Þetta gerðist í bænum Bandera, sem er norðvestan við San Antonio í Texas. Í umfjöllun bandarískra fjölmiðla kemur fram að maðurinn hafi ætlað að hitta unnusta Bridget en eins og áður sagði, þá var hann ekki heima.
Unnustinn seldi fíkniefni og það voru þau sem maðurinn, sem hét Ramiro Gonzales og var 18 ára, var á höttunum eftir.
En hann fann engin fíkniefni, bara Bridget aleina. Hún hleypti honum inn. Hann stal þá reiðufé sem unnusti hennar átti. Þegar Bridget reyndi að hringja í unnustann til að segja honum frá þessu réðst Ramiro á hana. Hann batt hana á höndum og fótum, fór með hana út í bílinn sinn og ók að stað nærri búgarði afa síns. Þar nauðgaði hann henni og skaut hana síðan til bana.
Þegar unnusti Bridget kom heim, var húsið mannlaust en bíllinn hennar, lyklar og taska voru þar. Hann hringdi í lögregluna sem hóf þegar leit að henni.
18 mánuðir liðu þar til málið leystist. Þá sat Ramiro í fangelsi, var að afplána ævilangan dóm fyrir nauðgun. Hann bað um að fá að tala við lögreglumann og játaði fyrir honum að hafa nauðgað og myrt Bridget.
Lögreglan fann jarðneskar leifar hennar í framhaldi af játningunni.
Ramiro var síðan dæmdur til dauða fyrir að hafa rænt henni, nauðgað og drepið.
Á miðvikudag í síðustu viku var hann tekinn af lífi. Bridget hefði orðið 41 árs þennan dag ef hún hefði lifað.
„Þegar þeir sögðu mér að 26. júní væri dagurinn fór ég að gráta, ég grét og grét,“ sagði móðir hennar, Patricia Townsend, í samtali við USA Today. Hún sagði að það hafi verið ákveðin huggun að vita að Ramiro myndi yfirgefa þennan heim á sama degi og Bridget kom í hann.
Ramiro var tekinn af líf með eitursprautu í ríkisfangelsinu í Huntsville. Á síðustu andartökum sínum í þessu lífi bað hann fjölskyldu Bridget hvað eftir annað afsökunar á gjörðum sínum og sagðist vonast til að dag einn muni honum verða fyrirgefið.