Arkitektinn Rex Heuermann er í haldi lögreglunnar í New York sem telur hann vera hinn alræmda Long Island-raðmorðingja eða Gilgo-strandar raðmorðingjan – eins og hann er líka kallaður. Hefur Rex verið ákærður fyrir þrjú morð en töluverðar líkur eru á því að fjórða ákæran bætist við áður en um langt líður. Um er að ræða morð sem áttu sér stað fyrir rúmum áratug, en það var ekki fyrr en nýtt teymi rannsóknarlögreglumanna tók við málinu á seinasta ári sem hjólin tóku að snúast. Upp hófst umfangsmikil rannsókn og eftirlit sem náði svo hámarki þann 13. júlí þegar Rex Heuermann var handtekinn þar sem hann gekk eftir gangstétt í Manhattan.
Á meðan sat fjölskylda Rex heima, grunlaus. En þau vöknuðu við vondan draum þegar lögregla æddi inn á heimilið, hélt þeim frá því í tvær vikur, og afhentu það svo aftur í rúst. Segja má að lífið hafi verið hreinasta helvíti fyrir fjölskylduna undanfarinn mánuð en málið stendur okkur Íslendingum nærri þar sem Rex er kvæntur Ásu Guðbjörgu Ellerup, en þau eru nú skilin að borði og sæng.
Nú hefur verið greint frá því að börn Rex og Ásu séu í ömurlegri stöðu, þau standi í raun á hliðarlínunni í þessu öllu saman og séu orðin eins konar þátttakendur í hryllingssýningu.
Börnin, Victoria Heuermann sem er 26 ára, og Christopher Sheridan, sem er 33 ára, bjuggu bæði heima hjá foreldrum sínum þegar Rex var handtekinn. Victoria hafði meira að segja unnið með föður sínum í arkitektafyrirtæki hans. Christopher mun ekki hafa verið í vinnu, en hann er með þroskahömlun. Nú hafa systkinin fengið sér lögmann til að gæta hagsmuna þeirra í þessu öllu saman.
„Þau þurfa stöðugt að endurmeta hvað sé í gangi, næstum í rauntíma. Það sem er þeirra helsta vandamál nú er óboðlegt ástandið á heimilinu eftir rannsókn lögreglu – þar sem gólfefni var rifið niður í ræmur. Þau eru að reyna að komast aftur í venjulega rútínu, sem er þó ómögulegt eins og staðan er í dag. Þau eru að upplifa súra hryllilega martröð í þeirra vakandi lífi,“ sagði lögmaðurinn, Vess Mitev, við FOX fréttastofuna.
Vess segir að það sé ýmislegt í máli sem geti varðað beint við hagsmuni systkinanna. Svo sem nú þegar rannsóknin er á fullri ferð og ákæruvaldið að leggja fram heilu möppurnar af gögnum fyrir dómstólum, þá gæti vel verið að þarna sé eitthvað sem systkinin þurfi að verjast eða bregðast við.
Samkvæmt The Sun munu systkinin ekki enn hafa gert upp við sig hvort þau ætli að hafa samband við Rex í fangelsið, en þau útiloka það þó ekki. Vess segir um þetta: „Þau eru ekki að útiloka að heimsækja hann, en ekkert slíkt hefur þó verið ákveðið. Rannsókn er enn í gangi og þau eru að takast á við aðstæður eina mínútu í einu. Allt getur breyst á einu augabragði og þau átta sig á því.“
Móðir þeirra, Ása Guðbjörg, hefur áður sagt í samtali við fjölmiðla að systkini ásamt henni sjálfri, gráti sig í svefn á hverju kvöldi. Þó bæði Christopher og Victoria séu fullorðin þá séu þau alltaf börn í augum Ásu.
Nú hafa verjendur Rex lagt fram gögn fyrir dómi sem gefa vísbendingar um á hverju málsvörn hans byggir. Þar kemur meðal annars fram að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sína fram á að Rex hafi haft ásetning til að bana þeim ungu konum sem hann er sakaður um að myrða, og ekki hafi verið leiddar löglíkur á að Rex sé morðingi þeirra.
Eins mun vörnin beina athygli sinni að lífsýnum sem lögregla aflaði úr rusli Heuermanns, þar með talið af pitsuskorpu og pappírsþurrku. Vörnin segir ekkert liggja fyrir í málinu sem sanni að þetta lífsýni komi frá Rex. Eitt mikilvægasta vitnið í málinu er fyrrum herbergisfélagi einnar þeirrar látnu, en sá gaf lögreglu lýsingu á karlmanni sem gæti verið morðinginn. Lýsingin kom heim og saman við útlit Rex og það sem meira er þá gaf sama vitni lýsingu á bifreið sem þessi mögulegi morðingi hafi ekið – en það var lýsingin á þessari bifreið sem varð til þess að lögregla fór að rannsaka Rex, enda reyndist hann hafa átt nákvæmlega eins bíl. Verjendur munu þó ætla að tæta vitnisburð þennan í sig. Til dæmis hafi umrætt vitni aldrei verið látið bera kennsl á Rex á myndum eða í eigin persónu.
