Breska ríkisútvarpið, BBC, segir að allt að 400 manns gætu hafa fengið brjóstsykurinn. Upp komst um málið þegar einstaklingar sem höfðu fengið pakkann og smakkað brjóstsykurinn kvörtuðu undan skrýtnu bragði og einkennilegri líðan eftir að hafa borðað hann.
Helen Robinson, framkvæmdastjóri samtakanna sem heita Auckland City Mission, segir við BBC að nokkrir starfsmenn hafi smakkað brjóstsykurinn og tekið undir að hann bragðaðist einkennilega. Ekki minnkaði grunurinn þegar fólkinu fór að líða einkennilega stuttu síðar.
Helen segir að brjóstsykurinn hafi borist samtökunum frá óþekktum aðila og þau hafi ekki haft minnstu grunsemdir um að hann innihéldi fíkniefni. Lögregla segir að málið sé til rannsóknar og enn sem komið er hafi enginn verið handtekinn vegna málsins.
Þrír hafa þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna málsins, þar á meðal er eitt barn, en enginn virðist hafa veikst alvarlega. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að stakir molar innihéldu mjög mikið magn metamfetamíns, eða allt að þrjú grömm.