Það sem af er ári hafa fjórir starfsmenn verksmiðjunnar látist og enginn veit hvað varð þeim að bana.
Í janúar lést 33 ára þriggja barna faðir. Hann fannst látinn í rúminu sínu eftir að hafa verið á kvöldvakt. Mánuði síðar lést 19 ára karlmaður, hann fannst einnig látinn í rúminu sínu. Í júní hneig sextugur karlmaður örendur niður á svölunum heima hjá sér.
Sænska lögreglan rannsakar dauðsföllin og hefur sett fjölda lögreglumanna í málið. Niðurstöðu krufninganna er enn beðið.
Patrik Kallman, sem stýrir rannsókninni, sagði í samtali við Arbetet.se að niðurstaða krufninganna sé það sem beðið sé eftir og geti varpað ljósi á málin. „Það er smávegis Agöthu Christie bragur yfir þessu og maður getur velt ýmsu fyrir sér, en krufningarnar eiga að sýna hvort tengsl séu á milli dauðsfallanna. Eins og staðan er núna vitum við það ekki,“ sagði hann.
En á þriðjudaginn jókst dulúðin enn, að minnsta kosti um hríð, því þá lést fjórði starfsmaður verksmiðjunnar að sögn Aftonbladet.
Matti Kataja, fjölmiðlafulltrúi verksmiðjunnar, vísaði því fljótlega á bug að það dauðsfall tengdist verksmiðjunni á nokkurn hátt. Hann sagðist hafa fengið staðfest hjá lögreglunni að viðkomandi hefði látist eftir að hafa lent í drukknunarslysi í frítíma sínum í júlí. Það hafi gerst utan vinnutíma. Hann gagnrýndi lögregluna fyrir að hafa ekki verið skýrari í orðum þegar hún skýrði frá þessu dauðsfalli.
En lögreglan útilokar ekki að þetta dauðsfall tengist hinum þremur. Kallmann sagði að almennt séð þá sé drukknun ekki nauðsynlega megindánarorsökin í drukknunarslysi. Aðrar ástæður geti legið að baki.
Ekki dregur það úr dulúðinni að lögreglunni barst ábending fyrir skömmu um að bráð veikindi starfsmanns í verksmiðjunni og er hún nú að rannsaka þann þátt málsins.