fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Pressan

Hvítasunnuleiðtoginn fjölþreifni

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 19. maí 2024 17:30

Mike Bickle. Mynd/Wikimedia Commons

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvítasunnusöfnuðir eru einn angi kristinnar kirkju og staðsettir víða heim þar á meðal á Íslandi. Trúarlegar áherslur slíkra safnaða ganga meðal annars út á beint samband við Guð og Jesú Krist, ekki síst fyrir tilstuðlan heilags anda. Hvítasunnusöfnuðir hafa oft þótt sýna mikla ákefð í sinni trúariðkun og á sumum samkomum þeirra er til að mynda mikið um söng og áköf köll til Guðs. Fjöldi hneykslismála hafa hins vegar komið upp undanfarna áratugi, víða um heim, þar sem leiðtogar hvítasunnusafnaða hafa komið við sögu. Einn þeirra er hinn bandaríski Michael Leroy Bikle, sem er yfirleitt kallaður Mike, en hans helsta synd var að misnota ungar stúlkur og ungar konur.

Mike Bickle er í dag 68 ára gamall. Þegar hann var 15 ára heyrði hann þáverandi leikstjórnanda ruðningsliðsins Dallas Cowboys, Roger Staubach, tala um persónulegt samband sitt við Jesú Krist og ákvað Bickle þá að slíkt samband vildi hann eiga og gekk í hvítasunnusöfnuð.

Alþjóðlega bænahúsið

Með tímanum varð Bickle að presti. Hann hefur oft haldið því fram að hafa hitt sjálfan Guð og heyrt rödd hans.

Þegar komið var undir lok síðustu aldar, árið 1999, var Bickle prestur í fjölmennum söfnuði í heimaborg sinni Kansas City. Hann ákvað að stofna sinn eigin hvítasunnusöfnuð sem átti ekki eingöngu að starfa í Kansas City heldur um heim allan. Söfnuðurinn var nefndur Alþjóðlega bænahúsið (International House of Prayer). Alþjóðlega bænahúsið stendur meðal annars fyrir bænafundum allan sólarhringinn, allt árið um kring. Undir merkjum söfnuðarins var stofnaður biblíuskóli og söfnuðurinn hefur haldið úti ýmis konar góðgerðarstarfsemi.

Bickle þótti alþýðlegur í allri framgöngu sinni sem leiðtogi Alþjóðlega bænahússins. Hann klæddist venjulegum fötum á samkomum og var sagður, ólíkt sumum leiðtogum annarra hvítasunnusafnaða, ekki hafa reynt að ýta undir dýrkun á honum sjálfum.

Bickle var þó ekki laus við gagnrýni. Hann var meðal annars sakaður um boðun gyðingahaturs. Bickle er þó yfirlýstur stuðningsmaður Ísrael.

Hann hefur hins vegar hvatt til þess að kristnir biðji fyrir því að Gyðingum verði veitt syndaaflausn og sagði meðal annars í predikunum að Gyðingum yrði safnað saman í fangabúðir, áður en Jesús snýr aftur til jarðarinnar, og að Guð myndi gefa Gyðingum færi á að taka upp kristni en kalla til veiðimenn sem myndu eltast við þá Gyðinga sem myndu neita að gera slíkt. Bickle sagði einnig í predikun að frægastur slíkra veiðimanna væri Adolf Hitler. Gagnrýni á þetta orðfæri var svarað með því að þar hefði Bickle verið að vitna í kafla úr biblíunni.

Bickle hefur einnig verið gagnrýndur fyrir að líta framhjá ásökunum um kynferðisbrot af hálfu presta sem tengst hafa söfnuðum hans. Í október á síðasta ári kom hins vegar upp úr krafsinu að hann var sjálfur ekki alsaklaus í þeim efnum.

Löng saga misnotkunar

Í lok október á síðasta ári birtu fjölmiðlar vestanhafs fréttir um að ótilgreindur fjöldi kvenna hefði sakað Mike Bickle um kynferðislega misnotkun á löngu tímabili, allt frá níunda áratug síðustu aldar. Í nóvember var hann sendur í leyfi frá störfum sínum fyrir Alþjóðlega bænahúsið sem réð lögmannsstofu til að rannsaka málið og leiddi sú rannsókn í ljós að ásakanirnar ættu við rök að styðjast.

Meðal þeirra kvenna sem stigu fram var kona sem vildi ekki láta nafn síns getið og var því kölluð Jane Doe í fjölmiðlum, sem er nafn sem venjulega er gefið konum sem ekki er vitað hverjar eru eða vilja njóta nafnleyndar.

Samkvæmt fréttum vefmiðilsins The Roys Report flutti Jane Doe árið 1996 til Kansas City til að starfa fyrir Bickle en hann var vinur föður hennar. Hún var 19 ára en hann 42 ára. Hún segir að Bickle hafi unnið markvisst að því að fullvissa hana um að hún ætti bjarta framtíð fyrir höndum í trúarlegu tilliti og hafi flutt þann spádóm að hún myndi hafa mikil áhrif á trúarlíf kristinna og verða mikill leiðtogi. Innan nokkurra vikna hafi Bickle sagt við hana í símtali að Guð hafi rætt um hana við sig og sagt sér að eiginkona hans myndi senn láta lífið og þau tvö, Jane Doe og Bickle, myndu giftast. Hún segir að henni hafi heyrst Bickle vera ölvaður þegar hann lét þessi orð falla.

Næstu þrjú árin fram til 1999 hafi það meðal annars gerst að Bickle hafi komið henni fyrir í íbúð, átt kynferðisleg samskipti við hana og ítrekað margsinnis spádóma sína um hana og að þau myndu giftast. Hún segir að hann hafi viðhaft samskonar framkomu við fleiri konur á þessum tíma og hún hafi meðal annars orðið vitni að því þegar hann hafi káfað á vinkonu hennar.

Hefur hegðun sem þessari þar sem eldri karlmaður nýtir sér aðstöðu- og þroskamun gagnvart ungum konum og jafn framt áhrifagirni þeirra, til að stofna til kynferðislegra samskipta við þær, verið lýst sem „grooming“ á ensku sem hefur verið oftast þýtt sem tæling á íslensku.

Aðeins 14 ára

Í febrúar síðastliðnum steig kona að nafni Tammy Woods fram í viðtali við fjölmiðilinn Kansas City Star. Í viðtalinu greindi hún frá því að sumarið 1980 hafi Mike Bickle farið að tæla hana. Hann var 25 ára en hún aðeins 14 ára gömul. Átti þetta sér stað í St. Louis þar sem Bickle starfaði sem prestur í hvítasunnusöfnuði. Bickle fékk stúlkuna til að gæta barnungra sona sinna. Woods segist hafa verið afar feimin og Bickle hafi sýnt henni áhuga og áunnið sér traust hennar með því að ræða við hana og kenna henni allt um biblíuna og trúnna. Þau hafi farið að eyða tíma ein saman. Hún hafi orðið skotin í honum og hann hafi einn daginn sagt við hana að hann elskaði hana. Eins og hann sagði við Jane Doe sagði Bickle við Tammy að kona hans myndi deyja og að þau gætu þá verið saman.

Tammy segir að loks hafi hann farið að kyssa hana og það þróast út í ýmis konar kynferðislega snertingu en þó hafi aldrei verið um samfarir að ræða. Hún var enn aðeins 14 ára þegar misnotkunin hófst. Þessi samskipti hafi loks endað 1983 þegar hann flutti ásamt eiginkonu og börnum til Kansas City.

Hún segir að fyrst þegar ásakanir á hendur honum hafi komið fram hafi Bickle haft samband við hana og þrýst á um að hún myndi þegja um samskipti þeirra. Hún hafi sagt honum að það myndi hún gera en þegar hún hafi lesið frásögn Jane Doe hafi hún ákveðið að stíga fram og segja sögu sína.

Ítreka ber að Tammy Woods og Jane Doe eru ekki einu konurnar sem hafa lagt fram ásakanir um kynferðislega misnotkun á hendur Bickle.

Ekki finnast í fljótu bragði fréttir af viðbrögðum Bickle við ásökunum Tammy Woods sem eins og áður sagði komu fram í febrúar síðastliðnum.

Þeim er trúað

Í desember á síðasta ári játaði Mike Bickle að hluti þeirra ásakana sem þá voru komnar fram væru réttar en hafnaði því að þær sem eftir stóðu ættu við rök að styðjast. Tíu dögum síðar sleit Alþjóðlega bænahúsið öll tengsl við hann og í febrúar birti það tilkynningu á vef sínum þar sem tekið var fram að söfnuðurinn tryði Tammy Woods og Jane Doe. Hegðun Mike Bickle hefði verið sjúkleg og bryti í bága við orð Guðs. Jafn framt var viðurkennt að innan safnaðarins hefði ekki verið tekið nægilega vel á málinu þegar ásakanir á hendur Bickle komu upphaflega fram.

Af Bickle virðist lítið hafa verið að frétta síðustu vikur. Heimasíða hans hefur ekki verið uppfærð í nokkurn tíma og nýjustu myndböndin á Youtube-síðu hans eru hálfs árs gömul.

Hvort einhverjar lagalegar afleiðingar verða af hegðun hans á því líklega eftir að koma í ljós.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Fór að reykja og endaði hangandi utan á háhraðalest

Fór að reykja og endaði hangandi utan á háhraðalest
Pressan
Fyrir 2 dögum

Norður-Kórea opnar IKEA – En IKEA hefur ekki opnað í Norður-Kóreu

Norður-Kórea opnar IKEA – En IKEA hefur ekki opnað í Norður-Kóreu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Slakar þú best á yfir sönnum sakamálum? – Stórt rautt flagg að mati sálfræðings

Slakar þú best á yfir sönnum sakamálum? – Stórt rautt flagg að mati sálfræðings
Pressan
Fyrir 3 dögum

Óvenjuleg ofnæmiskast – Hnetuofnæmið vaknaði þegar hún stundaði kynlíf

Óvenjuleg ofnæmiskast – Hnetuofnæmið vaknaði þegar hún stundaði kynlíf
Pressan
Fyrir 4 dögum

Viltu léttast? Svona mikla hreyfingu þarf til

Viltu léttast? Svona mikla hreyfingu þarf til
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þessi slæmi morgunvani getur aukið líkurnar á elliglöpum

Þessi slæmi morgunvani getur aukið líkurnar á elliglöpum