Dries og Eugenie fengu dánaraðstoð sem er lögleg í Hollandi. Þau höfðu verið léleg til heilsunnar og ákváðu að fara þessa leið saman, að sögn talsmanns mannréttindasamtakanna The Rights Forum sem Van Agt stofnaði á sínum tíma.
Dries var forsætisráðherra Hollands á árunum 1977 til 1982 og barðist til að mynda fyrir því að friður kæmist á milli Ísraels og Palestínu.
Dries fékk heilablóðfall árið 2019 og jafnaði sig aldrei almennilega. Gerad Jonkman, framkvæmdastjóri The Rights Forum, segir að eiginkona hans hafi einnig verið orðin lasin og þau hafi ekki viljað lifa án hvors annars.
Tvöföld dánaraðstoð eins og í tilfelli Dries og Eugenie er tiltölulega sjaldgæf í Hollandi en hefur þó færst í vöxt á undanförnum árum. Árið 2022 kusu 22 hjón eða pör að fara þessa leið, 16 árið 2021 og 13 árið 2020.