fbpx
Föstudagur 26.júlí 2024
Pressan

Draumaferð tveggja bræðra til Dúbaí breyttist í algjöra martröð

Pressan
Fimmtudaginn 25. júlí 2024 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að ferðalag bræðranna Joseph og Joshua Lopez til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafi breyst í algjöra martröð. Tveir mánuðir eru síðan bræðurnir héldu til furstadæmisins og er alls óvíst hvenær þeir fá að snúa heim.

New York Post fjallar um örlög bræðranna.

Joseph er fyrrverandi meðlimur í bandaríska flughernum sem ákvað fyrir nokkrum árum að snúa sér að samfélagsmiðlum þar sem hann hefur notið töluverðra vinsælda.

Bræðurnir ákváðu að fara til Dúbaí til að taka upp efni og lögðu þeir af stað frá Ohio þann 25. maí síðastliðinn. Eftir að hafa dvalið í um eina viku í „paradís“ vöknuðu bræðurnir upp við vondan draum í orðsins fyllstu merkingu. Þeir voru staddir í lögreglubíl og hafði þeim verið byrlað einhvers konar ólyfjan.

Samtökin Detained in Dubai hafa tekið að sér mál bræðranna, en að sögn samtakanna var bræðrunum boðið í glæsilegt VIP-partý að kvöldi 2. júní. Uber-bílstjóri hafði nálgast bræðurna eftir að þeir yfirgáfu skemmtistað þetta kvöld og bauð hann þeim með sér í eftirpartý sem fór fram á nærliggjandi hóteli.

Var bræðrunum boðinn matur og drykkur en þegar kom að því að yfirgefa gleðskapinn fengu þeir himinháan reikning fyrir veitingarnar. Joseph segir að þeir hafi verið tregir til að borga reikninginn en ákveðið að gera það að lokum til að forðast frekari vandræði.

Joseph Lopez er með um 300 þúsund fylgjendur á Instagram og TikTok. Mynd/Instagram

Á leiðinni heim á hótel mættu þeir manni sem bauð þeim í gleðskap á snekkju skammt frá. Joseph segir að þeir hafi í fyrstu hafnað boðinu, meðal annars í ljósi reynslunnar úr VIP-partýinu fyrr um kvöldið. Maðurinn hafi þó þrýst á þá að kíkja við og þeir þyrftu ekki að taka upp veskið, enda gaman fyrir gesti að fá unga bandaríska gesti í gleðskapinn.

Bræðurnir létu til leiðast en Joseph segir að á þessari snekkju hafi þeim verið byrlað og kvöldið sé í algjörri móðu hjá þeim báðum. Þeir rönkuðu við sér í bíl daginn eftir og töldu þeir í fyrstu að verið væri að ræna þeim.

Það var ekki fyrr en síðar að þeir áttuðu sig á því að um lögreglubíl var að ræða og var þeim ekið á Al Barsha-lögreglustöðina sem stendur skammt frá Burj Khalifa, hæstu byggingu heims.

Bræðurnir voru kærðir fyrir að ráðast á lögregluþjón, streitast á móti handtöku, skemma lögreglubíl og fyrir neyslu áfengis. Bræðurnir þvertaka þó fyrir að hafa neytt áfengis í ferðinni og benda á að lögregla hafi ekki tekið blóðsýni úr þeim til að ganga úr skugga um það.

Bræðrunum var sleppt úr haldi eftir nokkra daga en gert að dvelja áfram í Dúbaí þar til dómur verður kveðinn upp í máli þeirra. Hafast þeir nú við í Airbnb-íbúð þar til annað kemur í ljós.

Í frétt New York Post er rætt við Radha Stirling, framkvæmdastjóra Detained in Dubai, og þar hvetur hann lögregluyfirvöld til að hætta rannsókn á máli bræðranna. Ef fer sem horfir gætu þeir átt nokkurra ára fangelsi yfir höfði sér fyrir litlar sakir. Radha segir að lögregla ætti frekar að beina rannsókn sinni að þeim sem byrluðu fyrir bræðrunum.

Bætir Stirling við að ferðamenn ættu að vera á varðbergi gagnvart gylliboðum Uber-bílstjóra sem beina spjótum sínum oftar en ekki að grunlausum ferðamönnum. Þetta sé ekki eina dæmið þar sem ferðamönnum sé boðið í gleðskap undir því yfirskini að allt sé frítt en svo séu þeir rukkaðir um stórfé þegar þeir hyggjast yfirgefa svæðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 5 dögum

Níu manna fjölskylda strandaglópar í Alaska – Horfðu á skemmtiferðaskipið sigla burt með eigur þeirra

Níu manna fjölskylda strandaglópar í Alaska – Horfðu á skemmtiferðaskipið sigla burt með eigur þeirra
Pressan
Fyrir 6 dögum

Biden íhugi að stíga til hliðar á næstu dögum

Biden íhugi að stíga til hliðar á næstu dögum
Pressan
Fyrir 1 viku

Það eru ekki háhyrningar sem valda því að hákarlar við Flórída ráðast í auknum mæli á fólk

Það eru ekki háhyrningar sem valda því að hákarlar við Flórída ráðast í auknum mæli á fólk
Pressan
Fyrir 1 viku

Neanderdalsmenn önnuðust 6 ára þroskaheft barn

Neanderdalsmenn önnuðust 6 ára þroskaheft barn