann dró hana upp en vissi um leið að hún var dáin.

Engin ummerki voru um innbrot en eldhúshnífur og ein af úrklippubókum Uta voru í baðinu. Þetta benti til sjálfsvígs en bæði Nils og Pelle neituðu að trúa því.

Johnny var í nöp við Uta. Mynd:CBS 48HOURS

Hvað varðaði óvini þá átti hún bara einn, Johnny. Hann var strax yfirheyrður en sagðist hafa verið sofandi og hefði ekki komið nálægt húsinu. En þegar gengið var á hann varð framburður hans reikull og hann bar við minnisleysi.

Þegar hann sagði  börnunum að móðir þeirra væri látin brotnaði hann niður yfir því að liggja undir grun og huggaði þau ekki. „Hvað ef ég gerði þetta og man það ekki?“ snökkti hann.

Pelle var þess fullviss frá upphafi að faðir hans hefði myrt móður hans. Hann lagði engan trúnað á niðurstöðu dánardómsstjóra um að Uta hefði drukknað.

Johnny sagði börnunum að hún hefði fyrirfarið sér en lét þess ógetið að áverkar eftir hníf voru á líkinu og að mikið magn af kvíðastillandi lyfinu Xanax fannst í blóði hennar. Magnið var svo mikið að það dugði til að gera hana syfjaða. Þess utan var þetta lyf sem hún notaði aldrei. Skömmu áður en hún lést hafði Johnny skrifað út lyfseðil fyrir þetta lyf fyrir móður sína en hún fékk það aldrei.

Pelle tók einnig eftir því að faðir hans var með klórfar á auga. Johnny sagði að hundurinn þeirra hefði klórað hann en Pelle trúði því ekki og fór að óttast um öryggi systkina sinna. Hann reiknaði með að lögreglan myndi handtaka föður hans en þegar það gerðist ekki tók hann málin í eigin hendur.

Hann flutti að heiman í ársbyrjun 2012 og kom sér fyrir hjá vinkonu sinni og fjölskyldu hennar. Hann var staðráðinn í að vernda systkini sín. Þegar hann varð 18 ára fór hann fyrir dóm með mál þeirra og fékk því framgengt að þeim var öllum komið fyrir í umsjá fjölskylduvina.

Færðist nær réttlæti

Hversu ótrúlegt sem það kann að virðast þá stefndi Johnny Pelle fyrir dóm til að fá úrklippubækur Uta afhentar. Á móti notaði Pelle arfinn eftir móður sína til að stefna föður sínum fyrir að hafa orðið Uta að bana. Með þessu gátu lögmenn Pelle spurt Johnny undir eið um andlát Uta.

Þegar þeir gerðu það breyttist framburður hans og hann játaði að hafa hitt Uta daginn sem hún lést. Hann var handtekinn í lok apríl 2013 og kærður fyrir morðið á henni. Pelle hafði þá eytt nær öllum arfi sínum í að láta réttlætið ná fram að ganga.

Pelle. Mynd:CBS 48HOURS

Réttað var yfir Johnny í febrúar 2015 og lýsti hann þá yfir sakleysi sínu. Verjandi hans sagði að hnífsstungurnar á líki Uta hafi verið af hennar völdum og að hún hefði sjálf tekið Xanax.

Saksóknari og verjandi Johnny tókust á fyrir dómi en niðurstaða kviðdóms var að Johnny var fundinn sekur um að hafa myrt Uta og var dæmdur í 15 ára til ævilangt fangelsi.

Johnny áfrýjaði dómnum en 2019 staðfesti áfrýjunardómstóll niðurstöðuna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Maðurinn á bak við umdeilda aðferð til að finna ódýrt flug sér ekki eftir neinu

Maðurinn á bak við umdeilda aðferð til að finna ódýrt flug sér ekki eftir neinu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Forsetafrúin blótaði Elon Musk – „Ég er ekki hrædd við þig, fokkaðu þér Elon Musk”

Forsetafrúin blótaði Elon Musk – „Ég er ekki hrædd við þig, fokkaðu þér Elon Musk”