Auðkýfingurinn Elon Musk hefur ekki verið feiminn við að viðra stjórnmálaskoðanir sínar undanfarið, en er staðfestur langt til hægri þessi misserin. Hann hefur því lýst yfir stuðningi við forsetaframbjóðandann Donald Trump og ekki látið þar við sitja heldur tók hann forsetaframbjóðandann í viðtal sem hefur vakið mikla athygli.
Viðtalið gekk ekki áfallalaust fyrir sig en því seinkaði um 43 mínútur út af netárás á samfélagsmiðil Musk, X sem áður hét Twitter. Þegar viðtalið fór loksins í loftið þá þótti mörgum Trump ekki vera upp á sitt besta.
Trump fór um víðan völl. Hann ræddi um banatilræðið sem hann lifði af þann 13. júlí og segir að lífsreynslan hafi styrkt trú hans á guð. Musk hrósaði forsetanum fyrir viðbrögð sín við tilræðinu sem hafi sýnt mikið hugrekki, en flestir hafa séð myndir sem teknar voru að forsetaframbjóðandanum með blæðandi eyra þar sem hann sagði stuðningsmönnum sínum að halda áfram að berjast og lyfti hnefanum upp í loftið.
Eins ítrekaði Trump það sem hann hefur áður lofað Bandaríkjamönnum. Verði hann kosinn muni hann standa fyrir stærstu fjöldabrottvísun innflytjenda í sögu heimsins. Hann segir að stórborgir á borð við New York séu undirlagðar ólöglegum innflytjendum og hryðjuverkamönnum. Þetta séu glæpamenn og morðingjar sem eigi ekkert erindi til Bandaríkjanna.
Musk hvatti Bandaríkjamenn til að kjósa Trump frekar en mótframbjóðanda hans, Kamala Harris. Bandaríkin standi á krossgötum og með því að kjósa Trump sé fólk að kjósa von og velmegun. Á móti sagðist Trump ekki annað gert en að styðja við rafvæðingu bílaflotans. Trump hefur áður sagt stuðningsfólki rafbíla að „rotna í helvíti“ en þar sem Musk hafi reynst honum vel hafi honum snúist hugur.
Áhorfendur tóku þó eftir því að Trump var ekki alveg eins og hann á að sér að vera. Fannst þeim hann smá- og þvoglumæltur sem varð til þess að honum er nú á netinu líkt við hnefaleikamanninn Mike Tyson og teiknimyndapersónuna Andrés önd.
Talsmaður Trump var þó ósammála og segir að vinstri menn þurfi að láta athuga í sér heyrnina. Eins hefur því verið haldið fram að hljóðvinnslu hafi verið ábótavant sem skýri það hvers vegna Trump hljómaði smámæltur.
Netverjum þótti eins neyðarlegt í viðtalinu þegar Trump sagði við Musk að Kamala Harris, á forsíðu Time-tímaritsins, væri lík eiginkonu hans, Melania Trump. „Hún lítur út eins og ein fallegasta leikkona fyrr og síðar. Þetta var teikning og hún í raun var sláandi lík frábæru forsetafrúnni, Melaniu.“
Hann kallaði Harris hermikráku og sagði að núverandi forseti, Joe Biden, sé með heimskulegt andlit.
Um forseta Rússlands, Vladimir Pútín og Xi Jingpin, forseta Kína, sagði hann að báðir væru á bullandi siglingu. Það þurfi mann með mönnum til að eiga við þessa menn og telur Trump að Harris hafi ekki burðina í það.
„Það eru erfiðir persónuleikar þarna úti og ef þeir telja ekki að forseti Bandaríkjanna sé hörkutól munu þeir vaða yfir hann.“
Trump telur að Úkraína sé að verði uppiskroppa með hermenn og að einræðisherra Norður-Kóreu, Kim Jong-un, finnist Biden vera heimskur.
Trump gaf lítið fyrir loftlagsbreytingar og hækkandi sjávarmál. Það séu stærri vandamál sem þurfi að huga að og það sé enginn vandi fólginn í því að eignast fleiri fasteignir sem standa við hafið.
Framboð Harris hefur brugðist við viðtalinu og segir það dæma sig sjálft. Trump keyri áfram á öfgahyggju og undir flaggi stefnu sem kallast Project 2025, sem er mjög umdeild.
„Framboð Trump eins og það leggur sig þjónar mönnum á borð við Elon Musk og honum sjálfum – Ríkir sjálfumglaðir menn sem vilja svíkja millistéttina og geta ekki einu sinni stýrt netstreymi árið 2024.“
Fjölmiðlar hafa gagnrýnt viðtalið. Musk leyfði Trump að komast upp með ítrekaðar rangfærslur, ekkert var um beittar spurningar og viðtalið virtist helst vera hlaðvarp þar sem tveir vinir komu saman til að hrósa hvorum öðrum í tvær klukkustundir. Meðal annars lagði Musk til að hann gæti tekið að sér embætti í ríkisstjórn Trump, verði hann kosinn. Trump tók vel í það enda sé Musk svo góður í að reka fólk.
