fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Pressan

Eitt orð kom upp um hræðilegt leyndarmál hans

Pressan
Laugardaginn 10. ágúst 2024 21:00

Chris Watts. Mynd:Lögreglan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki var annað að sjá að en Christopher „Chris“ Watts væri hinn fullkomni fjölskyldufaðir. Hann leitaði ákaft að eiginkonu sinni og dætrum en þegar hann sagði eitt rangt orð komst upp um tvöfalt líf hans.

„Þetta gerir út af við mig. Börnin eru það mikilvægasta í lífi mínu,“ sagði Chriss, 33 ára, þegar hann stóð fyrir utan heimili fjölskyldunnar í Colorado í Bandaríkjunum og ræddi við fréttamenn. Þá stóð yfir leit að eiginkonu hans, Shanann Watts 34 ára, og þriggja og fjögurra ára dætrum þeirra en það var eins og jörðin hefði gleypt þær. „Shanann, Bella, Celeste: Ef þið eruð þarna úti, komið heim. Ef einhver er með hana, látið hana lausa,“ sagði hann og augnaráðið var tómlegt.

En hann vissi ekki að vel var fylgst með honum. Örlitlar handahreyfingar hans á meðan á viðtölunum stóð komu upp um hann.

Watts fjölskyldan. Mynd:Shanann Watts/Facebook

 

 

 

 

 

 

 

Þetta var þann 14. ágúst 2018. Íbúar í Frederick leituðu logandi ljósi að mæðgunum. Daginn áður hafði Nickole Utoft Atkinson, besta vinkona Shanann, hringt í lögregluna og lýst yfir áhyggjum af vinkonu sinni. Eins og fleiri vinkonur Shanann vissi hún að hjónaband hennar var ekki neinn dans á rósum. Chris vildi ekki eignast barnið sem hún bar undir belti og hafði lengi verið kaldur og fráhrindandi í hennar garð. Þegar Shanann mætti ekki í tíma hjá kvensjúkdómalækni og svaraði ekki textaskilaboðum Nickole hringdi hún í lögregluna.

Lögreglan fór heim til Chris ásamt Nickole og syni hennar. Ekkert á heimili benti til að Shanann og stúlkunum hefði verið rænt. Eiginlega leit helst út fyrir að Shanann hefði sjálfviljug yfirgefið Chris og haft dætur þeirra með sér. En það var tvennt sem lögreglan hnaut um. Giftingarhringur Shanann lá á náttborðinu en það gat bent til að hún hefði sjálfviljug yfirgefið Chris og ætlaði að binda enda á hjónabandið. En það sem lögreglan hnaut sérstaklega um var að bæði veski hennar og farsími voru enn í húsinu?

Fáar vísbendingar

En að veskinu og farsímanum frátöldum hafði lögreglan ekki á miklu að byggja. Lýst var eftir mæðgunum um öll Bandaríkin. „Við höfum áhyggjur. Við vitum ekki hvar þær eru,“ sagði Robert Bedsaul, lögreglustjóri, við fjölmiðla.

Chris ræddi við hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum og var oft tárvotur og kjökrandi. Hann sagðist hafa farið í vinnu um klukkan 05 þann 13. ágúst og að þá hafi Shanann verið heima. „Ég skil ekkert í þessu,“ sagði hann við fréttamenn. Hann sagðist hafa fengið áfall þegar Nickole hringdi í lögregluna og hafi flýtt sér heim.

Hann sagði að það hefði verið hryllilegt að koma heim í mannlaust hús. „Það var ekkert. Hún var þar ekki, börnin voru ekki þar,“ sagði hann.

Frá brúðkaupi hjónanna. Mynd:Shanann Watts/Facebook

Ekki var annað að sjá en hann væri örvæntingarfullur faðir og eiginmaður en hann játaði að hjónabandið hafi verið stormasamt. Þegar fréttamaður spurði hann hvort þau hjónin hefðu rifist nóttina sem hún og dæturnar hurfu svaraði hann: „Þetta var ekki rifrildi. Við áttum tilfinningaríkar samræður. Ég segi ekki meira, ég vil bara fá þær aftur heim.“

Á þessum tímapunkti vissi enginn að Chris var að ljúga og að hann bjó yfir skelfilegu leyndarmáli sem sendi skömmu síðar skelfingarbylgjur um bandarískt samfélag.

Lögreglan fór um hverfið, sem fjölskyldan bjó í, og ræddi við nágranna. Einn þeirra sagði svolítið sem passaði ekki við það sem Chris hafði sagt. Hann sagði að á upptöku úr eftirlitsmyndavél hans frá nóttinni örlagaríku sæist Chris. Nágranninn sagði hann hafa hegðað sér undarlega þessa nótt, hann hafi meðal annars verið að bera hluti fram og aftur í bílskúrnum. Lögreglan skoðaði upptökuna og á henni sást að Chris lagði bíl sínum framan við bílskúrinn og að síðar ók hann á brott.

Greinileg merki

Fjallað er um málið í heimildarmynd Discovery+, „Chris WattsA Faking It Special“ einnig er fjallað um málið í heimildarmynd Netflix, „American Murder“.

