Hvetur NSA símaeigendur til að slökkva á símum sínum að minnsta kosti einu sinni í viku. Ástæðan er að með þessu er hægt að minnka líkurnar á svokölluðu „zero-click exploits“. Þetta er veira sem tölvuþrjótar geta sent í farsíma og þurfa símnotendur ekki að opna tengil eða hlaða einhverju niður til að óværan taki sér bólfestu í símanum. Forbes skýrir frá þessu.
NSA segir að með því að slökkva og kveikja á farsímanum séu miklar líkur á því að hægt sé að koma í veg fyrir að utanaðkomandi geti hlustað á símtöl eða stolið gögnum úr símanum.
NSA mælir einnig með að fólk slökkvi á Bluetooth þegar það er ekki verið að nota það og uppfæri símann um leið og uppfærslur eru sendar út. Farsímaeigendur eru hvattir til að nota að minnsta kosti sex stafa lykilorð fyrir símana sína og stilla þá þannig að þeir eyði öllu sem á þeim er ef búið er að reyna tíu sinnum að opna þá með röngu lykilorði.