fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Pressan

Fréttamaðurinn sem galt sannleiksleitina dýru verði

Ritstjórn Pressunnar
Miðvikudaginn 14. febrúar 2024 22:00

Skjáskot Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Danny Casolaro var sjálfstætt starfandi rannsóknarblaðamaður í Bandaríkjunum. Árið 1991 var hann að rannsaka dularfull og umfangsmikil samtök sem hann kallaði Kolbrabbann en í ágúst þetta ár fannst hann látinn á hótelherbergi í Martinsburg í Vestur-Virginíu. Lögreglan komst að þeirri niðurstöðu að Casolaro hefði tekið eigið líf en fjölskylda hans er sannfærð enn þann dag í dag að rannsókn hans á Kolkrabbanum hafi orðið til þess að hann var myrtur.

Casolaro taldi rannsóknir sínar hafa leitt í ljós að valdamiklir aðilar innan bandaríska stjórnkerfisins og í fjármálageiranum hefðu tengsl við voveiflega atburði víða um heim. Hann tjáði fjölskyldu sinni að hann hefði orðið fyrir áreitni og hótunum. Það er ekki síst þess vegna sem fjölskylda hans telur að Kolkrabbinn hafi komið honum fyrir kattarnef.

Hann hét fullu nafni Joseph Daniel Casolaro og fæddist í júní 1947 og var því 44 ára þegar hann lést.

Casolaro dreymdi ekki beinlínis um að gerast fréttamaður en snéri sér þó á endanum að því sviði. Margt af því sem hann skrifaði í upphafi ferils síns var aldrei gefið út. Hann gekk í hjónaband og eignaðist einn son en þegar illa gekk að lifa á launum fréttamannsins var hjónabandið fyrir bí. Casolaro setti fréttamennsku þá á hilluna og tók yfir nokkur tímarit sem sérhæfðu sig í skrifum um tæknigeirann en þegar tíundi áratugurinn var að ganga í garð seldi hann þessi tímarit og sneri sér aftur að fréttamennsku.

Upplýsingatæknifyrirtæki kom honum á slóðina

Casolaro sneri sér aftur að fréttamennskunni eftir að aðrir fréttamenn sögðu honum frá upplýsingatæknifyrirtækinu Inslaw.

Danny Casolaro. Skjáskot Youtube

Rannsókn hans á því fyrirtæki leiddi hann á aðrar slóðir. Meðal annars tengsl kjörs Ronald Reagan til embættis forseta Bandaríkjanna árið 1980 við gíslatökuna í sendiráði Bandaríkjanna í Íran 1979 sem stóð í alls 444 daga. Hann skoðaði einnig Íran-Contra málið og hrun banka nokkurs, Bank of Credit and Commerce International.

Svo umfangsmikil var rannsókn Casolaro að hann er sagður hafa þróað með sér þráhyggju fyrir henni og fyrir því að ná að tengja alla þessa atburði saman og greina tengsl aðila innan bandaríska stjórnkerfisins við þá. Allt átti þetta að vera hluti af áðurnefndum samtökum sem hann kallaði Kolkrabbann. Hann sankaði að sér gögnum sem í sumum tilfellum voru gamlar blaðaúrklippur. Ýmsir sem skoðað hafa sögu Casolaro og rannsóknar hans segja hann einfaldlega hafa misst yfirsýn og stjórn yfir rannsókninni.

Casolaro sagðist meðal annars hafa fundið sannanir fyrir því að fjárfestir nokkur hefði greitt klerkastjórninni í Íran fyrir að sleppa ekki gíslunum sem teknir voru í bandaríska sendiráðinu fyrr en eftir forsetakosningarnar 1980, til að tryggja kjör Ronald Reagan.

Um þetta leyti fór Casolaro einnig að kanna hugbúnað sem bar heitið PROMIS sem bandarísk stjónvöld gátu að sögn notað til að fylgjast með „andófsmönnum“ innan lands.

Sagði ekki rétt frá

Casolaro fullyrti við samstarfsmann sinn, fimm dögum áður en hann dó, að hann hefði verið beðinn um að skrifa um rannsóknir sínar í fréttatímaritið Time, sem þá eins og í dag var dreift um allan heim. Það var hins vegar rangt. Hann hafði aldrei fengið slíkt boð.

Þennan sama dag sagði hann vinum og fjölskyldu að hann hefði verið áreittur með ógnandi símtölum nóttina áður og þess vegna ekki fengið svefnfrið.

Hann ræddi einnig við vin sinn og lýsti sárum vonbrigðum með að ekki hefði tekist að ganga frá útgáfusamningi vegna bókar sem hann var með í smíðum um Kolkrabbann.

Daginn eftir tilkynnti hann konu sem sá um þrif á heimili hans að hann væri að fara í vinnuferð til Martinsburg í Vestur Virginíu og yrði þar í nokkra daga. Hann tróð skjalabunka í tösku sína og fór í flýti.

Konan tjáði lögreglu síðar að Casolaro hafi ætlað sér að hitta heimildarmann sem hefði nýjar upplýsingar að færa honum. Nokkur símtöl bárust á heimilið eftir að Casolaro var farinn í vinnuferðina og var konunni sagt að Casolaro yrði hákarlafæða.

Lítið er vitað um ferðir Casolaro næstu tvo daga eftir að hann fór að heiman. Einhver vitni sögðust þó hafa séð hann á hótelinu í Martinsburg, þar sem hann gisti, og rætt stuttlega við hann og er hann sagður ekki hafa virst vera í sjálfsvígshugleiðingum.

Verksummerki virtust benda til sjálfsvígs

Starfsfólk hótelsins fann Casolaro meðvitundarlausan í baðkarinu í herbergi hans. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang var ljóst að hann væri látinn.

Hann var með 12 djúpa skurði á báðum úlnliðum og blóð var á víð og dreif á baðherberginu. Rakvélablað fannst en ekkert var hins vegar gert til að koma í veg fyrir að hugsanleg ummerki í baðkarinu eða á líkama Casolaro enduðu í niðurfallinu.

Engin merki voru um átök og miði fannst, með skrift Casolaro, þar sem hann biður fólk afsökunar og þá sérstaklega son sinn.

Í ljósi alls þessa var það niðurstaða yfirvalda á staðnum að Casolaro hefði tekið eigið líf.

Leyndarhyggja og samsæriskenningar

Málinu var þó þar með ekki lokið. Samsæriskenningar um að Casolaro hefði í raun verið myrtur vegna rannsókna sinna skutu fljótt upp kollinum.

Alríkislögreglan FBI tók málið til rannsóknar þar sem hún taldi að sú niðurstaða að um sjálfsvíg væri að ræða hefði verið ótímabær. Leynd hvíldi yfir þeirri rannsókn og skjölum sem tengjast henni og rannsókna yfirvalda í Vestur-Virginíu hefur verið haldið leyndum fyrir almenningi.

Þessi leyndarhyggja er sögð hafa ýtt undir grunsemdir fjölskyldu Danny Casolaro um að hann hafi ekki tekið eigið líf heldur verið myrtur. Fjölskyldan minnir á að þótt vinna hans hafi tekið sinn toll af honum hafi Casolaro ekki sýnt nein merki um að hann gæti mögulega unnið sjálfum sér mein.

Fjölskyldan segir að þessi leyndarhyggja og sú staðreynd að símtölin sem bárust Casolaro og fólu meðal annars í sér hótanir hafi ekki verið rannsökuð nánar gefi fullt tilefni til að opna málið og rannsaka það frekar.

Þótt 33 ár séu liðin síðan Casolaro dó er það enn mörgum fjölmiðlamönnum og þeim sem fjalla um sönn sakamál á vefsíðum eða í hlaðvörpum rannsóknarefni.

Einnig var fjallað um málið á sínum tíma í sjónvarpsþættinum vinsæla Unsolved Mysteries. Í þættinum, sem var sýndur hér á landi, voru ýmsar óráðnar gátur teknar fyrir og eru allir þættirnir aðgengilegir á Youtube.

Það var Allthatsinteresting.com sem greindi frá.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Forsætisráðherra Kanada stígur til hliðar

Forsætisráðherra Kanada stígur til hliðar
Pressan
Fyrir 5 dögum

Lýsir sorglegri sögu mannsins í Teslunni – Sá hluti sem höfðu mikil áhrif á hann

Lýsir sorglegri sögu mannsins í Teslunni – Sá hluti sem höfðu mikil áhrif á hann