fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Pressan

Orrustan um Bretland

Pressan
Sunnudaginn 21. apríl 2024 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir að Þjóðverjar höfðu valtað yfir Frakka og hernumið Frakkland í júní 1940 var Adolf Hitler þeirrar skoðunar að Bretar myndu sækjast eftir að gera friðarsamning við Þjóðverja. En Bretar voru alls ekki á þeim buxunum og voru staðráðnir í að berjast áfram gegn nasistum. Hitler skoðaði vel þá hernaðarlegu möguleika sem voru uppi í stöðunni en hann vildi binda skjótan endi á stríðið. Hann fyrirskipaði herjum sínum að undirbúa innrás í Bretland og fékk aðgerðin nafnið „Aðgerðin sæljón“. En til að innrásin gæti gengið upp og tekist þurftu Þjóðverjar að tryggja sér yfirráð í lofti yfir suðurhluta Englands og gera út af við þá ógn sem þeim stafaði af breska flughernum, Royal Air Force (RAF). Vel heppnaðar loftárásir á Bretland voru að mati þýskra herforingja lykillinn að því að „Sæljónsaðgerðin“ gæti heppnast. Í kjölfarið hófst hin víðfræga orrusta um Bretland, stríð sem var háð í háloftunum yfir Bretlandi og Ermarsundi. Þar tókust RAF og Luftwaffe (þýski flugherinn) á um yfirráð í lofti.

RAF varð sjálfstæð eining innan breska hersins 1918 en þróaðist hægt á árunum eftir fyrri heimsstyrjöldina en á síðari helmingi fjórða áratugarins var þróunin hröð, aðallega sem svar við vaxandi ógn frá Þýskalandi nasismans. Þjóðverjum hafði verið bannað að eiga flugher eftir fyrri heimsstyrjöldina en nasistar settu Luftwaffe samt sem áður á laggirnar og þegar kom fram á árið 1940 var Luftwaffe stærsti og besti flugher heimsins. Luftwaffe hafði beðið mikið tjón í orrustunni um Frakkland en þegar komið var fram í ágúst voru þær þrjár deildir Luftwaffe, sem áttu að sjá um árásir á Bretland, tilbúnar til verksins. Til að mæta þessu tefldi RAF fram bestu orrustuflugvélum heims, Hurricane og Spitfire.

Nýtt ratsjárkerfi

Bretar höfðu þróað nýtt loftvarnarkerfi sem veitti þeim mikið og mikilvægt forskot í orrustunni um Bretland. Það nefndist The Dowding System en með því voru varnir á jörðu niðri og stjórn orrustuflugvélanna sameinaðar í eitt kerfi. Með ratsjám vissi RAF tímanlega af ferðum Luftwaffe og hægt var að beina Hurricane- og Spitfire-vélunum til móts við flugvélar Luftwaffe. Bretlandi var skipt í fjögur varnarsvæði sem var síðan skipt niður í minni einingar. Á hverju varnarsvæði var sérstök aðgerðastjórn sem sá um að senda orrustuflugvélarnar á loft til móts við flugvélar Luftwaffe. Nýjar upplýsingar bárust stöðugt úr ratsjárkerfinu og var þeim komið til flugmanna RAF jafnóðum. Auk þess var loftvarnarkerfum á jörðu niðri stýrt af þessum aðgerðastjórnum. Dowding System gat tekið við og unnið úr miklu magni upplýsinga á skömmum tíma og gerði aðgerðastjórum kleift að hámarka þá takmörkuðu kosti sem þeir höfðu úr að spila hverju sinni.

Orrustan um Bretland stóð frá júlí þar til í október 1940. Í fyrstu réðst Luftwaffe á skotmörk við strendur landsins og skip á Ermarsundi. Aðalárásin hófst síðan 13. ágúst. Þá var flogið lengra inn yfir land og árásir gerðar á flugvelli og fjarskiptamiðstöðvar. RAF átti í vök að verjast en lagði allt að veði. Síðustu vikuna í ágúst og þá fyrstu í september, sem skiptu sköpum í orrustunni, lögðu Þjóðverjar mikla áherslu á að eyðileggja stjórnstöðvar RAF. Flugvellir, sérstaklega á suðurhluta Englands, urðu illa úti en voru þó nothæfir. En Luftwaffe ofmat árangur árása sinna og komst að þeirri niðurstöður að RAF væri kominn að fótum fram. Hið rétta var að RAF var illa á sig kominn en enn starfhæfur. Þann 7. september gerðu Þjóðverjar þau reginmistök að beina árásum sínum frá flugvöllum og stjórnstöðvun RAF og að Lundúnum. Þetta hafði að sjálfsögðu hræðileg áhrif á íbúa Lundúna en veitti RAF jafnframt tækifæri til að jafna sig og styrkja sig á nýjan leik.

Þann 15. september hratt RAF gríðarlega öflugri loftárás Luftwaffe sem þurfti að þola mikið tap á flugmönnum og flugvélum þennan dag. Nú varð ljóst að Luftwaffe stóð ekki undir því mikla tapi sem fylgdi árásunum á Bretland. Þær héldu samt sem áður áfram í nokkrar vikur til viðbótar en ljóst var að Luftwaffe hafði mistekist að tryggja þau yfirráð í lofti sem voru nauðsynleg til að hægt væri að ráðast með landher yfir Ermarsund og á Bretlandseyjar. Á endanum frestaði Hitler „Sæljónsaðgerðinni“.

Spitfire vélar breska flughersins

Hetjudáðir flugmanna RAF

Í ræðu sem Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, hélt 20. ágúst 1940 í breska þinginu lét hann ein frægustu ummæli sín falla um flugmenn RAF sem börðust svo hetjulega gegn Luftwaffe en ræðan hefur verið nefnd „The Few“.

„Never in the field of human conflict was so much owed by so many to so few.“  Sem er yfirleitt stytt í: „Never was so much owed by so many to so few.“

Á íslensku útleggst þetta: „Aldrei hafa svo margir átt svo fáum svo mikið að þakka.“

Þessi orð áttu svo sannarlega vel við þá tæplega 3.000 flugmenn sem börðust fyrir RAF í orrustunni um Bretland. Þeir hafa síðan verið kallaðir „The Few“ en 15. september ár hvert er tileinkaður þeim og þeirra er þá minnst sérstaklega í Bretlandi.

Flestir flugmannanna voru Bretar en einnig voru margir þeirra frá öðrum ríkjum, aðallega hernumdum Evrópuríkjum og ríkjum í Breska samveldinu. Má þar nefna Nýja-Sjáland, Ástralíu, Kanada, Suður-Afríku, Belgíu, Frakkland, Pólland og Tékkóslóvakíu. Einnig voru flugmenn frá hlutlausum ríkjum eins og Bandaríkjunum og Írlandi meðal liðsamanna RAF.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Umhugsunarefni fyrir þá sem ætla að fá sér gæludýr

Umhugsunarefni fyrir þá sem ætla að fá sér gæludýr
Pressan
Í gær

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags