fbpx
Föstudagur 14.mars 2025
Pressan

Sakamál: Leyndarmál Jennifer – Óhugnanleg innrás á heimili fjölskyldu

Pressan
Sunnudaginn 2. júní 2024 22:00

Jennifer Pan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að nóttu þann 8. nóvember árið 2011 barst neyðarlínunni símtal frá heimili fjölskyldu í Ontario-héraðinu í Kanada. Innhringjandi var ung kona að nafni Jennifer Pan og greindi hún frá því að þrír vopnaðir menn hefðu ruðst inn á heimili fjölskyldunnar og krafið heimilisfólk um peninga. Sagði Jennifer að mennirnir hefðu bundið hana við stigahandrið, skotið foreldra hennar og síðan flúið af vettvangi.

Er lögregla kom á vettvang var móðir Jennifer, Bich Ha, látin, en heimilisfaðirinn, Huei Hann, var stórslasaður og var fluttur á bráðadeild þar sem hann lá í dauðadái næstu vikur.

Jennifer var hins vegar ómeidd og næstu daga og vikur yfirheyrðu lögreglumenn hana í þaula til að reyna að fá myndi af því sem hafði gerst, mögulegum ástæðum fyrir glæpnum, og hverjir árásamennirnir væru.

Það þótti sérkennilegt að Jennifer hefði tekist að ná í símann sinn og hringja í neyðarlínuna þegar hún var með hendurnar bundnar við stigahandrið. Hún sýndi hins vegar lögreglumönnunum sem yfirheyrðu hana hvernig hún hefði farið að, hún náði að seilast eftir símanum sínum í rassvasann, velja númer og tala í símann. Sýndi hún þetta á sannfærandi hátt fyrir lögreglumönnunum. En síðar kom annað í ljós sem gerði framburð hennar vafasaman.

Harðduglegir flóttamenn frá Víetnam

Foreldrar Jennifer höfðu komið til Kanada sem flóttamenn frá Víetnam árið 1979, hvort í sínu lagi, og gifst þar. Þau eignuðust tvö börn, Jennifer og Felix, sem var þremur árum yngri en var ekki heima nóttina örlagaríku þegar innrásin var gerð á heimilið.

Foreldrar Jennifer voru harðduglegt fólk sem náði með eljusemi og aga að komast í nokkrar álnir. Þau voru þó engir auðkýfingar en höfðu komið ár sinni vel fyrir borð. Þau gerðu miklar kröfur til barnanna sinna og ætluðust til þess að þau sköruðu fram úr á öllum sviðum, í námi og tómstundum.

Þrátt fyrir að Jennifer væri samstarfsfús við lögreglu gat hún ekki gefið nægilega góða lýsingu á innrásarmönnunum og lögregla hafði lengi vel enga hugmynd um hver þeir voru. Það var ekki fyrr en faðir Jennifer, Huei Hann, vaknaði úr dáinu og fór að ræða við lögreglu sem hreyfing komst á rannsóknina.

Jennifer í yfirheyrslu hjá lögreglu.

Kiknaði undan pressu foreldranna

Huei Hann skýrði lögreglu frá því að þegar hann lá særður á gólfinu í húsi sínu hafi hann orðið var við að Jennifer átti í afslöppuðum samskiptum við innrásarmennina og virtist þekkja þá. Hann varð ekki var við að þeir beittu hana ofbeldi eða byndu hana.

Sem vænta má vakti þetta bæði áhuga og tortryggni lögreglunnar. Þegar við bættist að foreldrar Jennifer höfðu bundið enda á nokkurra ára langt ástarsamband hennar við mann að nafni Daniel Wong vaknaði sterkur grunur um að hún ætti hlutdeild í glæpnum.

Daniel hafði gerst sekur um fíkniefnasölu, þó að hann væri hættur slíku, og var í láglaunavinnu. Foreldrar Jennifer töldu hann engan veginn samboðinn hennar og skipuðu henni að slíta sambandinu. Faðirinn hafði í kjölfarið strangt eftirlit með Jennifer og um tíma fékk hún ekki einu sinni að nota snjallsíma.

Þegar lögregla fór að sauma að Jennifer játaði hún ekki strax hlutdeild sína í glæpnum en lýsti opinskátt lygavef sem hún hafði spunnið gagnvart foreldrum sínum. Áður var vikið að mikilli kröfuhörku foreldranna, sem kom aðallega frá föðurnum en móðirin fylgdi honum í þeim efnum, en treglega. Þess var krafist að Jennifer væri alltaf með toppeinkunnir, nokkuð sem hún, þegar á leið skólagönguna, gat ekki staðið undir. Þá fór hún bara að falsa einkunnarspjöldin og varð býsna flínk í að framvísa til foreldranna toppeinkunnum.

Slíkar falsanir færðust í aukana. Eftir framhaldsskóla taldi hún foreldrum sínum trú um að hún hefði skráð sig í nám í lyfjafræði og sýndi þeim reglulega einkunnir úr náminu. Þær voru falsaðar. Jennifer var ekki í neinu námi. Þegar hér var komið sögu átti hún að fara að útskrifast og síðan fara að starfa í faginu. Brátt kæmi að því að hún gæti ekki lengur haldið blekkingunni gangandi. Kvíðinn var óbærilegur.

Var sjálf höfuðpaurinn

Meðfram því sem lögregla hélt áfram að yfirheyra Jennifer, og gekk hart að henni, náði hún tali af Daniel Wong. Fljótlega eftir það kom allur sannleikurinn í ljós. Jennifer var höfuðpaurinn og hafði með aðstoð Daniels ráðið þrjá menn til að bana foreldrum sínum. Hún skipulagði ódæðið og sagði mönnunum til. Lagði hún mikið upp úr því að innrásin liti út eins og rán.

Sem vænta má vakti glæpurinn mikla furðu og ljóst er að hin unga og sakleysislega Jennifer Pan leit ekki út fyrir að vera morðingi. Hún sá ekki aðra leið út úr lygum sínum en þessa  og ljóst er að málshátturinn „sannleikurinn er sagna bestur“ hafði ekki nógu mikið vægi í huga hennar. Hún gat ekki fengið sig til að segja foreldrum sínum sannleikann en hún hafði það í sér að láta myrða þau.

Jennifer Pan var dæmd í lífstíðarfangelsi árið 2014. Karlarnir fjórir sem voru viðriðnir málið fengu sama dóm.

Vinsæl heimildarmynd um málið er núna til sýningar á Netflix. Myndin ber heitið „What Jennifer Did“. Sjá nánar hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Setja starfsfólkinu afarskilyrði – Gangið í hjónaband eða missið vinnuna

Setja starfsfólkinu afarskilyrði – Gangið í hjónaband eða missið vinnuna
Pressan
Í gær

Hún er 108 ára og starfar enn sem rakari

Hún er 108 ára og starfar enn sem rakari
Pressan
Fyrir 3 dögum

Elon Musk hefur tapað rúmlega 120 milljörðum dollara á þremur mánuðum

Elon Musk hefur tapað rúmlega 120 milljörðum dollara á þremur mánuðum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Bað gervigreind Elon Musk að reikna líkurnar á því að Trump sé rússneskur útsendari – Þetta var svarið

Bað gervigreind Elon Musk að reikna líkurnar á því að Trump sé rússneskur útsendari – Þetta var svarið