Tveir bandarískir ferðamenn lentu í afar óhugnanlegu slysi þegar þeir voru í ferðalagi í Mexíkó á dögunum. Parið, 43 ára karlmaður og 35 ára kona, hafði leigt sér íbúð í strandbænum Puero Penasco skammt frá ríkismörkum Arizona til að hafa það notalegt í góða veðrinu.
Síðastliðinn þriðjudag skellti parið sér í pottinn í garðinum en ekki vildi betur til en svo að maðurinn fékk raflost og lést af sárum sínum á meðan konan komst upp úr við illan leik, alvarlega slösuð.
Lögregla segir að óvandaður frágangur á rafmagni hafi valdið slysinu. Maðurinn, Jorge Guillen, var úrskurðaður látinn við komuna á sjúkrahús en konan, Lizette Zambrano, var flutt á sjúkrahús í Bandaríkjunum í lífshættu.