Í fyrrnefndu myndinni er rætt við Cliff Lansley sérfræðing í líkamstjáningu. Hann segir að augljóst sé að Chris hafi logið frá fyrstu sekúndu og að hann hafi komið upp um sig þegar hann svaraði spurningunni um hvort þau hjónin hefðu rifist nóttina sem hún hvarf. Á upptöku úr búkmyndavél lögreglumanns sést að Chris riðar fram og aftur þegar hann segir að það sé eins og jörðin hafi gleypt fjölskyldu hans. „Hann staðfestir að hún var í húsinu þegar hann var þar klukkan 05.15 en hann hreyfir höndina einnig örlítið. Það sést neðst á skjánum. Þessi litla handahreyfing, snúningurinn, segir: „Ég trúi engu af því sem ég segi núna,““ sagði Lansley.

Lansley sagðist telja að andlitssvipur Chris, þegar lögreglan ræddi fyrst við hann á heimili hans, staðfesti að hann hafi logið. „Hægra meginn, þegar hann segir „ég vil bara fá þær aftur“ og hann talar um börnin sín, sérðu munnvikið hækka og augun verða minni. Kinnarnar lyftast. Þetta sambland hreyfinga þessara tveggja vöðva er vísbending um sanna ánægju,“ sagði Lansley.

Í lok viðtalanna horfði Chris beint inn í myndavélarnar og biður mæðgurnar um að koma heim. Lansley segir að þá hafi þrjár hreyfingar til viðbótar komið upp um hann.

En stóra spurningin var: Hvað var Chris að ljúga um? Hafði hann drepið eiginkonu sína og dætur eða var hann með þær í haldi einhvers staðar?

Stórtíðindi

Tveimur dögum eftir hvarf mæðgnanna bárust stórtíðindi af málinu. Chris hafði verið handtekinn, grunaður um að hafa myrt þær. Lögreglan hafði rannsakað síma hans og vissi að hann hafði átt í ástarsambandi við fyrrum vinnufélaga sinn og að hann ætlaði að skilja við Shanann. Einnig vissi lögreglan að hann hafði nýlega verið úrskurðaður gjaldþrota og að hann hafði misst vinnuna.

En það sem staðfesti grun lögreglunnar og gerði hana fullvissa í sinni sök var eitt orð sem Chris sagði þegar hann var yfirheyrður skömmu eftir að tilkynnt var um hvarf mæðgnanna. „Hún var stelpu-stelpa,“ sagði hann þá um Celeste og vissi ekki að það var orðið „var“ sem beindi grun lögreglunnar að honum. Það var í hæsta lagi óeðlilegt að hann talaði um hana í þátíð. Ef hann hefði ekki vitað að hún var dáin hefði hann líkleg sagt „er“.

Celeste, Shanann og Bella Watts. Mynd:Shanann Watts/Facebook

Chris renndi ekki í grun að lögreglan teldi hann bera ábyrgð á hvarfi mæðgnanna og féllst á gangast undir lygamælispróf en hann var handviss um að hann myndi standast það með glæsibrag. En þess í stað varð það til þess að lögreglan vissi enn betur að hann var að ljúga. „Þú féllst á lygamælisprófinu og nú er komið að þér að segja frá,“ sagði lögreglumaður þá við hann. Chris andvarpaði og bað um að fá að ræða við föður sinn fyrir næstu yfirheyrslu. Hann ræddi við föður sinn í yfirheyrslu herberginu og á upptökum af samtali þeirra heyrist hann segja föður sínum að hann hafi myrt fjölskyldu sína.

Dæturnar fundust í olíutanki

Lögreglan fann síðan lík Shanann grafið nærri tveimur olíutönkum Anadarko Petroleum í Colorado. Lík dætranna fundust í öðrum olíutankinum sem var fullur af hráolíu. Í runna skammt frá fannst kósíklútur Celeste og bangsinn hennar.

18. ágúst 2018 játaði Chris að hafa myrt Shanann en hélt því fram að hún hefði myrt dæturnar eftir að hann sagði henni að hann vildi skilnað. Lögreglan lagði engan trúnað á þann framburð hans.

Chris Watts.

Það var ekki fyrr en saksóknari bauð honum samning um refsiþyngd sem hann játaði að hafa myrt fjölskyldu sína. Hann sagðist hafa kyrkt Shanann og því næst hafi hann vafið lak utan um lík hennar, farið með það út í bíl og sett í aftursætið. Því næst sótti hann dætur sínar, sem voru aðeins í náttfötum, og ók að athafnasvæði Andarko Petroleum en þar hafði hann starfað eitt sinn. „Mamma er pínu veik,“ sagði hann við dæturnar og kyrkti þær síðan.

Dómurinn

Réttað var yfir Chris í nóvember 2018 og var hann dæmdur í fimmfalt lífstíðarfangelsi fyrir morðin. Hann var að auki dæmdur í 48 ára fangelsi fyrir morðið á ófæddum syni sínum og 36 ára fangelsi fyrir ósæmilega meðferð á líkum mæðgnanna.

 

Byggt á umfjöllun CNNThe Denver PostThe Denver Channel og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Datt í lukkupottinn í pakkaleiknum – Skipti á vasaljósi og besta vinningnum

Datt í lukkupottinn í pakkaleiknum – Skipti á vasaljósi og besta vinningnum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Á yfirborðinu var hún guðhrædd amma en í henni bjó myrkur

Á yfirborðinu var hún guðhrædd amma en í henni bjó myrkur
Pressan
Fyrir 3 dögum

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags
Pressan
Fyrir 3 dögum

Leynd viðvörunarmerki líkamans – 7 snemmbúin merki um Parkinson

Leynd viðvörunarmerki líkamans – 7 snemmbúin merki um Parkinson
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Það er svo sannarlega ekki þess virði að veipa“

„Það er svo sannarlega ekki þess virði að veipa“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár