Heimsathygli vakti þegar fertugur maður, Joel Cauchi, gekk berserksgang í verslanamiðstöð í úthverfi Sydney í Ástralíu. Hann náði að stinga sex manns, 5 konur og einn karlmann, til bana áður en lögreglukona sem var ein síns liðs stöðvaði Cauchi með því að skjóta hann til bana. Nánari upplýsingar um lögreglukonuna hafa nú litið dagsins ljós. Hún heitir Amy Scott og hefur verið lofuð í hástert. Ljóst er að Scott kom í veg fyrir að Cauchi næði að myrða fleiri. Scott er hins vegar sögð fagmaður fram í fingurgóma og sýna mikla auðmýkt í kjölfar alls lofsins. Hún segist einfaldlega hafa verið að vinna sínu vinnu. Við rannsókn málsins hefur komið í ljós að Cauchi virðist ekki hafa verið algjör fangi andlegra veikinda sinna þegar hann framdi ódæðið eins og talið var í fyrstu heldur hafi hann skipulagt það fyrir fram.
Það er Daily Mail sem greinir frá þessu.
Þar kemur fram að Scott hefur þó nokkra reynslu að baki og gegnir stöðu „Inspector“ en það næsta sem kæmist því í íslensku lögreglunni væri líklega varðstjóri eða aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Scott var stödd nærri verslanamiðstöðinni þegar hún fékk upplýsingar um hvað væri þar á seiði. Hún hljóp strax af stað og hélt þegar inn í bygginguna án þess að bíða eftir aðstoð annarra lögreglumanna. Hún hljóp þar til hún stóð augliti til auglitis við Cauchi sem veifaði 30 sentímetra löngum hníf.
Scott skipaði Cauchi að leggja hnífinn frá sér. Hann hljóp þá í áttina að henni með hnífinn á lofti. Scott skaut við svo búið Cauchi í brjóstið.
Scott veitti Cauchi skyndihjálp sem og fórnarlömbum hans á meðan hún beið eftir aðstoð. Cauchi var úrskurðaður látinn á vettvangi.
Kevin Mortin formaður sambands lögreglumanna í Nýja Suður Wales, fylkinu sem Sydney tilheyrir, segist hafa rætt við Scott. Hún sé sátt við það sem hún hafi þurft að gera og líti ekki á sjálfa sig sem hetju. Hún hafi þó ekki sofið mikið fyrstu nóttina eftir atburðina í verslanamiðstöðinni.
Morton segir Scott meðvitaða um að hún hafi verið kölluð hetja en hún segist einfaldlega hafa verið að vinna sína vinnu.
Málið mun fara í hefðbundna rannsókn eins og venjan er þegar lögreglumenn verða einhverjum að bana í starfi sínu. Morton segist ekki hafa spurt Scott út í málavexti þar sem formleg skýrslutaka yfir henni eigi eftir að fara fram.
Ráðherra lögreglumála segist hafa rætt við Scott og þakkað henni fyrir að sýna svo mikið hugrekki. Lögreglukonan hafi hins vegar verið auðmýktin uppmáluð og viljað sem minnst úr eigin þætti gera. Scott hafi tekið sérstaklega fram að fleira fólk á staðnum hafi lagt sitt af mörkum og komið særðum til hjálpar.
Lögreglustjóri fylkisins hefur einnig lofað Scott í hástert.
Scott hefur áður lotið lof og viðurkenningar fyrir vasklega framgöngu í starfi.
Almennir borgarar í Ástralíu hafa ausið lofi yfir hana á samfélagsmiðlum og kallað hana þjóðhetju. Hún hefur verið lofuð fyrir að ganga fumlaust og hiklaust til verks. Sumir bentu sérstaklega á að Scott hafi mætt Cauchi án hlífðarbúnaðar.
Sumir lýstu þó áhyggjum af andlegri heilsu Scott og minntu á það tæki verulega á að verða manneskju að bana jafnvel við aðstæður eins og þessar.
Anthony Albanese forsætisráðherra Ástralíu er meðal þeirra sem kallað hafa Scott hetju og segir engan vafa leika á því að hún hafi bjargað mannslífum.
Nánari upplýsingar hafa einnig komið í ljós um morðingjann, Joel Cauchi.
Í umfjöllun News.com er greint frá því að talið hafi verið fyrst að Cauchi hefði einfaldlega enga stjórn haft á gjörðum sínum vegna geðklofa og ofsóknaræðis. Leit í síma Cauchi hefur hins vegar leitt í ljós að hann leitaði að upplýsingum á Google um hnífa og hvernig ætti að myrða fólk. Það þykir benda eindregið til að hann hafi framið árásina að yfirlögðu ráði.
Lögreglan telur Cauchi hafa haft þráhyggju fyrir bæði morðum og hnífum.
Hann er sagður einnig hafa sést á gangi í öðrum verslanamiðstöðvum í nágrenninu og því talið mögulegt að hann hafi verið að velja hvar væri best að fremja árásina.
Faðir Cauchi segir hann hafa verið greindan með geðklofa þegar hann var 17 ára og segir son sinn hafa um nokkra hríð ekki tekið geðlyfin sín.
Hann segir son sinn ekki hafa verið skrímsli heldur veikur drengur. Hann lýsir mikilli eftirsjá og sorg vegna þeirra sem sonur hans varð að bana.
Móðir Cauchi segist fullviss um að sonur sinn hafi ekki verið með réttu ráði og segir að hefði svo verið hefði hann aldrei framið slíkan verknað. Hann hafði áður komið við sögu lögreglu en aldrei vegna ofbeldis.
Fullyrt er að hann hafi sérstaklega ráðist að konum. Faðir Cauchi segist telja það hafa einkum verið vegna þess að honum hafi ekkert gengið að eignast kærustu.