fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Pressan

Hélt að hann hefði unnið í lottó þegar hann kynntist henni

Pressan
Laugardaginn 29. júní 2024 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Travis Alexander taldi sig hafa unnið í lottó þegar hann kynntist gengilbeinunni Jodi Arias. Þau urðu fljótlega par. En nokkrum mánuðum síðar runnu á Travis tvær grímur og hann áttaði sig á að hann hafði gert stærstu mistök lífsins.

Jodi og Travis kynntust árið 2006 á hobbísýningu í Las Vegas. Jodi, sem var 26 ára, ljóshærð og myndarleg, starfaði þá sem gengilbeina og var áhugaljósmyndari. Hún kynntist hinu 29 ára sjarmatrölli Travis á sýningunni. Hann var tryggingasölumaður og heittrúaður mormóni.

Hin heita ást bar Travis ofurliði og hann gat ekki staðist freistinguna að stunda kynlíf með Jodi en það er mormónum stranglega bannað að gera utan hjónabands. En hann gat ekki haldið að sér höndum og í tölvupósti til vinar síns skrifaði hann meðal annars: „Það er ekki erfitt að átta sig á að sá sem hreppir Jodi, hvort sem það er ég eða einhver annar, vinnur í konulottóinu.“

Þegar parið yfirgaf Las Vegas hvatti Travis Jodi til að lesa Mormónsbók, trúarrit mormóna. Skömmu síðar snérist hún til mormónatrúar og tók skírn. Hún bjó þá í Murrieta í Kaliforníu en hann í Mesa í Arizona. Það hélt ekki aftur af henni að aka til hans nokkrum sinnum í viku en ferðin tekur rúmar fimm klukkustundir. Sky Lovingier Hughes, vinkona hennar, sagði síðar að Jordi hefði verið heltekin af Travis.

En Jordi vissi ekki að Travis átti í miklum vandræðum með sambandið. Hann var mjög trúaður og mátti því ekki stunda kynlíf utan hjónabands. Eftir fimm mánaða samband batt hann enda á sambandið. Það stöðvaði Jodi ekki og hún flutti til Mesa til að geta verið nær honum. Hún hélt áfram að birtast við heimili hans. Úr varð stormasamt samband þar sem þau rifust annan daginn og stunduðu kynlíf þann næsta.

Í bókinni „Picture Perfect: The Jodi Arias Story“ segir höfundurinn, Shanna Hogan, að stundum hafi Travis reiðst þegar Jodi birtist við heimili hans en stundum hafi hann hoppað beint upp í rúm með henni.

Eftir að hafa búið í Mesa í átta mánuði flutti Jodi skyndilega aftur til Kaliforníu. Þar bjó hún í litlu herbergi á heimili afa síns og ömmu í bænum Yreka. Vinir Travis vörpuðu öndinni léttar, þeir voru sannfærðir um að Jodi væri lífshættuleg. „Ég sagði: „Travis, ég er hrædd um að finna þig sundurhlutaðan í frystinum hennar,“ skrifaði Lovingier Hughes í bókinni „Our Friend Travis: The Travis Alexander Story“.

Stjórnsöm og afbrýðisöm

Vinir þeirra segja að samband þeirra hafi verið frábært fyrstu vikurnar. Þau yfirfylltu næstum því Facebook og MySpace með rómantískum sjálfsmyndum frá ferðum sínum og upplifunum. Jodi elskaði hversu fyndinn Travis var og hversu vel þau skemmtu sér saman. Vinir þeirra tóku þó fljótlega eftir að Jodi var mjög stjórnsöm og afbrýðisöm. Hún er sögð hafa hringt að minnsta kosti tíu sinnum á dag í Travis auk þess að birtast óvænt við heimili hans hvað eftir annað. Hún vildi hafa fulla stjórn á hvað hann gerði þegar hún var ekki nærri. „Þegar hann fór á klósettið beið hún eftir honum fyrir utan. Ef hringt var í hann kannaði hún úr hvaða númeri var hringt og hún skoðaði tölvupóstinn hans reglulega og samfélagsmiðla. Ef hún fann tölvupóst sem henni mislíkaði áframsendi hún hann til sjálfrar sín til að geta skoðað hann betur. Ég sá hluti sem trufluðu mig mjög mikið,“ sagði Hughes síðar um samband þeirra. Þegar Jodi var ekki til staðar fór Travis mikið í kirkju. Þar átti hann djúp trúnaðarsamtöl um samband þeirra og hversu mjög hann skammast sín fyrir  að hafa stundað kynlíf utan hjónabands. Hann vildi ekki lifa í synd. Vinir hans reyndu að sannfæra hann um að honum stafaði hætta af Jodi en hann sá ekki alvöru málsins. Í fyrrnefndri bók Shanna Hogan kemur fram að Travis hafi viljað giftast mormónastúlku sem væri hrein mey.

Með því að stunda kynlíf með honum hafi Jodi útilokað sig frá því að geta orðið eiginkona hans.

Morðið

Þann 9. júní 2008 fóru tveir áhyggjufullir vinir Travis heim til hans en þeir höfðu ekki náð sambandi við hann í fimm daga. Þeir fóru inn á heimili hans og fundu hann liggjandi í sturtuklefanum. Hann hafði verið skotinn í andlitið og skorinn á háls auk þess að vera stunginn 27 sinnum í bringuna og bakið.

Lögreglan sagði að ummerki á vettvangi hefðu bent til að átök hefðu átt sér stað. „Það fyrsta sem mér datt í hug var að mikil slagsmál hefðu átt sér stað þarna og að þau hefðu verið mjög persónuleg. Einhver þekkti hann. Einhver vildi hann feigan. Einhver vildi ganga úr skugga um að hann væri í raun látinn,“ sagði lögreglumaðurinn Esteban Flores um aðkomuna.

Lögreglan reyndi strax að hafa uppi á Jodi en það var eins og hún hefði horfið af yfirborði jarðar. Það var ekki fyrr en fjórum dögum síðar sem lögreglunni tókst að hafa uppi á henni heima hjá afa hennar og ömmu.

Hún var ákærð fyrir morð og varð aðalumfjöllunarefni bandarískra götublaða. Jodi ræddi við marga fjölmiðla um málið og sagði við einn að hún hefði ekki einu sinni verið á staðnum þegar Travis var myrtur. Skömmu síðar breytti hún frásögn sinni og sagðist hafa verið á staðnum en að grímuklæddir menn hefðu ruðst inn í húsið og drepið Travis. Hún hefði sjálf náð að flýja heil á húfi.

Lögreglan trúði ekki þessari sögu og þegar hún var spurð í yfirheyrslu af hverju hún hefði ekki hringt í lögregluna sagðist hún hafa verið of hrædd til þess.

Sérfræðingar lögreglunnar fundu mörg fingraför og lófaför í blóðinu í sturtuklefanum. Einnig fundust löng brún hár á sturtuveggnum. Í þvottavélinni fannst myndavél Travis. Á minniskortinu voru myndir af honum og Jodi að stunda kynlíf. Myndirnar voru teknar skömmu fyrir morðið.

Á minniskortinu voru einnig myndir af Travis í sturtu, teknar nokkrum sekúndum áður en hann var skotinn. Á einni myndinni virðist hann ekki vita að verið er að mynda hann en á annarri horfir hann beint inn í linsuna. Einnig var mynd af blóðpollinum á minniskortinu.

Jodi stóð enn fast á að hún væri saklaus. „Enginn kviðdómur getur sakfellt mig. Ég er saklaus. Guð veit að ég er saklaus. Travis veit að ég er saklaus,“ sagði hún en lögreglan trúði henni ekki. Eftir margar og ítarlegar yfirheyrslur játaði hún síðan að hafa myrt Travis. Rannsókn lögreglunnar hafði þá leitt í ljós að Travis var skotinn í andlitið með skammbyssu sem hvarf af heimili afa og ömmu Jodi viku áður.

Dómurinn

Þegar réttarhöldin yfir henni hófust mættu mörg hundruð manns í dómhúsið til að sýna henni stuðning. Lögreglan varð að vera með mikinn viðbúnað til að halda fólki utan við bygginguna. Málið hafði vakið mikla athygli fjölmiðla og voru um 100 fréttamenn viðstaddir réttarhöldin. Jodi viðurkenndi fyrir dómi að hafa myrt Travis en sagði það hafa verið í sjálfsvörn. Hún sagði hann hafa brjálast þegar hún missti myndavélina á gólfið.

Hún sagði einnig að hann hefði beitt hana ofbeldi eftir að hún stóð hann að því að fróa sér yfir barnaklámi. Ekki var lagður trúnaður á þessar skýringar hennar.

Saksóknari fór fram á dauðadóm yfir henni og hélt því fram að Jodi hefði myrt Travis eftir að hún komst að því að hann var ástfanginn af konu úr mormónasöfnuðinum og hefði haft í hyggju að flytja til Mexíkó með henni. Aðeins nánustu vinir og ættingjar hans höfðu fengið að vita af þessu því hann var mjög hræddur við Jodi og hvað hún kynni að gera ef hún frétti þetta.

Dómur féll í málinu 2013 og var Jodi dæmd í lífstíðarfangelsi. Þar sem kviðdómur náði ekki einróma niðurstöðu varð að taka málið aftur fyrir dóm síðar og lauk þeim réttarhöldum 2015. Aftur var hún dæmd í lífstíðarfangelsi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Maðurinn á bak við umdeilda aðferð til að finna ódýrt flug sér ekki eftir neinu

Maðurinn á bak við umdeilda aðferð til að finna ódýrt flug sér ekki eftir neinu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Forsetafrúin blótaði Elon Musk – „Ég er ekki hrædd við þig, fokkaðu þér Elon Musk”

Forsetafrúin blótaði Elon Musk – „Ég er ekki hrædd við þig, fokkaðu þér Elon Musk”