Um helgina týndust skæri í verslun á japönskum flugvelli. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að verslunin er nærri brottfararhliðum flugvallarins. Þegar í ljós kom að ekki væri vitað hvar skærin voru var 36 flugferðum aflýst og 201 frestað.
Um var að ræða Chitose-flugvöll á Hokkaaido, næst stærstu eyju Japans. Nánar til tekið týndust skærin í þeirri flugstöð flugvallarins sem þjónar innanlandsflugi.
Öryggisleit á flugvellinum var lokað í tvo klukkutíma á meðan skæranna var leitað. Miklar biðraðir mynduðust við öryggisleitina en á meðan farþegar sem voru ekki búnir að fara í gegnum hana voru látnir bíða voru þeir farþegar sem þegar voru komnir í brottfararsalinn aftur sendir í gegnum öryggisleit.
Á meðan var skæranna leitað. Þau týndust á laugardaginn en eftir nokkra leit fundust þau ekki og ákveðið var að opna öryggisleitina aftur og hleypa farþegum í sín flug. Starfsmaður verslunarinnar fann loks skærin á sunnudaginn.
Ekki var þó tilkynnt fyrr en í gær að skærin hefðu fundist þar sem yfirvöld vildu staðfesta að um væri að ræða nákvæmlega sömu skærin.
Einn ferðalangur sem lenti í töfum vegna ástandsins sagði við japanska fjölmiðla að farþegar ættu enga annarra kosta völ en að bíða en að hann vonaðist eftir meiri vandvirkni af hálfu starfsmanna flugvallarins í framtíðinni.
Annar ferðalangur sagði atvikið enn eitt málið til að hafa áhyggjur af þessa dagana og að hann myndi ekki finna til öryggis fyrr en hann kæmist heim til sín.
Samgönguráðuneyti Japans hefur óskað eftir því við stjórnendur flugvalla á Hokkaido að atvikið verði rannsakað og komið í veg fyrir að það endurtaki sig.
Stjórnendur flugvallarins segja að skærin hafi týnst vegna ófullnægjandi starfshátta í versluninni en að svona atvik sé hægt að tengja við flugrán og hryðjuverk og að séð verði til þess að vinnubrögð þegar kemur að slíkum hlutum á flugvellinum verði bætt.
Á samfélagsmiðlum mátti hins vegar lesa almenna ánægju meðal Japana með viðbrögðin við týndu skærunum og að atburðarásin sýndi það að á umræddum flugvelli væri öryggi í hávegum haft.
Chitose-flugvöllur er einn af fjölförnustu flugvöllum Japans en árið 2022 fóru 15 milljónir farþega um hann.
BBC greindi frá.