Bandarískur maður, Caz Craffy, starfaði sem fjármálaráðgjafi fyrir fjölskyldur látinna hermanna. Var honum ætlað að ráðleggja fjölskyldunum hvernig væri best fyrir þær að ráðstafa bótum og líftryggingafé sem þær fengu greiddar eftir að viðkomandi hermaður féll frá. Í ljós hefur hins vegar komið að Craffy sveik féð, sem hann átti að hjálpa til við að ráðstafa, út úr fjölskyldunum.
NBC greinir frá málinu og ræðir við Sharon Hartz en 26 ára gamall sonur hennar var liðþjálfi í landhernum þegar hann lést skyndilega vegna hjartasjúkdóms.
Það kom Hartz hins vegar að óvörum að hún myndi fá samtals hálfa milljón dollara (andvirði um 70 milljóna íslenskra króna) greiddar í dánarbætur og líftryggingu.
Foringingi úr landhernum sem aðstoðaði Hartz meðal annars við að skipuleggja útförina sagði að hún yrði að hitta fjármálaráðgjafa á vegum landhersins svo tryggt yrði vel væri farið með peningana.
Ók herforinginn Hartz til fundar við Craffy en meðfram starfinu sem fjármálaráðgjafi fjölskyldna látinna hermanna úr landhernum var hann í varaliði landhersins.
Hún segir Craffy hafa komið afar vel fyrir og verið vinalegan og hún því treyst honum.
Craffy hefur nú játað að hafa svikið milljónir dollara út úr fjölda fjölskyldna látinna hermanna.
Hartz segir að hún hafi tapað um 200.000 dollurum (um 28 milljónum íslenskra króna) eftir svik Craffy. Hún segist nú ekki hafa efni á því að setjast í helgan stein og skammast sín verulega fyrir að hafa látið plata sig.
Hlutverk Craffy var aðeins að veita ráðgjöf en saksóknarar segja að hann hafi brotið reglur hersins með því að sjá um að fjárfesta fyrir hönd fjölskyldnanna en auk starfsins fyrir herinn starfaði hann við eignastýringu. Hann sannfærði fjölskyldurnar um að afhenda þeim fé sitt og tók síðan vænan skerf fyrir sjálfan sig í umboðslaun og setti afganginn í áhættusamar fjárfestingar sem flestar gengu ekki upp. Afleiðingarnar urðu þær að féð sem fjölskyldurnar létu hann fá hvarf eins og dögg fyrir sólu.
Natasha Cruz-Bevard var gift hermanni sem tók eigið líf en hann gegndi herþjónustu meðal annars í Írak. Hún segist hafa látið Craffy fá 500.000 dollara, sem hún fékk í bætur og tryggingagreiðslur, en af þeim hafi 260.000 tapast í umboðslaun til hans og afgangurinn í áhættusömum fjárfestingum en hún segist hafa lagt það fyrir Craffy að sýna varfærni í fjárfestingum sem hann hafi ekki farið eftir.
Hartz og Cruz-Bevard segja báðar að Craffy hafi beint sjónum sínum sérstaklega að fjölskyldum sem höfðu takmarkaða þekkingu á fjárfestingum. Hann hafi sannfært þær um að hann væri vinur þeirra.
Saksóknarar segja að hann hafi hvatt þær báðar til að vera ekki að skoða yfirlit yfir stöðu fjármuna þeirra og fullvissað þær um að gróði af fjárfestingum myndi duga vel fyrir háum umboðslaunum hans og gott betur.
Craffy er sakaður um að nota hið illa fengna fé meðal annars til að fjármagna íburðarmikið brúðkaup sitt og að kaupa hús fyrir 2,1 milljón dollara (294 milljónir íslenskra króna) í New Jersey.
Craffy á yfir höfði sér 10 ára fangelsi en fjölskyldurnar vilja fá svör við því hvers vegna landherinn vísaði þeim á hann og hvernig það gat gerst að hann hafi getað svikið svo margar fjölskyldur í svo langan tíma, án þess að nokkur hjá landhernum tæki eftir því. Telja fjölskyldurnar ljóst að landherinn verði að axla ábyrgð í málinu og útiloka ekki málsókn.