fbpx
Miðvikudagur 07.ágúst 2024
Pressan

Varaforsetaefnið sem setti allt á hliðina með því að hjóla í konur og ketti – Alræmdi sófinn, grunsamlegir höfrungar og öfgafullar skoðanir

Pressan
Miðvikudaginn 7. ágúst 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að forsetaframbjóðandinn Donald Trump sjái nú eftir því að hafa valið J.D. Vance sem varaforsetaefni sitt. Vance var valinn þegar Trump hélt enn að hann myndi taka slaginn við sitjandi Bandaríkjaforseta, Joe Biden, á kjördag í nóvember. En Biden steig svo til hliðar sem setti kosningabaráttu Trump á hliðina. Vance er eitt umdeildasta varaforsetaefni fyrr og síðar. Honum hefur á mettíma tekist að komast upp á kant við nánast helming bandarísku þjóðarinnar með ummælum sínum í garð kvenna og katta. Hann hefur eins þurft að berjast við rætnar flökkusögur sem erfitt er að kveða niður.

Erfið æska og öfgafullar skoðanir

James Donald Bowman, eða J.D. Vance eins og hann er kallaður, er varaforsetaefni Donald Trump og vægast sagt umdeildur. Hann vakti athygli árið 2016 þegar hann gaf út endurminningar sínar þar sem hann rakti erfiða æsku sína. Móðir hans glímdi við fíkn, faðir hans stakk af þegar Vance var aðeins 6 ára gamall og fór svo að  móðuramma hans ól hann upp. Bókin kallast Hillbilly Elegy og vakti mikla athygli og kom kvikmynd sem byggði á henni út árið 2020. Æska Vance hafði mikil áhrif á hann. Honum fannst sárt að eiga enga karlkyns fyrirmynd og að hafa ekki alist upp í hefðbundinni kjarnafjölskyldu. Hefðbundna kjarnafjölskyldan spilar því lykilhlutverk í pólitískum skoðunum hans og telur hann mikilvægt að börn alist upp með tvo foreldra og enn mikilvægara að fólk eignist börn. Hann telur að foreldrar eigi að vera að gagnstæðu kyni og ef hann hefði einhverju um það að ráða myndi hann ekki lögleiða hjónaband samkynhneigðra.  Hann hefur viðrað þá skoðun sína að atkvæði barnafjölskyldna eigi að vega þyngra en barnlausra. Hann er á móti þungunarrofi og í raun á móti hjónaskilnaði. Hann telur að konur geti alveg umborið smá ofbeldi í hjónabandinu og að fólk ætti ekki að fá að skilja nema hafa góða ástæðu fyrir því, svo sem hjúskaparbrot eða ofbeldi.

Peter Thiel

Auðmaðurinn og tæknifrumkvöðullinn Peter Thiel er almennt talinn hafa komið Vance til metorða. Þeir kynntust þegar Vance var í laganámi við Yale háskóla og virtust hugmyndafræðilega eiga saman. Árið 2017 réði hann Vance í vinnu hjá fjárfestingarfyrirtæki sínu og hjálpaði honum að klífa metorðastigann hjá repúblikönum. Hann fjármagnaði framboð hans til öldungadeildarinnar í Ohio árið 2022 og hjálpað honum að koma sér upp öflugu tengslaneti meðal fjárfesta í tæknigeiranum. Thiel er öfgafullur í frjálshyggju sinni og telur að frelsi og lýðræði séu ósamrýmanleg. Hann telur eins að það hafi verið mistök að veita konum kosningarétt þar sem konur hafi með atkvæðum sínum leitt til öflugra velferðarkerfis og aukinnar regluvæðingar í atvinnulífinu. Það gangi ekki að svipta konur kosningarétti en atkvæði þeirra geri að verkum að frjálslyndi eigi erfiðara uppdráttar og lýðræðið í heild því í raun ónýtt. Gagnrýnendur hans segja að Thiel sé á móti lýðræði og hrifnari af hugmyndum í anda fasisma og einræðis.

Eftir að Vance hafði verið mjög gagnrýnin í garð Trump, og meðal annars líkt honum við Hitler, steig Thiel inn til að koma á sáttum.

