Sky News segir að maðurinn, David Clarke, hafi verið dæmdur í 21 árs og átta mánaða fangelsi fyrir að hafa myrt eiginkonu sína, Helen, sem var 77 ára. Miðað við aldur hans, þá verður að teljast ólíklegt að hann muni nokkru sinni sleppa úr fangelsi. Helen lést af völdum áverka, sem hún hlaut þegar hún var lamin með hamri, og brunasárum sem hún hlaut þegar David kveikti í henni inni í bíl þeirra.
Þau gengu í hjónaband 1968 og eiga fjögur börn.
Sonur þeirra, David, sagði í yfirlýsingu að foreldrar hans hafi alltaf verið að rífast og að faðir hans hafi stundum sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun sem hafi beinst gegn móður hans. Hann sagðist þó hafa haldið að þau hefðu „mýkst“ með aldrinum.
Fyrir dómi kom fram að nokkrum dögum fyrir morðið hefðu þau byrjað að rífast af miklum krafti eftir að David sagði Helen að hann hefði haldið framhjá henni nokkrum árum áður og hefði nú í hyggju að fara til Ástralíu til að hitta konuna aftur.
Daginn, sem hann myrti Helen, ók hann með hana til Sketty Lane, undir því yfirskini að þau væru að fara á ströndina, og lamdi hana níu sinnum í höfuðið með hamri. Síðan hellti hann bensíni yfir hana og bar eld að henni og bílnum. Vegfarandi heyrði öskrin í Helen og reyndi að koma hjónunum til bjargar en David hrinti honum í burtu og ók á brott en endaði inni í runna. Þá gaus mikill eldur upp í bílnum.