Flest tökum við eflaust verkjalyf með því að skella töflu í okkur og síðan vatnsglasi. Bandarískir vísindamenn hafa komist að því að það er ekki sama í hvaða líkamsstellingu við erum þegar við tökum verkjalyf, það er að segja ef við viljum að þau virki hratt. Er þá átt við lyf sem eru tekin í gegnum munninn.
Mirror segir að samkvæmt niðurstöðu vísindamannanna þá sé áhrifaríkast að liggja á hægri hliðinni þegar lyfin eru tekin. Ekki á vinstri hliðinni, þá getur lengri tími liðið þar til þau virka.
Í rannsókninni, sem hefur verið birt í Physics of Fluids, kemur fram að ef legið er á hægri hliðinni þegar lyfið er tekið þá taki maginn hraðar við því og byrji því fyrr að brjóta það niður og þar með gæti áhrifa þess fyrr.