Megrunarlyfin Ozempic og Wegovy, sem í grunninn eru sykursýkislyf, eru sögð tengjast 20 dauðsföllum í Bretlandi sem tilkynnt hafa verið til bresku lyfjaeftirlitsstofnunnar. Þetta kemur fram í umfjöllun Daily Mail fyrr í dag en þar kemur fram að á þessu stigi málsins séu eingöngu grunsemdir til staðar en ekki hafi verið sýnt fram á bein tengsl milli lyfjanotkunarinnar og dauðsfallanna, sem öll áttu sér stað eftir 2019.
Megrunarlyfin tvö hafa notið gríðarlegra vinsælda í hinum vestræna heimi og hafa þau hjálpað fjölda fólks að léttast. Efnið í lyfjunum, sem gerir fólki kleift að léttast, heitir semaglutide og það stuðlar að því að líkaminn framleiðir hormón sem lætur fólk upplifa seddutilfinningu auk þess sem það hægir á meltingu fæðu.
Þeir sem nota lyfin upplifa sumir margskonar aukaverkanir. Þær algengustu eru ógleði, uppköst, niðurgang, hægðatregðu, þreytu, magaverki, höfuðverk og svimi.
Eins og áður segir hafa tuttugu dauðsföll verið tilkynnt til bresku lyfjaeftirlitsstofnunnarinnar, MHRA, þar sem grunur leikur á um að áðurnefnd megrunarlyf beri ábyrgð. Opinber dánarorsök þessara sjúklinga var ekki gefin upp í átta tilvikum en fjórir sjúklingar voru sagðir hafa dáið úr hjartaáfalli en aðrir úr ofskammti, krabbameini, efnaskiptasjúkdómi og sjálfsvígi.
Í umfjöllun breska miðilsins er rifjað upp andlát 56 ára móður frá Ástralíu, Trish Webster, sem grunur leikur á að hafi látist af heiftarlegum aukaverkunum við að taka lyfið Ozempic inn. Trish fékk lyfinu ávísað frá lækni þar sem hún vildi komast í ákveðinn kjól fyrir brúðkaup dóttur sinnar. Samhliða því fékk hún lyfið Saxenda og virtust lyfin hafa góða virkni þar sem Trish hafði lést um 16 kíló á fimm mánuðum.
Í janúar 2023, nokkru fyrir brúðkaupið, kom eiginmaður Trish að henni þar sem hún lá meðvitundarlaus á gólfi heimilis þeirra og lak brúnn vökvi út um munn hennar. Trish var flutt á sjúkrahús í kjölfarið þar sem hún var úrskurðuð látinn stuttu síðar. Í ljós kom að hún þjáðist af iðrabólgu og leikur grunur á að megfrunarlyfið vinsæla hafi átt þátt í dauða hennar.