fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Pressan

Ráðgátan um hvarf Johnny Gosch: Sagður vera í felum undan níðingunum sem rændu honum

Pressan
Föstudaginn 12. janúar 2024 22:00

Lýst var eftir Johnny á mjólkurfernum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sunnudagurinn 5. september árið 1982 mun aldrei renna Noreen Gosch úr minni. Þann dag hvarf 12 ára sonur, John David Gosch, oftast kallaður Johnny Gosch, sporlaust. Þó að rúmt 41 ár sé liðið frá hvarfinu hefur Noreen aldrei gefist upp í leitinni að syni sínum.

Þennan örlagaríka síðsumarmorgun, rétt fyrir klukkan sex að morgni, hélt Johnny af stað til að bera út blöðin í hverfi sínu í West Des Moines í Iowa í Bandaríkjunum.

Johnny fór á hjólinu sínu og tók heimilishundinn, Gretchen, með sér og átti rúnturinn ekki að taka ýkja langan tíma. En Johnny kom ekki aftur og var það ekki fyrr en kvartanir fóru að berast frá nágrönnum, sem fengu ekki blaðið sitt, að í ljós kom að eitthvað óeðlilegt væri í gangi.

Ýmsum kenningum hefur verið fleygt fram um hvarf Johnny. Ýmsir telja fullvíst að honum hafi verið rænt og ráðinn bani en aðrir, Noreen til dæmis, trúa því að Johnny sé enn á lífi. Hún fullyrðir til dæmis að Johnny hafi komið heim nótt eina árið 1997, fimmtán árum eftir að hann hvarf.

Hvarf á einu augabragði

CNN rifjaði upp þetta óhugnanlega mál, ræddi við Noreen Gosch og varpaði ljósi á þær kenningar sem settar hafa verið fram um hvarfið, meðal annars meinta aðkomu lögreglunnar að málinu.

Vitni segja að blár bíll, hugsanlega Ford Fairmont, hafi ekið upp að Johnny þennan morgun og maður í bílnum gefið sig á tal við hann. Þetta var hvítur karlmaður, sennilega á fertugsaldri og með yfirvaraskegg. Johnny var eiginlega nýfarinn út og var að sækja blaðabunka sem hann átti að dreifa í hús í hverfinu þegar bifreiðin stöðvaði hjá honum.

Þessi dularfulli maður hafði gefið sig á tal við önnur blaðburðarbörn þennan sama morgun þar sem hann spurði til vegar. Vitni sögðust í kjölfarið hafa séð hávaxinn mann ganga á eftir Johnny líkt og maðurinn væri að elta hann. Johnny var með dagblaðavagninn sinn í eftirdragi en ekki löngu síðar var Johnny horfinn og aðeins vagninn eftir á gangstéttinni.

Um tvær klukkustundir liðu þar til síminn heima hjá foreldrum Johnny fór að hringja. Var fólk að velta fyrir sér hvers vegna hann hefði ekki komið með blaðið eins og hann var vanur að gera. „Pabbi hans fór út og dreifði blöðunum,“ segir Noreen við CNN. „Ég hringdi svo í lögregluna en við biðum í um klukkustund eftir að hún kæmi,“ bætir hún við. „Lögreglustjórinn var spilltur. Ég veit mikið um hann.“

Vafasamur ferill lögreglustjórans

Lögreglustjórinn sem Noreen vísaði til, Orval Cooney, átti vafasama fortíð. Hann var 17 ára þegar hann birtist á forsíðu Des Mones Register árið 1951 í tengslum við rannsókn lögreglu á grófu ofbeldisbroti hóps ungra manna gegn öðrum ungum manni. Cooney var grunaður um, ásamt öðrum, að hafa barið unglingsdreng til óbóta og fór svo að hann var dæmdur í 30 daga fangelsi. 26 árum síðar, árið 1976, var hann gerður að lögreglustjóra í Des Moines.

