fbpx
Fimmtudagur 07.nóvember 2024
Pressan

Hryllingurinn í Noregi – Tveir skotnir til bana og síðan voru sjúkraflutningamennirnir einnig myrtir

Pressan
Laugardaginn 22. júní 2024 22:00

Farsund Rónni var raskað einn dag árið 1988.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Morðin á Útey þann 22. júlí 2011 munu væntanlega aldrei líða Norðmönnum úr minni enda er mikilvægt að halda minningu þeirra saklausu ungmenna sem þar létust á lofti. En það eru kannski færri Norðmenn og örugglega fáir Íslendingar sem vita af og muna eftir hræðilegum atburðum sem áttu sér stað þann 20. ágúst 1988 í Knivsland. Þeir atburðir settu mark sitt á norskt samfélag og breyttu því til frambúðar.

Á meðan Anders Behring Breivik gekk um Útey og myrti saklaus ungmenni með köldu blóði biðu tugir sjúkrabíla átekta nærri Utvika-tjaldstæðinu. Björgunarmenn voru svo nálægt að þeir heyrðu öskur skelfingu lostinna ungmenna sem flúðu undan Breivik. Þarna stóðu þeir gjörsamlega ráðalausir og gátu ekki gripið inn í atburðarásina. En af hverju var þetta svona? Stóran hluta af svarinu er að finna í atburðunum þann 20. ágúst 1988 í Knivsland.

Hinn 20. ágúst 1988 klukkan 14.30

Um þrjá kílómetra frá bænum Farsund er skotsvæðið í Knivsland. Það var skýjað þennan dag í suðurhluta Noregs og smávegis rigning og ekki mjög hlýtt. Skógur er í kringum skotsvæðið og dregur hann úr hávaðanum frá skotunum. Fjórir vinir úr skammbyssuklúbbnum Farsund voru mættir á svæðið til að keppa í óformlegri meistarakeppni sín á milli og höfðu nýlokið við fyrstu umferð. Kjell Stillufsen og Jan Gunnar Gabrielsen höfðu lagt tómar skammbyssur sínar undir þakið á skýlinu þar sem staðið var þegar skotið var. Þeir sneru baki í Per Odd Reite og Bjørn Halvorsen sem voru reiðubúnir til að skoða hversu vel þeir hefðu hitt. Skyndilega heyrðist skothvellur, ókunnugur og dýpri en þeir sem komu frá skammbyssum þeirra félaganna. Þegar Kjell og Jan sneru sér við sáu þeir félaga sína hníga til jarðar, fyrst Per og síðan Bjørn. Í heildina var fimm eða sex skotum skotið. Þeir sáu ekki hvaðan þau komu því skyttan hafði falið sig í þéttum gróðri norðan megin við skotsvæðið. Úr rúmlega 20 metra fjarlægð skaut hann á þá með grófum höglum og massífum kúlum á stærð við víntappa. Kjell og Jan hlupu til félaga sinna en urðu þá fyrir skotum og urðu að forða sér í skjól. Þeim tókst að komast inn í bíl sinn og ná að starta honum. Jan hafði orðið fyrir um 130 höglum og Kjell um 150 en sem betur fer sluppu mikilvæg líffæri. Þeir tættu í burtu á bílnum, alblóðugir og með miklar blæðingar. Þeir stöðvuðu við fyrsta húsið sem þeir komu að og sögðu hvað hafði gerst. Íbúarnir gerðu lögreglu og sjúkraflutningamönnum viðvart og óku síðan með Kjell og Jan á sjúkrahúsið í Farsund. Þetta var bara upphafið á harmleiknum.

Sjúkraflutninga- og lögreglumenn komu á vettvang

Sjúkraflutningamenn í Farsund fengu boð um atburðinn skömmu fyrir klukkan 15. Geir Olav Lundetræ og Gunnar Eliassen voru á vakt og flýttu sér á vettvang. Þeir héldu að um slys hefði verið að ræða og óku því beint á vettvang og það reyndist örlagaríkt. Þeir lögðu við áhorfendastæðin og gripu skyndihjálpartöskur sínar með og hlupu út á skotbrautina. Í nokkurra metra fjarlægð lágu tveir líkamar og virtust líflausir. Grunlausir hlupu Geir og Gunnar að líkömunum en um leið og þeir beygðu sig yfir þá heyrðust skothvellir. Báðir urðu fyrir skotum, í bak og höfuð. Þeir féllu niður hjá þeim sem þeir ætluðu að hjálpa.

Nokkrum mínútum síðar komu tveir lögreglumenn á vettvang, þeir héldu einnig að hörmulegt slys hefði átt sér stað. Frá bíl sínum sáu þeir líflausa líkamana á skotsvæðinu, sem virtust illa farnir og þeir áttuðu sig á að hér væri ekki um voðaskot að ræða. Þeir voru óvopnaðir og af ótta við að enn meiri harmleikur myndi eiga sér stað hörfuðu þeir af vettvangi. Í Farsund voru allir tiltækir lögreglumenn kallaðir til aðstoðar, frá Mandal, Lyngdal, Flekkefjord og Kristiansand. Svæðið í kringum skotsvæðið var rýmt, vegum og öðrum leiðum að skotsvæðinu var lokað. Sjúkrahúsið í Farsund var sett á neyðarstig.

Eftir þriggja klukkustunda bið undirbjó lögreglan að ráðast til atlögu gegn byssumanninum sem þeir töldu vera 23 ára karlmann sem bjó á svæðinu. Hann hafði margoft sést með byssu en lögreglan hafði aldrei gripið inn í. Hann var sagður „sérstakur“ og var oft í kringum skotsvæðið. Hann var áhugasamur um skotvopn en ekki talinn hættulegur.

Morðinginn handtekinn

Á sjöunda tímanum hætti sérsveit lögreglunnar sér inn á skotsvæðið. Lögreglumennirnir sáu ekki annað en að allir mennirnir væru látnir. Til að fullvissa sig um þetta var ekið með lækni að þeim í brynvörðum bíl frá hernum. Ef lífsmark sæist átti að taka viðkomandi strax upp í bílinn og flytja á brott. En ekki var að sjá að hægt væri að bjarga neinu lífi þarna og því var breitt yfir líkamana og þeir skildir eftir. Síðar komst læknir að þeirri niðurstöðu að fjórmenningarnir hefðu allir látist samstundis af völdum skotsára.

Eftir margra klukkustunda aðgerð lögreglunnar á og við skotsvæðið lá ljóst fyrir að skotmaðurinn, sem nú var staðfest að var morðingi, var ekki þar. Á tólfta tímanum hringdi bróðir hins grunaða í lögregluna og sagði að hann væri kominn heim en lögreglan hafði samið við hann um að láta vita. Skömmu fyrir miðnætti lét sérsveitin til skara skríða og handtók hinn grunaða í bílskúrnum heima hjá honum. Handtakan gekk átakalaust fyrir sig. Hinn grunaði neitaði í fyrstu að vita nokkuð um málið en lögreglan fann skotvopn og skotfæri eins og höfðu verið notuð til að myrða fjórmenningana heima hjá honum. Sönnunargögnin héldu áfram að hrúgast upp og fljótt var ljóst að enginn vafi lék á að maðurinn hefði skotið fjórmenningana til bana.

Voðaverkin í Knivsland
Eitt alvarlegasta morðmál Noregs fram að Útey.

Miklir eftirmálar

Þessi mikli harmleikur vakti mikla athygli í Noregi og utan Noregs. Ekki aðeins vegna þess hversu grimmdarleg morðin voru heldur einnig vegna þess hversu illa viðbragðsaðilar voru í stakk búnir til að takast á við mál sem þetta. Afleiðingar þessa vanbúnaðar kostuðu mannslíf og í kjölfarið urðu miklar breytingar. Eitt merki þessara breytinga sást við Útey í júlí 2011. Eins og fyrr greinir biðu sjúkrabílar þar í löngum röðum eftir að hægt væri að sinna særðum. Þeir biðu eftir grænu ljósi frá lögreglunni. Í kjölfar morðanna í Knivsland var ákveðið að sjúkraflutningamenn og læknar mættu ekki fara inn á svæði þar sem hættuástand ríkir. Þessari reglu var ekki breytt fyrr en 2015 en nú er það lagt í hendur björgunarmanna sjálfra að ákveða hvort þeir fari beint inn í hættulegar aðstæður eða bíði eftir lögreglunni.

Morðin höfðu einnig áhrif á skotvopnalöggjöfina en aðeins tveimur dögum eftir morðin tilkynnti dómsmálaráðherrann um að lögin yrðu hert, þá sérstaklega til að ná betur utan um allan þann fjölda haglabyssa sem var til á norskum heimilum. Ekki var vitað hversu margar þær voru en talað var um að þær gætu verið allt að 500.000 til 600.000. Ekkert var vitað um þessi vopn. Breytingarnar tóku gildi haustið 1990 og giltu aðeins fyrir vopn keypt eftir þann tíma. Nú varð að skrá þau og enginn mátti kaupa skotvopn eða skotfæri án þess að framvísa skotvopnaleyfi.

Morðin sýndu einnig hversu vanbúin lögreglan var. Víða um landið átti hún hvorki skotheld vesti né hjálma. Nokkrum dögum eftir morðin sendi lögreglan kröfu til dómsmálaráðuneytisins og krafðist þess að fá 1.600 skotheld vesti nú þegar, að öðrum kosti myndi hún ekki sinna hættulegum verkefnum. Í ráðuneytinu var þessari kröfu tekið illa og hafnað í fyrstu. Eftir aðeins viku voru þó 800 vesti keypt enda hafði mikill þrýstingur verið á ráðuneytið víða úr samfélaginu.

Dómurinn

Í upphafi rannsóknarinnar var helsta ráðgátan af hverju maðurinn hafði skotið fjórmenningana. Í yfirheyrslum yfir honum kom fram að hann hafði lengi glímt við andleg veikindi. Geðlæknar sögðu hann þjást af alvarlegum geðklofa sem hefði þróast yfir í sjúklegar ranghugmyndir þetta sumar. Maðurinn var lagður inn á geðsjúkrahúsið í Kristiansand á meðan rannsókn málsins stóð yfir. En svar fékkst aldrei við því af hverju hann skaut fjórmenningana.

Að honum fjarstöddum var hann sakfelldur fyrir fjögur morð og tvær morðtilraunir. Ekki þótti leika vafi á að hann hefði verið „geðveikur“ á þeirri stundu er hann myrti fjórmenningana. Hann var dæmdur til 10 ára vistunar á öryggisdeild geðsjúkrahúss. Síðar var fimm árum bætt við dóminn.

Hinn dæmdi hefur nú afplánað refsingu sína og býr í suðurhluta Noregs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Gerðu óhugnanlega uppgötvun á háa loftinu í nýja húsinu

Gerðu óhugnanlega uppgötvun á háa loftinu í nýja húsinu
Pressan
Fyrir 2 dögum

Sjónvarpsmaður barðist við að halda aftur af tárunum þegar hann fór með ræðu um kosningarnar

Sjónvarpsmaður barðist við að halda aftur af tárunum þegar hann fór með ræðu um kosningarnar
Pressan
Fyrir 2 dögum

Villisvín skotið eftir að það beit mann á járnbrautarstöð

Villisvín skotið eftir að það beit mann á járnbrautarstöð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Snarræði unglingsstúlku varð kynferðisbrotamanni að falli

Snarræði unglingsstúlku varð kynferðisbrotamanni að falli
Pressan
Fyrir 3 dögum

Stefnumótið breyttist í martröð eftir óvænta játningu

Stefnumótið breyttist í martröð eftir óvænta játningu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hlaupatúrar öryggisvarða koma upp um forseta

Hlaupatúrar öryggisvarða koma upp um forseta
Pressan
Fyrir 3 dögum

Henni var rænt og hún var grafin lifandi í þrjá daga – „Ég öskraði og öskraði“

Henni var rænt og hún var grafin lifandi í þrjá daga – „Ég öskraði og öskraði“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hvenær var Suðurskautslandið síðast íslaust?

Hvenær var Suðurskautslandið síðast íslaust?