 

Ógurlegar kattarkonur

Vance hefur ítrekað gagnrýnt fólk, þá einkum konur, sem vilja ekki eignast börn. Hann hefur lýst háttsettum konum í demókrataflokknum sem „barnlausum kattarkonum“ og þar sem þær eigi ekki börn þá eigi þær ekkert að hafa um það að segja hvernig Bandaríkjunum er stjórnað. Hann reyndi að draga í land með þessi ummæli sín sem hann segir hafa verið kaldhæðinn brandara sem var slitinn úr samhengi. „Þetta var klárlega kaldhæðni. Ég hef ekkert á móti köttum,“ sagði Vance og bætti við að væri ekki að gagnrýna fólk sem kýs að eignast ekki börn heldur á stefnu demókrata sem hann segir fara gegn hagsmunum barna og kjarnafjölskyldunnar.

Árið 2020 sagði hann í viðtali að barnleysi geri fólk siðspillt og barnleysi dragi úr stöðugleika samfélagsins. Hann tjáði sig ári síðar á Twitter um frétt sem fjallaði um að Bandaríkjamenn væru hræddir við að eignast börn út af loftslagsbreytingum: „Það þarf að stöðva kattarkonur“.

Vance var í kjölfarið sakaður um kvenfyrirlitningu en hann sagði þá gagnrýni út í hött. Hann sé ekki að berjast gegn konum heldur fyrir hagsmunum fjölskyldunnar. Hann hefur eins verið gagnrýndur fyrir að ráðast gegn Harris fyrir að eiga ekki líffræðileg börn. Hún á tvö stjúpbörn á þrítugsaldri og gegnir móðurhlutverki í lífi þeirra. Hin móðir barnanna, Kerstin Emhoff, hefur kallað árásir gegn Harris fyrir barnleysið fáránlegar. Hún hafi reynst stjúpbörnum sínum vel síðasta áratuginn og tekið virkan þátt í uppeldi þeirra. Stjúpbörn Harris hafa sjálf greint frá því að í þeirra hug eigi þau þrjá foreldra sem þau elska.

Vance réðst einnig gegn samgönguráðherranum Pete Buttigieg fyrir að eiga ekki börn. Buttigieg steig þá fram og sagði gagnrýnina særandi þar sem hann og maður hans hafi lengi reynt að ættleiða en það ekki gengið upp til þessa. „Hann [Vance] gat ekki vitað það en þetta sýnir kannski að fólk ætti ekki að vera að tala um börn annarra.“

Þá var Vance gagnrýndur fyrir að viðurkenna ekki sáran raunveruleika þeirra sem vilja eignast börn en geta það ekki. Þetta varð til þess að á dögunum steig eiginkona Vance fram og sagði að maður hennar hefði að sjálfsögðu ekkert á móti þeim sem vilja eignast börn. Demókratinn Gabby Gifford sem hefur barist lengi fyrir hertum vopnalögum sagði að eiginmaður hennar og hún hafi verið langt komin í tæknifrjóvgunarferli þegar Gifford varð fyrir banatilræði árið 2011. Hún varð fyrir skoti, lifði af, en í kjölfarið varð það líffræðilega ómögulegt fyrir hana að verða þunguð.

„Að gefa til kynna að við séum minna virði er til skammar“

Leikkonan Jennifer Aniston hefur eins gagnrýnt Vance og opnað sig um eigin ófrjósemi. Hún segist vona að dóttir Vance geti eignast börn, að hún þurfi ekki að treysta á frjósemisaðstoð því faðir hennar sé að reyna að gera slíkt ómögulegt.

Eins hafa ummælin farið öfugt ofan í einhleypar konur og kattaeigendur. Grínistinn og samfélagsrýnirinn Chelsea Handler, sem er barnlaus að eigin vali, benti á að enginn forseti í sögu Bandaríkjanna hefur verið móðir og ekki allir hafa verið líffræðilegir feður. T.d. George Washington sem átti engin líffræðileg börn. Handler kallar eftir því að barnlausar katta- og hundakonur taki höndum saman til að tryggja að Vance stigi ekki fæti inn í Hvíta húsið.

Það hefur lengi verið sagt í netheimum að það sé ekki skynsamlegt að pönkast í köttum. Það sé ólíklegt til vinsælda.

