Navalny afplánaði fangelsisdóm fyrir að skipuleggja og fjármagna starfsemi öfgasamtaka. Í febrúar 2022 var hann dæmdur í níu ára fangelsi og í ágúst síðastliðnum bættust nítján ár við dóminn. Mannréttindasamtök víða um heim höfðu gagnrýnt þá meðferð sem Navalny hlaut í Rússlandi.
Í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, kemur fram að Navalny hafi „liðið illa þegar hann fór í göngutúr“ í morgun og „fljótlega misst meðvitund“. Var hann fluttur á sjúkrahús þar sem endurlífgunartilraunir báru engan árangur.
Navalny var 47 ára gamall og hugðist bjóða sig fram gegn Pútín í forsetakosningunum 2018. Kjörnefnd heimilaði hins vegar ekki framboðið.
Navalny komst svo í fréttirnar árið 2020 þegar hann veiktist alvarlega í Síberíu vegna gruns um að eitrað hefði verið fyrir honum. Var honum flogið undir læknishendur til Þýskalands þar sem hann hlaut viðeigandi meðferð.