Þar var snemma að morgni 30. júní 1966 sem eldur kom upp á heimili forstjóra eins í Shizuoka í Japan. Þegar búið var að slökkva eldinn fann lögreglan lík forstjórans, eiginkonu hans og tveggja unglinga. Þau höfðu öll verið stungin til bana.
The Guardian segir að Hakamada hafi starfað fyrir fjölskylduna og búið í húsinu. Hann var handtekinn, grunaður um að hafa myrt fjölskylduna, að hafa kveikt í heimilinu og að hafa stolið 200.000 jenum í reiðufé.
Hann var sakfelldur fyrir þetta tveimur árum síðar og dæmdur til hengingar. Hann hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu.
Það er algengt að dauðadæmdir bíði mjög lengi eftir aftöku í Japan. Fyrir tíu árum tók mál Hakamada nýja stefnu þegar dómstóllinn, sem sakfelldi hann á sínum tíma, úrskurðaði að sum sönnunargögnin, sem voru lögð fyrir dóminn, hafi ekki verið traust og var yfirvöldum skipað að láta Hakamada lausan. Dómstóll á æðra dómstigi ákvað síðan að rétta skyldi aftur í málinu.
Undirréttur sagði að sönnunargögnin, sem voru lögð fram á sínum tíma af lögreglunni hafi hugsanlega verið búin til af henni. Lögmenn Hakamada segja að DNA-rannsókn á blóðblettum á fatnaði hafi sýnt að blóðið var ekki úr Hakamada.
Hakamada hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu og sagt að hann hafi verið neyddur til að játa sök eftir langar og strangar yfirheyrslur en hann var oft yfirheyrður í 12 klukkustundir á dag.