Eins hefur vörnin lagst gegn beiðni frá ákæruvaldinu um að lífsýni verði tekið innan úr kinn Rex. Dómari mun kveða upp úrskurð í þeim efnum í dag en ákæruvaldið hefur borið því við að það sé grundvallaratriði í málinu að fá lífsýni til að sannreyna við lífsýnið úr pitsakassanum. Fógetinn í Suffolk County þar sem málið er rekið segir í samtali við fjölmiðla að þó sé aðeins um formsatriði að ræða þar sem bæði lögregla og ákæruvald séu örugg um að Rex sé sekur.
Líklega þarf engan að undra að verjendur hafi mótmælt því að Rex leggi fram lífsýni sitt – enda væri þá erfitt að halda því fram að pitsakassasýnið væri óáreiðanlegt.
Getgátur hafa gengið á samfélagsmiðlum og eins verið viðraðar í fjölmiðlum, að skógur sem er í nágrenni heimilis Ásu og Rex, gæti falið fleiri fórnarlömb. Þar væri auðvelt að losa sig við lík, en eftir að líkin á Gilgo-ströndinni fundust árið 2010 hafi Rex líklega þurft að finna sér nýjan felustað, hafi hann haldið uppteknum hætti. Þarna séu engar eftirlitsmyndavélar, umferð sé lítil sem engin og mikið um gróður og tré til að fela nýteknar grafir. New York Post bar þetta undir sérfræðinga í afbrotafræði og fyrrum rannsóknarlögreglumenn og tóku þeir undir að þarna væri kjörinn staður á ferðinni. Eins væri ólíklegt að raðmorðingi hreinlega hætti að myrða. Þekkt sé að raðmorðingjar taki sér langar pásur, en áratugur sé þó nokkuð yfirdrifið. Miðillinn ræddi einnig við unga konu sem sagðist hafa mætt Rex þar sem hann kom út úr skóginum.
Eins hafa margir reynt að giska á hvað lögregla hafi sýnt Ásu Guðbjörgu sem mun hafa sannfært hana um sekt eiginmanns síns. Henni voru að sögn lögreglu sýndar myndir og sagði hún í kjölfarið – Svona er þetta bara. Netverjar hafa lagt til að þessar myndir hafi sýnt beltissylgju sem fannst hjá einu líkanna, myndir af Rex að hitta vændiskonur, eða mögulega eitthvað sönnunargagn sem hún hafi strax tengt við mann sinn. Eins gætu rannsakendur hafa sýnt henni leitarsögu Rex á netinu þar sem hann leitaði ítrekað eftir ofbeldisfullu klámi og barnaníði. Þetta eru þó aðeins getgátur þar sem ákæruvald og rannsakendur halda spilunum nærri sér til að gefa verjendum ekki færi á að fá sönnunargögn útilokuð áður en aðalmeðferð er einu sinni hafin.
Einn notandi á Reddit segist vera vinkona Ásu til fjörutíu ára. Þó ekki sé hægt að sannreyna þá fullyrðingu, og ekki ótítt að fólk villi á sér heimildir í netheimum, þá er áhugavert engu að síður að kanna hvað þessi meinta vinkona hefur um málið að segja. Hún greindi svo frá því að Ása glími við heilsubrest. Rex hafi ekki verið góður við hana, þó hún hafi líka óttast hann að einhverju leyti. Meinta vinkonan segir engan í þeirri stöðu til að dæma Ásu án þess að hafa gengið í hennar spor. Ása standi nú í ströngu þar sem ágangur nágranna, fjölmiðla og fleiri sé mikill. Heimilið sé óíbúðarhæft eftir framgöngu lögreglunnar, nágrannar hafi gert henni skýrt að hún sé ekki velkomin í hverfi sínu lengur og sonur hennar sé með erfiða áfallastreituröskun. Dóttir hennar verði fyrir stöðugu áreiti, þau séu ekki með bíl til umráða og þurfi því að ganga út í búð til að sækja sér nauðsynjar. Þau eigi enga olíu fyrir kyndinguna og þurfi að yfirgefa New York áður en það kólnar of mikið, en Ása hafi hug á að flytja. Meinta vinkonan segir að Ása hafi íhugað að flytja til Íslands en það sé ekki mögulegt sem stendur þar sem alríkislögreglan hafi tekið af henni vegabréfið. Rex hafi verið fyrirvinnan á heimilinu og nú sé tekjustreymið ekkert.
„Hún er góð frábær manneskja sem myndi gefa öðrum skyrtuna af sínu eigin baki,“ sagði þessi meinta vinkona og þó svo ekki sé hægt sem stendur að sannreyna að þessi umræddi notandi þekki Ásu þá virðist aðganginum aðeins beitt til að styðja við Ásu og vekja athygli á GoFundMe-söfnun sem Melissa Moore hrinti af stað – en Melissa er dóttir raðmorðingja sem komst upp um árið 1995. Eins virðist þessi notandi hafa gefið í söfnunina og skrifaði þar skilaboð til Ásu og kallaði hana bestu vinkonu sína. Ekki verða þó dregnar of víðtækar ályktanir af þessu.