Snemma árs 1982 birti Des Moines Tribune ítarlega fréttaskýringu um vafasama starfshætti Cooney. Sögðu yfirlögreglumenn að Cooney hefði barið fanga, hylmt yfir innbrot sem sonur hans var grunaður um og beitt undirmenn sína ofbeldi og einelti. Þá hafi hann talað illa um svertingja og konur. Svo fór að lokum að Cooney var hreinsaður af öllum ásökunum og voru tveir lögreglumenn, sem báru hann þungum sökum, reknir frá störfum og var Cooney enn í starfi þegar Johnny hvarf.

Noreen segist í viðtalinu hafa borið traust til lögreglunnar þar til daginn sem Johnny hvarf. Lögreglumenn hafi verið áhugalausir frá byrjun og talið að hann hafi bara strokið að heiman, þó augljóst væri að honum hefði verið rænt.

Eitt atvik er henni minnisstætt en það átti sér stað aðeins tveimur dögum áður en Johnny hvarf. Það gerðist á fótboltaleik við ruðningsleikvang Valley-menntaskólans þar sem eldri bróðir Johnny var að keppa. Fjölskyldan fór á leikinn en Johnny brá sér frá meðan á leik stóð til að kaupa poppkorn. Föður hans þótti Johnny vera heldur lengi í burtu og fór að lokum að svipast um eftir honum. Fann hann piltinn undir stúkunni þar sem hann var að ræða við lögreglumann.

Missti stjórn á sér

Noreen segist hafa rætt þetta við son sinn, hvað lögreglumaðurinn hefði eiginlega sagt og af hverju þeir hefðu verið að ræða saman í myrkrinu undir stúkunni. Svarið var einfalt. „Af því að hann var lögreglumaður. Þarf maður ekki að gera það sem þeir biðja mann um,“ segir hún að Johnny hafi spurt.

Noreen segir að eftir leik hafi Johnny bent henni á lögreglumanninn og hún lagt andlitið á minnið þó að hún þekkti ekki nafnið hans. En eftir hvarf Johnny reyndi hún hvað hún gat að komast að því hver hefði rætt við son hennar tveimur dögum fyrir hvarf hans.

Hún lagði ýmislegt á sig og að lokum fann hún það út hver lögreglumaðurinn var. Fór hún á fund með títtnefndum Orval Cooney í þeirri von að geta rætt við lögreglumanninn undir fjögur augu. Hún segir að Cooney hafi brugðist ókvæða við, stappað niður fótum og öskrað á hana að það gæti hann ekki leyft.

Sagður hafa sést víða

Segist Noreen í kjölfarið hafa velt fyrir sér hvort Cooney væri hugsanlega að fela eitthvað. Það sé að minnsta morgunljóst að lögregla gerði ekki allt sem hún gat á fyrstu stigum rannsóknarinnar.

Dagar urðu að vikum og vikur að mánuðum eftir hvarf Johnny og ekkert spurðist til hans. Sex mánuðum eftir hvarfið sagðist kona hafa séð hann í Oklahoma. Pilturinn hafi verið lafmóður, sagst heita John David Gosch en tveir menn komið aðvífandi í kjölfarið og dregið hann í burtu. Konan hafði ekki hugmynd um mál piltsins fyrr en nokkrum mánuðum eftir umrætt atvik þegar hún sá umfjöllun um það í fjölmiðlum. FBI skoðaði frásögn konunnar og mat hana mjög trúverðuga.

Johnny Gosch með blöðin sem hann bar út.

Eftir miðnætti þann 22. febrúar 1984 hringdi síminn á heimili Gosch-fjölskyldunnar og svaraði Noreen. „Mamma?,“ sagði manneskjan á hinum enda línunnar og segir Noreen að röddin hafi að minnsta kosti verið mjög lík röddinni í Johnny. Lagt var á í kjölfarið en síminn hringdi í tvígang skömmu eftir þetta og aftur var sama rödd í símanum.

Noreen segir að lögregla hafi skoðað málið en ekki hafi reynst unnt að rekja símtölin. Fleiri tilkynningar bárust um að Johnny hefði sést hér og þar á næstu vikum og mánuðum, til dæmis í Texas.

Einkaspæjari hefur samband

Það var svo árið 1991, um níu árum eftir hvarfið, að von kviknaði hjá Noreen að Johnny kæmi ef til vill heim. Einkaspæjari frá Nebraska, Roy Stephens að nafni, hringdi í hana og sagðist búa yfir upplýsingum um hvarf sonar hennar.

Roy þessi sagðist hafa unnið með lögmanni og skjólstæðingur þessa lögmanns væri í fangelsi fyrir misnotkun á börnum. Fullyrti þessi níðingur að hann hefði tekið þátt í að ræna Johnny á sínum tíma. Sagðist einkaspæjarinn eiga marga klukkutíma af viðtölum við níðinginn og bauðst hann til að koma heim til Noreen og spila viðtölin fyrir hana.

Úr varð að Roy heimsótti Noreen dag einn og spilaði upptökurnar. Maðurinn í þeim hét Paul Bonacci og var 23 ára. Paul hafði átt skelfilega æsku þar sem misnotkun og ofbeldi var daglegt brauð, en þegar hann var 15 ára sagðist hann hafa kynnst öðrum pilti, Mike, í Omaha, stærstu borg Nebraska. Paul sagði að Mike hafi svo kynnt hann fyrir manni að nafni Emilio en sá var barnaníðingur og stundaði meðal annars framleiðslu á barnaníðsefni. Sagði Paul að Mike og Emilio hafi boðið honum með í bíltúr til Iowa og þeir meðal annars komið sér fyrir á hóteli í Des Moines. Skyndilega hafi maður birst við dyrnar með poka fullan af ljósmyndum. „Þetta er hann,“ á maðurinn að hafa sagt og bent á mynd af Johnny Gosch. Roy segir að þarna hafi honum verið ljóst hver tilgangur ferðarinnar var, að taka þátt í mannráni. Á upptökunum sagði Paul að hann hafi reynt að bakka út en Emilio beint að honum byssu og sagt að annað hvort tæki hann þátt eða yrði skotinn í höfuðið.

Á hótelherberginu var farið yfir hvernig hópurinn ætlaði að lokka Johnny inn í bílinn. Alls tóku um sex manns þátt í ráninu, að sögn Paul. Paul fór út úr bílnum og spurði Johnny spurningar, maður að nafni Tony ýtti honum svo inn í bílinn áður en klútur með klóróformi var lagður yfir andlitið á Johnny. Eftir að bílnum hafði verið ekið út úr hverfinu var Johnny komið fyrir í annarri bifreið, að sögn Pauls, sem var ekið suður á bóginn í átt að Omaha og svo að húsi í Sioux City í norðvesturhluta Iowa.

Til að gera langa sögu stutta lýsti Paul því hvernig Johnny var misnotaður í húsinu og brotin tekin upp á myndband, líklega í þeim tilgangi að selja þau svo áfram til annarra níðinga. Paul sagði svo að Johnny hafi verið komið í hendur annars manns, sem var þekktur undir nafninu The Colonel, sem var búsettur í Colorado. Þar væri honum haldið í einskonar fangelsi.

Heimsótti Bonacci

Noreen segist hafa trúað því sem kom fram á upptökunum. Það væri varla nokkur möguleiki að einhverjum dytti í hug að skálda slíka frásögn. Þar að auki virtist hann búa yfir allskonar upplýsingum um Johnny sem ekki höfðu komið fram. Eftir að hafa spilað upptökurnar spurði einkaspæjarinn Roy hana hvort hún væri til í að heimsækja Paul Bonacci í fangelsið. Noreen var gjarnan til í það en sagðist þurfa nokkrar vikur til að jafna sig og ná tökum á reiðinni.

