Sky News skýrir frá þessu og hefur eftir áströlsku lögreglunni að krókódíllinn hafi verið um 3,6 metrar á lengd og hafi „flutt inn“ í Baines ána fyrr á árinu í kjölfar mikilla flóða.
Eftir að hafa fundið sér þessi nýju heimkynni byrjaði krókódíllinn að eltast við börn og fullorðna sem komu of nærri ánni. Hann náði þó ekki neinu fólki en fjöldi hunda lenti í kjafti hans.
Eftir viðræður við íbúa á svæðinu, sem eru flestir af frumbyggjaættum, var ákveðið að skjóta krókódílinn til að tryggja að fólki stæði ekki ógn af honum.
Skrokkur hans var síðan fluttur til bæjarins Bulla þar sem bæjarbúar matreiddu hann á hefðbundinn hátt að sögn lögreglunnar með því að grilla hann og hali hans var notaður í súpu.
Krókódílar hafa birst á mörgum stöðum í Ástralíu þar sem þeir hafa aldrei áður sést. Ástæðan er að mikil flóð hafa verið víða í landinu á síðustu misserum.