fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Pressan

Á yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir að lifa tvöföldu lífi

Pressan
Miðvikudaginn 6. september 2023 15:30

Mynd frá Norwich í Bretlandi þar sem réttarhöld yfir Jason Hayter hafa farið fram. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrrverandi hermaður á yfir höfði sér sjö ára fangelsisdóm fyrir tvíkvæni. Það uppgötvaðist að hann ætti tvær fjölskyldur þegar dóttir hans úr öðru hjónabandinu sendi hinni eiginkonunni skilaboð og spurði hvernig konan tengdist föður hennar.

Maðurinn er breskur og heitir Jason Hayter. Hann er 48 ára gamall og gegndi herþjónustu í breska hernum. Hayter var staðsettur, stöðu sinnar vegna, í Þýskalandi. Þar bjó hann með annarri fjölskyldunni en heimsótti hina í Bretlandi reglulega. Hann átti samtals 5 börn með eiginkonunum tveimur en þær vissu ekki hvor af annarri og börnin vissu ekki að þau ættu hálfsystkini í öðru landi.

Hayter skýrði langar fjarvistir sínar með því að hann þyrfti að vera í burtu vegna starfa sinna í hernum. Eftir að hann lét af herþjónustu hélt hann áfram að skipta tíma sínum á milli beggja fjölskyldna og þá skýrði hann fjarvistirnar þannig að hann væri í starfsþjálfun vegna starfs sjúkraflutningamanns eða að hann væri að leita sér hjálpar vegna andlegra veikinda. Í raun og veru var hann hins vegar hjá annarri fjölskyldunni þegar hann var í burtu frá hinni.

Mál Hayter er nú fyrir dómi í Norwich í Bretlandi. Í réttarhöldunum kom fram að Hayter var fráskilinn þegar hann giftist annarri af núverandi eiginkonum sínum, Tracey Larkcombe, árið 2010. Hún gekk þá með fyrsta barn þeirra. Eftir þá giftingu tók hann upp eftirnafn eiginkonunnar og hét þá Jason Larkcombe þegar kom að þeirra sambandi. Þau hjónin bjuggu saman í Þýskalandi og 2015 eignuðust þau annað barn.

Sama ár og hann giftist Tracey Larkcombe kynntist Hayter konu að nafni Sara. Hún var búsett í Bretlandi og þau hófu þegar ástarsamband. Þau eignuðust barn árið 2014 og giftu sig árið 2016 en þá var Jason Hayter ennþá giftur Tracey Larkcombe. Sara tók upp eftirnafn eiginmanns síns og varð Sara Hayter. Þar með notaði Jason sitt hvort eftirnafnið í sitthvoru hjónabandinu. Sara og Jason eignuðust svo tvíbura árið 2018. Fjölskyldan bjó í Bretlandi.

Jason Hayter hefur játað tvíkvæni fyrir dómi og á yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi þegar dómur verður kveðinn upp yfir honum í næsta mánuði.

Sagðist vera samkynhneigður

Yfirlýsingar beggja eiginkvennanna voru lesnar upp fyrir dómi. Tracey Larkcombe sagðist hafa verið grunlaus. Hún hafi talið tíðar ferðir eiginmannsins frá heimili þeirra í Þýskalandi til Bretlands vera vegna herþjálfunar. Eftir eina ferðina hafi hann hins vegar sent henni sms-skilaboð þar sem hann tilkynnti að hjónabandinu væri lokið, hann elskaði hana ekki lengur og væri þar að auki samkynhneigður. Hann hefði yfirgefið hana og börnin, skilið hana eftir í skuldasúpu og ekki einu sinni haft samband við börn þeirra.

Hin eiginkonan, Sara Hayter, var alveg jafn grunlaus og segist hafa talið eiginmanninn vera fjarverandi vegna þjálfunar fyrir starf sjúkraflutningamanns. Hún segist ekkert vilja með Jason hafa og allt sem hann hafi sagt henni sé lygi.

Lögmaður Jason Hayter segir að hann hafi verið í breska hernum í 24 ár og á þeim tíma gegnt herþjónustu í Bosníu, Afganistan og Írak. Hann hafi verið greindur með áfallastreituröskun og á síðasta ári fengið heilablóðfall en sjá mátti Hayter nota hjólastól í dómssalnum.

Lögmaðurinn fullyrti að þegar Jason og Sara Hayter giftust árið 2016 hafi sambandi hans við Tracey Larkcombe verið lokið. Aldrei virðist hins vegar hafa verið gengið frá lögskilnaði.

Hámarksrefsing við tvíkvæni í Bretlandi er 7 ára fangelsi en óvíst er hvort hámarksrefsiramminn verði nýttur í máli Jason Hayter en dómsmál vegna tvíkvænis eru ekki algeng í landinu.

Það var DailyMail sem greindi frá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Færri fengu hæli í Svíþjóð á síðasta ári en nokkru sinni síðustu 40 árin

Færri fengu hæli í Svíþjóð á síðasta ári en nokkru sinni síðustu 40 árin
Pressan
Í gær

Leita að foreldrum Elsu og tveggja systkina hennar – Heita 3,5 milljónum fyrir upplýsingar um þá

Leita að foreldrum Elsu og tveggja systkina hennar – Heita 3,5 milljónum fyrir upplýsingar um þá
Pressan
Í gær

Umhugsunarefni fyrir þá sem ætla að fá sér gæludýr

Umhugsunarefni fyrir þá sem ætla að fá sér gæludýr
Pressan
Fyrir 2 dögum

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags
Pressan
Fyrir 2 dögum

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þetta eru bestu löndin til að verða gamall í

Þetta eru bestu löndin til að verða gamall í