fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Pressan

Heuermann verði ákærður fyrir fimmta morðið í vikunni – Rannsakendur hafi fundið tengsl við morð sem voru eignuð „Manorville-slátraranum“

Pressan
Mánudaginn 3. júní 2024 19:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arkitektinn og meinti raðmorðinginn Rex Heuermann á yfir höfði sér enn eina ákæruna ef marka má frétt New York Post í dag. Þar segir að Heuermann verði dreginn fyrir dóm á fimmtudaginn þar sem hann verður ákærður fyrir fimmta morðið.

New York Post hefur þetta eftir heimildum og það sama segir miðillinn Newsday sem segist hafa fjölda heimilda fyrir því að á fimmtudag mæti Heuermann fyrir dóm í Riverhead til að svara fyrir enn eina ákæruna.

Um miðjan maí mánuð sneri lögregla aftur að heimili Heuermann og fjölskyldu í Long Island. Þar fór fram sex daga húsleit. Rétt áður bárust fréttir um að lögregla væri með umfangsmikla leit í gangi í Manorville. Þar fundust fyrir rúmlega tuttugu árum líkamshlutar þeirra Jessicu Taylor og Valerie Mack. Líkamsleifar þeirra fundust einnig við Gilgo-ströndina árin 2010-2011 á svipuðu svæði og lík þeirra fjögurra kvenna sem Heuermann er þegar sakaður um að hafa banað.

Fox fréttastofan greinir frá því að sönnunargögn hafi fundist við leit lögreglu í Manorville í apríl. Innan við mánuði eftir leitina þar mætti lögregla á heimili Heuermann með nýja húsleitarheimild. Fyrrum rannsóknarlögreglumaðurinn Paul Mauro, segir í samtali við Fox að líklega hafi lögreglan fundið erfðaefni í Manorville sem þau vildu bera saman við eitthvað á heimili Heuermann.

Heuermann er ákærður fyrir að hafa banað; Melissu Barthelemy sem var 24 ára vændiskona og sást seinast á lífi árið 2009, Maureen Brainard-Barnes, sem var 25 ára og sást seinast á lífi árið 2007, Amber Lynn Costello sem var 27 ára kona sem glímdi við fíknisjúkdóm og sást seinast á lífi árið 2010 og svo Megan Waterman sem var 22 ára fylgdarkona sem sást seinast sumarið 2010 á lífi.

Slátrarinn í Manorville

Konurnar fjórar fundust á svipuðu svæði við Gilgo-ströndina, þeim hafði verið banað með áþekkum hætti, voru á svipuðum aldri, allar fremur smágerðar og höfðu lagt stund á vændi.

Við Gilgo-ströndina fundust þó einnig Jessica Taylor og Valerie Mack, sem báðar störfuðu sem fylgdarkonur. Búkur Tayor fannst í Manorville árið 2003 og útlimir hennar við Gilgo-ströndina 2011. Búkur Mack fannst í Manorville árið 2000 en svo fundust bein úr henni við Gilgo-ströndina árið 2011. Búkar beggja kvenna voru vafðir inn í plast. Þegar búkarnir fundust var farið að tala um slátrarann í Manorville, eða búkamorðinginn í Manorville.

Um tíma voru morðin eignuð smið að nafni John Bittrolff sem árið 2016 var dæmdur fyrir að myrða vændiskonurnar Rita Tangredi og Colleen McNamee. Bittrolff var búsetur í Manorville og starfaði sem smiður. Um tíma var talið að hann bæri ábyrgð á búkunum í Manorville og síðar líkunum við Gilgo-ströndina. Bittrolff hins vegar barði fórnarlömb sín til bana og skildi svo eftir úti í vegakanti. Ekki var vitað til þess að hann hlutaði fórnarlömb sín niður.

Rex Heuermann fylgdist náið með málum Bittrolff á sínum tíma og leitaði upplýsinga um hann á Google, eins og gögn úr leitarsögu hans á netinu hafa sýnt.

Móðir og barn án nafns

Einnig fundust líkamsleifar karlmanns, sem er talinn hafa verið asískur á aldrinum 17-23 ára. Hann fannst í kvenmannsfatnaði sem er talið gefa til kynna að um trans konu hafi verið að ræða. Svo var það kona sem ekki hefur tekist að bera kennsl á en hún hefur verið kölluð Peaches út af húðflúri sem hún hafði af ferskju. Hluti líkamsleifa Peaches höfðu áður fundust í Hampstead Lake þjóðgarðinum árið 1997 en við Gilgo-ströndina árið 2011 fundust bein úr Peaches og líkamsleifar 2 ára stúlku sem erfðarannsókn sýndi að var dóttir Peaches.

Loks var það Karen Vergata sem sást seinast á lífi árið 1996. Fætur hennar fundust sama ár við Fire Island. Líkamshlutar úr Vergata fundust svo við Gilgo-ströndina árið 2011.

Loks er það Shannan Gilbert sem var fylgdarkona sem hvarf í maí árið 2010. Það var leitin að henni sem varð til þess að öll sem eru talin upp hér að ofan fundust loks. Sjálf fannst Gilbert látin í mýrlendi ekki langt frá Gilgo-ströndinni. Lögregla telur þó að Gilbert hafi látið lífið að slysförum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Getur hjátrúin sagt til um gestakomur?

Getur hjátrúin sagt til um gestakomur?
Pressan
Fyrir 5 dögum

Kínverskur njósnari fékk leyfi til að gefa út blaðamannaskírteini í Svíþjóð

Kínverskur njósnari fékk leyfi til að gefa út blaðamannaskírteini í Svíþjóð
Pressan
Fyrir 5 dögum

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum