Maður á þrítugsaldri var skotinn fyrr í morgun í Helsingborg í suðurhluta Svíþjóðar. Maðurinn sat í kyrrstæðum bíl þegar hann varð fyrir skotunum. Hann var fluttur á sjúkrahús en lést af sárum sínum síðar um morguninn.
Skotárásin var gerð í miðju íbúahverfi á svæði þar sem umferð fólks á leið til vinnu og skóla, á morgnana, er sögð nokkuð tíð. Tilkynnt var um árásina kl 7.20 í morgun að sænskum tíma. Árásarmaðurinn flúði vettvang en fjöldi lögreglumanna fór um hverfið og leitaði vitna og einhverra aðila sem kynnu að búa yfir upplýsingum um málið.
Lögreglan á svæðinu hefur nú tilkynnt að táningur, sem grunaður er um morðið, hafi verið handtekinn. Nákvæmur aldur táningsins kemur ekki fram en hann er sagður á síðari hluta táningsáranna.
Aftonbladet greinir frá.