„Þú ert bestur í niðurskurði. Ég meina, sjáðu bara hvað þú gerir. Þú labbar inn og segir bara: viljið þið segja upp? Þau fara þá í verkfall – Ég ætla ekki að nefna fyrirtækið – en þau fara í verkfall. Og þú segir: það er í lagi, þið eruð öll rekin.“
CNN hefur rakið minnst 20 rangfærslur í viðtalinu. Hér eru dæmi um nokkrar:
Til dæmis hafi Trump haldið því fram að glæpatíðni hafi aukist gífurlega. Þetta sé rangt þar sem dregið hafi úr glæpum á síðasta ári og áfram á fyrsta ársfjórðungi í ár.
Trump hafi eins haldið því fram að verðbólga hafi ekki verið verri í 100 ár, eða 48 ár. Þetta sé rangt. Verðbólgan hafi náð hámarki árið 2022 þegar hún nam 9,1 prósentum en dregið hafi verulega úr henni síðan og mældist hún 3,2 prósent í síðasta mánuði.
Trump hafi haldið því fram að 60 milljónir væru að hlusta á viðtalið, en samkvæmt opinberum gögnum hafi 1,1 milljón hlustað á viðtalið í beinni útsendingu. Trump hafi eins ranglega haldið því fram að Harris ætli að leysa alla fangaða menn úr haldi, en slíkt hafi hún aldrei sagt.
Trump gagnrýndi Evrópu fyrir að hafa ekki stutt nægilega við Úkraínu. Bandaríkin hafi stutt Úkraínu um 260 milljarða Bandaríkjadollara en Evrópuríki samanlagt aðeins lagt fram 71 milljarð. Þetta er rangt. Bæði var Trump að ýkja stuðninginn sem Bandaríkin hafa veitt og á sama tíma gróflega vanmeta stuðninginn frá Evrópusambandinu. Evrópusambandið hafi stutt Úkraínu um næstum tvöfalt það sem Bandaríkin hafa sent.
Blaðamaðurinn David Smith hjá The Guardian skrifaði skoðanagrein um viðtalið þar sem hann segir fátt hafa komið á óvart. Þarna hafi tveir brjálæðingar með egó á stærð við plánetu farið mikinn með eitraðri karlmennsku og ótrúlegum lygum.
„Meginskilaboðin eru þessi: ef Trump vinnur ekki kosningarnar, og ef Musk verður ekki keisari alheimsins, þá eru Bandaríkin úr sögunni.“
Stuðningsmenn Trump eru þó hæstánægðir með viðtalið. Trump hafi talað án þess að hika í tvær klukkustundir á meðan Harris neiti ítrekað að mæta í viðtöl. Harris sé aldrei tilbúin að tjá sig án þess að hafa undirbúið mál sitt vandlega.
Í greiningu blaðamanns CNN, Stephen Collison, á viðtalinu er því haldið fram að þar hafi Musk og Trump reynt að ná höggi á framboði Harris. Harris hafi verið á mikilli uppleið undanfarnar vikur og framboð Trump átt erfitt með að halda í við hana, enda hafði framboðið reiknað með því þar til fyrir skömmu að Trump væri að bjóða sig fram gegn Biden. Öll þeirra herkænska hafi því beinst að því að mála Biden upp sem óhæfan. Nú þegar Harris er orðin forsetaefni demókrata þurfi að skipta um takt og það hafi gengið illa.
„Þessi fundur þeirra var magnað dæmi um hvernig forsetakosningar hafa breyst með tilkomu samfélagsmiðla og með klofningu hefðbundinnar blaðamennsku. Trump hefði mögulega ekki verið kjörinn forseti án Twitter, en þegar hann steig fram á sjónarsvið stjórnmála var miðillinn á miklu flugi. Hæfileikar hans til að notfæra sér þennan nýja miðil, líkt og enginn stjórnmálamaður hafði gert á undan honum, gerðu að verkum að forsetakosningarnar það árið urðu einstök blanda af manni og tíma.“
Collison segir að áhorfendur hafi í raun ekki komist að neinu nýju um Trump. Musk tókst hins vegar að gera grein fyrir stjórnmálaskoðunum sínum og hvers tilbúinn hann er að nota völd sín og auð til að tjá þessar skoðanir.
🚨 President Trump has now been LIVE for TWO HOURS STRAIGHT with @elonmusk
Uninterrupted.
Unscripted.
Nothing off-limits.THIS is what a REAL President looks like. pic.twitter.com/YjekRIVPRU
— Nick Sortor (@nicksortor) August 13, 2024
I listened to the entire Spaces between @ElonMusk & Donald Trump.
There was zero "hate speech." Just two guys talking.
No "disinformation," just a few misstatements — bound to happen in a two hour unscripted conversation.
The kind Kamala Harris doesn't have the guts to do.
— Kyle Becker (@kylenabecker) August 13, 2024
Trump's lisp does not sound like audio processing here pic.twitter.com/JHtv8U65fk
— Brennan Murphy (@brenonade) August 13, 2024
Iron Trump is giving a great interview. Lisp and all. pic.twitter.com/9O5433UgoF
— Burt Macklin (@BurtMaclin_FBI) August 13, 2024
Let’s get a couple of things straight.
To date, Donald Duck has spent in excess of $50 million in donations from working-class Americans to cover his legal bills and allowed the RNC to spend more than $2 million of donor money to do the same. He’s so cheap and selfish he’d… pic.twitter.com/URV4yUinrg— Chris Christie (@GovChristie) October 3, 2023