fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Pressan

Njósnarinn sem unni náttúrunni og gaf konum tækifæri

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 22. ágúst 2023 22:00

Maxwell Knight/Skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bretinn Charles Henry Maxwell Knight, sem var þekktur undir nafninu Maxwell Knight, fann ekki almennilega fjölina sína í lífinu fyrr en hann gerðist njósnari. Hann reyndist afar frambærilegur í því starfi og hefur oft verið talin ein helsta fyrirmyndin að persónunni M, yfirmanni James Bond í sögunum um þennan þekktasta njósnara Bretaveldis.

Knight fæddist á aldamótaárinu 1900. Faðir hans var lögmaður en móðir hans var ekki útivinnandi eins og oft var raunin með eiginkonur og mæður á þessum tíma.

Maxwell Knight gegndi herþjónustu í breska sjóhernum í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann starfaði á nokkrum skipum og var sagður efnilegur herforingi en hann yfirgaf herinn í febrúar 1919. