Donald Trump er ekki ánægður með Fox fréttastofuna og lýsti því yfir í gær að „enginn geti nokkurn tímann treyst“ fréttum þaðan.
Talið er að Trump sé þarna að bregðast við ummælum fyrrum forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Paul Ryan, sem féllu í síðustu viku hjá Fox. Þar sagði Ryan að Trump væri ófær um að taka aftur við embætti forsetans.
„Enginn getur nokkurn tímann treyst Fox fréttastofunni, og ég er einn af þeim,“ sagði Trump og fór ófögrum orðum um Ryan sem hann kallaði aumkunarverðan og óheiðarlegan mann sem hafi verið misheppnaður þingforseti.
Ummæli Ryan beindust að persónu fyrrum Bandaríkjaforsetans. Ryan sagði að þar sem Trump líti á sjálfan sig sem æðri stjórnarskrá landsins þá sé hann ekki hæfur til að gegna jafn mikilvægu embætti. Ryan, sem er repúblikani líkt og Trump, gekk skrefinu lengra og kenndi Trump um nýlega ósigra flokksins.
„Hann er búinn að kosta okkur öldungadeildarþingið í tvígang. Hann mun kosta okkur fulltrúadeildina því hann er að bjóða sig fram, hann er að koma sér í gegnum forvalið með fólki sem getur ekki sigrað almennar kosningar, bara því það er húsbóndahollt.“
Trump tekur því að jafnaði nærri sér þegar Fox, sem að jafnaði er uppáhalds sjónvarpsstöðin hans, leyfir fólki að gagnrýna hann.