Donald Trump, forsetaframbjóðandi, hefur útskýrt hvers vegna hann hljómaði bæði smá- og þvoglumæltur í viðtali sínu við auðkýfinginn Elon Musk á mánudag.
Andstæðingar Trump hafa gert mikið grín að honum undanfarna sólarhringa og meðal annars líkt honum við Andrés önd og hnefaleikakappann Mike Tyson.
Trump skrifar á samfélagsmiðli sínum Truth Social:
„Því miður, út af flækjustigi nútímatækninnar og fjarskiptatækni, þá var röddin mín á vissum sviðum ekki eins og hún á að sér að vera og hljómaði undarlega. Þess vegna höfum við nú gefið út raunverulega og lýtalausa upptöku af samtalinu. Njótið.“
Með þessu deildi Trump hljóðupptöku af tveggja tíma samtali hans við Musk og þar hljómar röddin hans nokkuð eðlilega.
Tæknin var þarna greinilega að stríða frambjóðandanum en viðtalinu sjálfu seinkaði um 43 mínútur út af tæknilegum örðugleikum. Musk segir að seinkunina megi rekja til netárásár á miðilinn X (áður Twitter) þar sem viðtalinu var streymt.