Með honum í för var Joaquin Guzman Lopez sem er sonur stofnanda samtakanna, El Chapo, og var hann einnig handtekinn. Báðir eiga yfir höfði sér þunga fangelsisdóma í Bandaríkjunum vegna smygls á gríðarlegu magni af fíkniefnum.
Wall Street Journal greinir frá því að hátt settur meðlimur Sinaloa-hringsins hafi starfað með bandarískum löggæsluyfirvöldum í málinu undanfarna mánuði.
Þessi meðlimur er sagður hafa platað El Mayo til að stíga um borð í flugvél til að skoða svæði fyrir hugsanlega flugvelli fjarri mannabyggðum í Mexíkó sem hægt væri að nota til smygls á fíkniefnum. Var vélinni flogið yfir landamærin til El Paso í Texas þar sem laganna verðir biðu eftir El Mayo.
El Mayo tók þátt í stofnun Sinaloa-hringsins á sínum tíma og er hann talinn hafa leikið lykilhlutverk í að múta hátt settum embættismönnum í Mexíkó til að hringurinn gæti haldið völdum sínum og aukið þau jafnt og þétt. Hann hefur verið eftirlýstur af bandarískum yfirvöldum í fjölda ára og aldrei setið á bak við lás og slá.
Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að Sinaloa-samtökin væru ein ofbeldisfyllstu og valdamestu glæpasamtök heims. Þau bæru mikla ábyrgð á Fentanyl-faraldrinum sem dregur þúsundir til dauða í Bandaríkjunum á hverju ári.