fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Pressan

Gat ekki hugsað sér að lifa án þess að geta gert það sem hún elskaði

Ritstjórn Pressunnar
Mánudaginn 25. mars 2024 22:00

Mynd: Twitter síða Caroline March

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir tveimur árum var breska hestaíþróttakonan Caroline March að keppa í víðavangskappreiðum. Hún féll hins vegar af baki og varð fyrir alvarlegum mænuskaða og gat ekki stundað íþrótt sína lengur. Nú tveimur árum síðar er hún látin aðeins 31 árs að aldri en hún kaus að þiggja dánaraðstoð og binda þannig enda á líf sitt.

Mirror fjallar um þessa ákvörðun March og vitnar í bréf sem birt var á Facebook-síðu hennar þar sem hún sagðist meðal annars alltaf hafa haft trú á dánaraðstoð.

Slysið átti sér stað í keppni sem fram fór í apríl 2022 og missti March um leið meðvitund. Hún eyddi ómældum tíma í sjúkraþjálfun og reyndi tilraunameðferð en án árangurs. Hún varð að notast við hjólastól og gat ekki stundað íþróttina sem hún elskaði.

Í bréfinu sagðist hún hafa þrifist á andrenalíninu, sem fylgir óneitanlega því að þeysast um á hestum á miklum hraða og stökkva yfir hindranir á þeim, en með meiðslunum hefði þetta glatast. Hún sagðist vera afar sjálfstæð og ætti mjög erfitt með að biðja um hjálp. Enn fremur sagði March í bréfinu  að hún hefði skrifað það til að draga úr því að fólk drægi ákvörðun hennar í efa en sagði engan eiga rétt á að dæma hana.

Caroline March lést 23. mars síðastliðinn. Það hefur ekki verið gefið upp hvernig endir var bundinn á líf hennar með dánaraðstoð og í hvaða landi það var gert en dánaraðstoð hefur ekki verið lögleidd í Bretlandi.

Skilur ekki þá sem þrá langlífi

March skrifaði enn fremur í bréfinu að hún skildi ekki þá þráhyggju sem samfélag manna hefði þegar kæmi að langlífi. Hún tók fram að hún hefði alltaf sagt að ef eitthvað kæmi fyrir hana sem yrði til þess að hún gæti ekki búið við þau lífsgæði sem hún vildi að þá myndi hún sækjast eftir dánaraðstoð en hefði hins vegar alls ekki átt von á að hún myndi standa frammi fyrir því í raun og veru.

Hún sagði að hún hefði getað haldið lífinu áfram en enginn skilji til hlítar það sem hún hefði þurft að ganga í gegnum. Hún teldi þetta vera bestu ákvörðunina fyrir sig en að hún bæri mikla virðingu fyrir þeim sem hefðu náð að blómstra í lífinu eftir að hafa orðið fyrir jafn alvarlegum meiðslum og hún.

Ljóst er að Caroline March var ekki dauðvona en þurfti hins vegar að lifa með mænuskaða. Í umfjöllun Mirror er minnt á að mænuskaði getur minnkað hreyfigetu, í sumum tilfellum svo mikið að viðkomandi getur ekki gengið, og valdið því að viðkomandi finnur lítið eða ekkert fyrir hluta líkamans. Mænuskaði getur líka dregið úr stjórn viðkomandi á hægðum og þvagi, orsakað krampa og dregið úr frjósemi og valdið erfiðleikum með að stunda kynlíf en Caroline hafði hug á því fyrir slysið að eignast einhvern tímann börn.

Vildi ekki lifa með afleiðingunum

Í bréfinu skrifaði Caroline March að hún treysti sér ekki til að lifa með slíku. Stöðugt væri verið að þróa nýjar aðferðir við meðferð  við mænuskaða og hún vonaði að í framtíðinni myndu aðrir njóta þeirra og þurfa ekki að enda sína lífsgöngu á sama hátt og hún.

Hún sagði í bréfinu að hún hefði fundið fyrir svo miklum kærleika eftir slysið en að kærleikurinn læknaði því miður ekki sárin. Hún sagðist ekki geta hugsað sér að vera ekki góð í öllu sem hún gerði.

Að lokum skrifaði hún í kveðjubréfinu að hún væri frábær manneskja en það breytti engu, lífið væri grimmt en á meðan hún hefði lifað því hefði hún verið frábær, sjálfstæð og þrjósk eða eins og hún orðaði það:

„Andskoti góð.“

Dánaraðstoð á Íslandi

Frumvarp til laga um dánaraðstoð á Íslandi er til meðferðar á Alþingi. Fyrsta grein þessi hljóðar svo:

„Markmið laga þessara er annars vegar að heimila einstaklingum sem glíma við ólæknandi sjúkdóm og búa við ómeðhöndlanlega og óbærilega þjáningu að þiggja dánaraðstoð og hins vegar að heimila læknum, að nánari skilyrðum uppfylltum, að veita slíka aðstoð. Lög þessi gilda þegar einstaklingur hefur að eigin frumkvæði lýst yfir afdráttarlausum og óvéfengjanlegum vilja til þess að njóta aðstoðar við að binda enda á líf sitt.“

Hvort manneskja í sömu stöðu og Caroline March myndi hljóta dánaraðstoð hér á landi verði frumvarpið að lögum verður hins vegar ekki skorið úr um hér.

Í þessari frétt er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa sam­band við Píeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Hringdi og pantaði pitsu – Var þó að biðja um allt annað

Hringdi og pantaði pitsu – Var þó að biðja um allt annað
Pressan
Í gær

Karl konungur sviptir Andrés prins fjárframlagi upp á 180 milljónir

Karl konungur sviptir Andrés prins fjárframlagi upp á 180 milljónir
Pressan
Í gær

Grafreiturinn var notaður í 800 ár – Nær eingöngu karlar eru í honum og þeir voru allir skyldir

Grafreiturinn var notaður í 800 ár – Nær eingöngu karlar eru í honum og þeir voru allir skyldir
Pressan
Fyrir 2 dögum

Í fyrsta sinn í sögu mannkynsins hefur hringrás vatns á heimsvísu raskast

Í fyrsta sinn í sögu mannkynsins hefur hringrás vatns á heimsvísu raskast
Pressan
Fyrir 2 dögum

Háhyrningar, sem ráðast á báta, gætu verið að nota þá sem æfingatæki

Háhyrningar, sem ráðast á báta, gætu verið að nota þá sem æfingatæki
Pressan
Fyrir 2 dögum

Hvernig deyr fólk úr flensu?

Hvernig deyr fólk úr flensu?