Alræmdi sófinn

Sú saga fór á kreik, að því er virðist um miðjan júlí, að Vance hefði í æviminningum sínum fjallað um það hvernig hann stundaði sjálfsfróun með því að koma latex-hanska fyrir á milli sófapulla. Sagan hefur verið rakin til færslu sem birtist á X (áður Twitter). Andstæðingar Vance höfðu ekki áhuga á að kaupa ævisöguna til að sannreyna þetta heldur deildu sögunni af mikilli þórðargleði. AP fréttastofan ákvað að sannreyna söguna og fann ekkert um sófakynlíf í bókinni. Miðillinn skrifaði fréttina: Nei JD Vance stundaði ekki kynlíf með sófa, en þar var rakið að Vance hefði hvergi í bók sinni lýst slíkri kynlífsathöfn. Miðillinn afturkallaði svo fréttina þar sem hún hafði verið birt án þess að gangast undir viðeigandi ritskoðunarferli. Aftur fór því sagan á flug. Miðillinn Snopes sem er sérhæfur í því að sannreyna flökkusögur og umdeildar fréttir hefur tekið sófakynlífið fyrir og rakti að um uppspuna væri að ræða. Miðillinn skoðaði allar útgáfur endurminninganna sem hafa komið út og fann hvergi vísun til sófasamfara. Eins var rakið hvernig Twitter-notandinn sem kom sögunni að stað hafi gengist við skáldskapnum. Hann hafi hreinlega verið að grínast því hann þolir Vance ekki, og ekki reiknað með þessum ótrúlegu viðbrögðum.

„Ég þó verulega notið þess að hugsa til hvernig kosningateymi hans og allir aularnir sem tengjast honum hafa nú þurft að takast á við þessa flökkusögu,“ sagði notandinn í samtali við fjölmiðla.

Vance hjálpaði stöðunni lítið þegar hann sagði á framboðsfundi skömmu síðar að hann ætlaði ekki að neyða konu sína til að fara með ræðu því þá þyrfti hann líklega að „sófa á sófanum í nótt“.

Höfrungurinn

Þann 17. febrúar deildi Vance skjáskoti á X þar sem mátti sjá mynd af tveimur karlmönnum og konu á bryggju að horfa á höfrunga hoppa upp úr sjónum. Með myndinni stóð textinn: Kona misnotuð af höfrungum og nýtur þess. Vance gerði grín að myndinni og sagði ótrúlegt hvað sé hægt að finna á netinu: „Kannski er Internetið mistök“. Eftir að Vance var valinn sem varaforsetaefni Trump fór þessi færsla aftur á flug. Netverjar bentu á að Vance hafi leitað að orðunum „kona“ og „höfrungur“ til að finna þessa mynd. Þótti netverjum furðulegt að Vance hafi verið að framkvæma leit með þessum tveimur orðum saman.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Leigubílstjóri vildi fá konur til að gefa getnaðarlimnum einkunn

Leigubílstjóri vildi fá konur til að gefa getnaðarlimnum einkunn
Pressan
Í gær

Enn meira drama hjá bresku konungsfjölskyldunni – „No way!“

Enn meira drama hjá bresku konungsfjölskyldunni – „No way!“
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Dreki“ og „lífsins tré“ fundust á hafsbotni

„Dreki“ og „lífsins tré“ fundust á hafsbotni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fann elsta flöskuskeyti heims í göngutúr

Fann elsta flöskuskeyti heims í göngutúr
Pressan
Fyrir 2 dögum

Busavígsla fór úr böndunum – Missti báða fætur og var fjóra mánuði á spítala

Busavígsla fór úr böndunum – Missti báða fætur og var fjóra mánuði á spítala
Pressan
Fyrir 3 dögum

11 barna faðir lést í hörmulegu slysi – Síðasta sms unnustunnar

11 barna faðir lést í hörmulegu slysi – Síðasta sms unnustunnar
Pressan
Fyrir 3 dögum

Uppgötvuðu „rotinn eggjalofthjúp“ um nálæga „helvítisplánetu“

Uppgötvuðu „rotinn eggjalofthjúp“ um nálæga „helvítisplánetu“