Samkvæmt nýlegri rannsókn vísindamanna við Háskólann í Lundi í Svíþjóð er mögulegt að húðflúr hafi í för með sér 21 prósent meiri hættu á því að húðflúraðir einstaklingar fái krabbamein.
Það er Daily Mail sem greinir frá.
Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarnir eru 21 prósent meiri líkur á að húðflúraðir einstaklingar fái eitilfrumukrabbamein en einstaklingar sem ekki eru með húðflúr.
Eitilfrumukrabbamein hefur áhrif á hvítu blóðkornin í líkamanum sem leika lykilhlutverk við að berjast gegn hvers kyns sýkingum.
Tengslin milli eitilfrumukrabbameins og húðflúra eru talin eiga rætur sínar að rekja til krabbameinsvaldandi efna í bleki sem notað er til að skapa húðflúrin. Þegar þessum efnum er komið inn í húðina við húðflúrun þá skynjar ónæmiskerfi líkamans það sem utanaðkomandi ógn og fer af stað. Þetta viðbragð líkamans orsakar bólgur í líkamanum sem geta stuðlað að myndun krabbameins.
Rannsóknin fór í megindráttum þannig fram að fólk á aldrinum 20 til 60 ára sem greinst hafði með eitilfrumukrabbamein fékk spurningalista um lífstíl sinn, í þeim tilgangi að komast að því hvort viðkomandi væri með húðflúr. Til viðmiðunar var annar hópur fólks á sama aldri beðinn um að fylla sama spurningalista út en þessi hópur hafði ekki verið formlega greindur með eitilfrumukrabbamein. Í fyrrnefnda hópnum voru 1.400 manns en 4.193 í þeim síðarnefnda.
Í hópi þeirra sem greinst höfðu með eitilfrumukrabbamein voru 21 prósent með húðflúr en 18 prósent í hinum hópnum. Eftir að aðrir þættir eins og til dæmis aldur og hvort viðkomandi reyki voru teknir með í reikninginn komust vísindamennirnir eins og áður segir að þeirri niðurstöðu að 21 prósent meiri líkur séu á því að fá eitilfrumukrabbamein sé maður með húðflúr.
Vísindamennirnir höfðu áður sett fram þá tilgátu að stærð húðflúra hefði eitthvað að segja um hversu miklar líkurnar væru á aukinni hættu á eitilfrumukrabbameini. Rannsóknin leiddi hins vegar í ljós að sú tilgáta stóðst ekki og stærð húðflúra hefur því ekki áhrif á hversu mikil hætta er á eitilfrumukrabbameini.
Vísindamennirnir eru ekki vissir um hvers vegna stærð húðflúranna skiptir ekki máli en segja áðurnefndna skýringu mögulega, um að við húðflúrun orsaki blekið bólgur þegar það kemst inn í húðina, sem geti komið krabbameini af stað. Tengslin milli húðflúrs og eitifrumukrabbameins séu því flóknari en þeir hafi áður talið.
Næst á döfinni hjá vísindamönnunum er að rannsaka hvort að tengsl eru milli annarra tegunda krabbameins og húðflúra.