Dagurinn kom loksins og þegar Noreen settist fyrir framan Paul brotnaði hann niður og barðist við tárin. Með henni í för var Roy og sjónvarpsmaðurinn Jim Strickland sem var starfsmaður WHO-sjónvarpsstöðvarinnar í Des Moines.

 „Mér líður svo illa út af þessu. Út af því sem ég var látinn gera,“ sagði Paul þegar Noreen opnaði samtalið. Ýmsir settu spurningarmerki hvort Paul væri að segja sannleikann í málinu en sjálf kveðst Noreen ekki hafa efast þegar hann sagði henni frá fæðingarbletti sem Johnny var með á bringunni og ör nærri ökklanum eftir að hafa brennt sig á mótorhjóli bróður síns.

Johnny kemur í heimsókn

Í umfjöllun CNN er rætt við Jim Strickland og segist hann velta fyrir sér hvers vegna lögregla hafi ekki viljað ræða við Paul um hvarf Johnny. „Af hverju ekki að keyra í þessar tvær klukkustundir og ræða við manninn? Viltu leysa málið eða ekki,“ spyr Jim og segir að Paul hafi verið trúverðugur í samtalinu við Noreen innan veggja fangelsisins.

Árið 1997 hafði Johnny verið saknað í um fimmtán ár, foreldrar hans voru skilin og Noreen flutt í eigin íbúð. Hún var sofandi í íbúð sinni um miðja nótt þegar einhver bankaði á útidyrnar. Noreen fór fram úr og kíkti í gegnum gægjugatið á hurðinni. Þar stóðu tveir menn og minnti annar þeirra mikið á Johnny. „Hver er þetta?,“ sagði Noreen. „Þetta er ég, mamma. Þetta er Johnny,“ segir hún að maðurinn hafi sagt.

Noreen er sannfærð um að sonur hennar sé á lífi.

Noreen viðurkennir að hún hafi skolfið. Þarna væri komið augnablikið sem hún hefði beðið eftir í fimmtán ár. Johnny hefði verið orðinn 27 ára þarna, fullorðinn karlmaður, en Noreen segist hafa þekkt augun í honum. „Augun breytast ekki,“ segir hann.

Noreen segist hafa opnað og hún og Johnny fallist í faðma. Hún bauð mönnunum að koma inn og þau settust niður inni í eldhúsi þar sem þau ræddu saman. Hún segir að ekki hafi farið á milli mála að um Johnny hafi verið að ræða. Hann hafi til dæmis hneppt skyrtunni frá og sýnt henni fæðingarblettinn á bringunni. Það var samt eitthvað skrýtið við þetta augnablik og segist hún hafa velt fyrir sér hvort Johnny væri undir stjórn mannsins sem kom með honum umrædda nótt. Hún segist til dæmis hafa spurt hann hvar hann hefði verið í öll þessi ár og Johnny litið á sessunaut sinn sem sagði honum að svara ekki spurningunni.

Hótað lífláti

Eftir að Noreen steig fram með þessa frásögn var hún gagnrýnd fyrir að hafa ekki hringt á lögregluna. Noreen svaraði því þannig að hún hefði fyrir löngu misst alla trú á lögreglunni og jafnvel grunað einhvern þar um að hafa átt þátt í ráninu á syni sínum. Noreen segist hafa spurt Johnny hvort hún mætti hafa samband við einkaspæjarann Roy en Johnny allur veðrast upp þegar hún nefndi það og hótað að fara. Þess í stað ræddu þau um það sem hefði drifið á daga hans og kom frásögn hans nokkurn veginn heim og saman við frásögn Pauls Bonacci nokkrum árum fyrr.

Hann hefði verið numinn á brott og settur inn í bíl og fljótlega misst meðvitund. Hann hefði vaknað í einhvers konar kjallara, bundinn á höndum og fótum og logandi hræddur. Nokkrum dögum síðar hafi hann verið seldur til annars manns, sem var einmitt kallaður The Colonel. Árin þar á eftir hafi hann flakkað á milli staða og sætt misnotkun af hálfu fjölmargra manna, stórlaxa í pólitík og viðskiptum.

Noreen sagði að heimsóknin hefði staðið yfir í rúmar tvær klukkustundir og Johnny í raun sagt að hann væri á flótta undan þeim sem rændu honum og gæti varla séð fyrir sjálfum sér. Hann sagðist hafa efast um að heimsóknin væri góð hugmynd enda hefðu mannræningjarnir hótað að drepa hann ef hann setti sig í samband við móður sína. Johnny stóð upp frá borðinu skömmu síðar og kvaddi móður sína. Noreen segist ekki hafa reynt að stöðva hann enda Johnny orðinn fullorðinn og gæti tekið sínar ákvarðanir sjálfur. Hún var þó meðvituð um að þetta væri mögulega síðasta skiptið sem þau myndu sjást. Frá þessu örlagaríka kvöldi árið 1997 hefur hún ekkert heyrt frá Gosch.

Sagður vera á lífi og eiga fjölskyldu

Noreen hefur ekki gefist upp í leit sinni að sannleikanum en veit ekki hvort hann muni nokkurn tíma koma upp á yfirborðið. Hún segist þó geta fullyrt að syni hennar hafi verið rænt og ræningjarnir hafi verið hluti af einhvers konar kynlífsmansalshring.

Bent er á það í umfjölluninni að ýmsir hafi efast um að Gosch hafi heimsótt móður sína árið 1997. Greinarhöfundur ræddi við Tom Boyd, fyrrverandi rannsóknarlögreglumann hjá lögreglunni í West Des Moines, sem ræddi við Noreen um málið á sínum tíma. Aðspurður hvort hann hafi ástæðu til að efast um frásögn hennar segir hann:

„Þetta er hennar yfirlýsing til mín. Þetta er það sem hún sagði mér. Ég veit það ekki, ég veit það ekki. Ég – ég vil ekki kalla Noreen lygara. Hún er að syrgja son sinn. Þetta hljómar undarlega, já […] og það er kannski erfitt að trúa þessu. En ég vil ekki kalla Noreen lygara.“

Greinarhöfundi CNN tókst að hafa upp á Paul Bonacci sem í dag er 56 ára og búsettur í Nebraska. Samtalið hans við Bonacci entist í 10 mínútur og í því sagði Bonacci að Johnny hefði heimsótt móður sína árið 1997. Johnny hefði sagt honum sjálfur frá heimsókninni skömmu eftir hana. Þegar Paul var spurður að því hvort Johnny væri á lífi svaraði hann því játandi. Hann væri á lífi og ætti fjölskyldu.

Bonacci segist hafa hitt Johnny 15 til 20 sinnum um ævina – síðast sennilega árið 2018. Hann segir að Johnny sé í felum og of hræddur við að stíga fram og segja frá því sem hann veit. „Hann yrði drepinn,“ hefur CNN eftir Bonacci. „Það er það sem hann er hræddur um. Að það verði þaggað niður í honum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Á yfirborðinu var hún guðhrædd amma en í henni bjó myrkur

Á yfirborðinu var hún guðhrædd amma en í henni bjó myrkur
Pressan
Í gær

Lauflétt ráð til að sofna hraðar

Lauflétt ráð til að sofna hraðar
Pressan
Fyrir 2 dögum

Færri fengu hæli í Svíþjóð á síðasta ári en nokkru sinni síðustu 40 árin

Færri fengu hæli í Svíþjóð á síðasta ári en nokkru sinni síðustu 40 árin
Pressan
Fyrir 2 dögum

Leita að foreldrum Elsu og tveggja systkina hennar – Heita 3,5 milljónum fyrir upplýsingar um þá

Leita að foreldrum Elsu og tveggja systkina hennar – Heita 3,5 milljónum fyrir upplýsingar um þá
Pressan
Fyrir 4 dögum

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þetta eru bestu löndin til að verða gamall í

Þetta eru bestu löndin til að verða gamall í