fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Pressan

23 árum eftir að Gabriel hvarf fékk fjölskylda hans símtal sem breytti öllu

Pressan
Laugardaginn 13. janúar 2024 22:00

Gabriel Nagy.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í janúar 1987 fór Gabriel Nagy, 46 ára, að versla og sinna fleiri erindum í Sydney í Ástralíu þar sem hann bjó ásamt fjölskyldu sinni. Þegar hann er að verða búinn að versla hringdi hann i eiginkonu sína, Pamela, og sagði henni að hann kæmi fljótlega heim og hvort hún gæti haft góða máltíð tilbúna þegar hann kæmi. Þau áttu tvö börn saman.

Pamela útbjó mat og beið eftir Gabriel en hann skilaði sér ekki heim og maturinn varð kaldur. Það leið og beið og ekki kom Gabriel og heim og raunar skilaði hann sér aldrei aftur heim. 23 ár liðu þar til Pamela og aðrir ættingjar og vinir hans fengu svar við hvað hafði orðið um hann.

Gabriel fæddist í Þýskalandi en fluttist ungur að árum með foreldrum sínum til Sydney þar sem fjölskyldan settist að. Faðir hans vann mikið og Gabriel sá því oft um að annast móður sína sem var sjúklingur. Hann kynntist síðan Pamela og þau eignuðust soninn Stephen og dótturina Jennifer. Hann var staðráðinn í að vera meira til staðar fyrir þau en faðir hans hafði verið fyrir hann. Hann starfaði við uppsetningar í verslunum en dreymdi um að verða bókhaldari.

Dagurinn örlagaríki

Þann 21. janúar 1987 fór Gabriel í bæinn til að sinna ýmsum erindum, versla og fleira. Þegar leið að hádegi hringdi hann í Pamela og þau ákváðu að borða hádegismat saman. Gabriel lagði því af stað heim og Pamela eldaði mat. En klukkustundirnar liðu og aldrei kom Gabriel. Hún varð að vonum óróleg og hafði áhyggjur af að eitthvað kynni að hafa komið fyrir hann.

Að lokum hringdi hún í lögregluna sem gat lítið aðhafst því engar vísbendingar voru til staðar nema hvað brunninn bíll Gabriel fannst utan vegar en Gabriel var ekki sjáanlegur. Fjölskyldan gat því ekki gert annað en að hengja upp skilti með myndum af Gabriel og eftirlýsingu og vonast til að einhverjar upplýsingar bærust um hann.

Tvær vikur liðu þar til lögreglan fann spor eftir Gabriel. Í banka í strandbænum Newcastle, sem er um 170 km norðan við Sydney, hafði einhver tekið peninga út af reikningi Gabriel. Vonir vöknuðu hjá fjölskyldunni en þær dvínuðu því þetta spor endaði í blindgötu.

Gabriel og fjölskylda hans.

Engin fleiri spor fundust og var einna helst sem hann væri horfinn af yfirborði jarðarinnar. Heima sátu Pamela og börnin, sem voru 9 og 11 ára, og syrgðu hann.

Vikur, mánuðir og ár liðu. Lífið var sérstaklega erfitt fyrir Jennifer, sem var aðeins 9 ára þegar faðir hennar hvarf, því faðir hennar var mikilvægasta manneskjan í lífi hennar. „Þetta var mikið áfall fyrir okkur öll. Þetta hafði mikil áhrif á mig tilfinningalega. Fólk var enn að spyrja hvar faðir minn væri. Þetta var of mikið, þetta var svo sárt. Enginn gat svarað af hverju ástríkur og elskaður faðir hvarf skyndilega,“ sagði Jennifer í samtali við The Courier Mail 2012.

Fjölskyldan flutti síðan til Queensland og kom sér fyrir þar. Þau héldu gamla símanúmerinu sínu í þeirri von að Gabriel léti heyra í sér dag einn.

Málið skýrist

Víkur nú sögunni til 2010. Þegar aðeins tvær vikur voru í að hægt yrði að lýsa Gabriel látinn formlega var Georgia Robinson, rannsóknarlögreglukona, að safna saman gögnum sem átti að leggja fram fyrir dóm í tengslum við að Gabriel yrði úrskurðaður látinn. Hún hafði verið með málið á sinni könnu síðustu 10 árin. Hún ákvað nú að gera eina lokatilraun áður en hún skilaði gögnum málsins af sér. Hún leitaði í opinberum skrám og skyndilega birtist nafnið Gabriel Nagy á skjánum. Maður með því nafni hafði nýlega farið í augnaðgerð á sjúkrahúsi í Mackay, sem er rúmlega 200 km frá Sydney. Símanúmer stóð hjá nafninu og hringdi Georgia strax í það. Karlmaður svaraði.

Hann sagðist ganga undir nafninu Ron Saunders. Hann sagðist hafa tekið það nafn upp þegar hann var á Saunders Beach sem er norðan við Mackay. „Ég hef lifað undir dulnefni í langan tíma en óljósar minningar um mitt rétta nafn hafa rifjast upp að undanförnu. Minnið hefur hægt og rólega verið að koma aftur,“ sagði maðurinn.

Nú fóru málin að skýrast. Þegar Gabriel var á leið heim þann 21. janúar 1987 lenti hann í óhappi og eldur kom upp í bíl hans. Hann náði að skríða í burtu frá brennandi flakinu og forða sér. Slysið olli því að hann fékk alvarlegt minnistap. Það fyrsta sem hann mundi eftir slysið er að hann var í Newcastle og að það blæddi mikið úr höfði hans. Hann hafði ekki hugmynd um hvernig hann komst til Newcastle. Það eina sem hann veit er að hann man nánast ekki neitt.

Fjölskyldan bjó í Sydney. Mynd:EPA

Slysið hafði einnig áhrif á minni hans til langs tíma og hann átti erfitt með að muna hvað gerðist eftir slysið. Hann mundi þó að hann hafði unnið á sveitabýli í Rockhampton og að hann hafði oft verið heimilislaus og sofið undir berum himni. Einnig hafði hann verið til sjós. Hann hafði farið að neyta áfengis í óhófi og átti mjög erfitt í alla staði.

Í Mackay kynntist hann Barry Hayhoe, presti, sem ákvað að hjálpa honum. Hann bauð honum þak yfir höfuð og vinnu sem húsvörður í söfnuði sínum. Hann hjálpaði honum einnig að verða sér úti um sjúkrasamlagsskírteini í hans „gamla nafni“ þegar hann þurfti að fara í augnaðgerðina. Það var ástæðan fyrir að nafn Gabriel Nagy fannst í opinberum tölvukerfum.

Hittust

Eftir að hafa rætt við Gabriel hringdi Robinson í Pamela og tilkynnti henni að eiginmaður hennar væri á lífi. Því næst fór hún til Mackay til að hitta Gabriel. „Þú hefur ekki drepið neinn og þú ert ekki eftirlýstur af lögreglunni. Þú hefur verið týndur en það er ekki glæpur,“ sagði hún við hann þegar þau hittust.

Hún lagði spurningar fyrir hann og sýndi honum ljósmyndir af fjölskyldu hans. Gabriel lýsti því síðar að þetta hefði verið eins og í teiknimynd þar sem ljósapera birtist skyndilega fyrir ofan höfuð fólks. „Hún var með bréf frá Jennifer, frá Pam og frá föður mínum og konunni hans,“ sagði hann.

Um kvöldið settist hann niður og skrifaði lengsta bréf, sem hann hefur nokkru sinni skrifað, þar sem hann sagði frá því sem hann myndi eftir síðustu 23 árin.

„Hæ pabbi“

Þremur dögum síðar fékk hann smáskilaboð í síma sinn. Þau voru frá Jennifer, sem var orðin 32 ára. Hún skrifaði: „Hæ pabbi.“ Þetta varð til þess að hann brast í grát. Hún skrifaði einnig að hún hefði lesið bréf hans og að hún elskaði hann enn. Um kvöldið hringdi Pamela og töluðu þau saman þar til síminn hans varð rafmagnslaus.

Tveimur vikum síðar tók Gabriel á móti Jennifer á flugvellinum í Mackay. Hann hafði ekki séð hana síðan hún var níu ára. „Þetta var eins og í kvikmynd, við hlupum á móti hvort öðru með opna faðma,“ sagði Jennifer síðar um þessa stund.

Í samtali við The Courier Mail 2012 sagðist hún hafa stigið fram og sagt sögu föður síns í þeirri von að það geti hjálpað öðrum fjölskyldum.

Gabriel bjó áfram í Mackay en hélt sambandi við gömlu fjölskylduna sína.

Byggt á umfjöllun HuffPost, Daily Mail, The Courier Mail og fleiri miðla.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Datt í lukkupottinn í pakkaleiknum – Skipti á vasaljósi og besta vinningnum

Datt í lukkupottinn í pakkaleiknum – Skipti á vasaljósi og besta vinningnum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Á yfirborðinu var hún guðhrædd amma en í henni bjó myrkur

Á yfirborðinu var hún guðhrædd amma en í henni bjó myrkur
Pressan
Fyrir 3 dögum

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags
Pressan
Fyrir 3 dögum

Leynd viðvörunarmerki líkamans – 7 snemmbúin merki um Parkinson

Leynd viðvörunarmerki líkamans – 7 snemmbúin merki um Parkinson
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Það er svo sannarlega ekki þess virði að veipa“

„Það er svo sannarlega ekki þess virði að veipa“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár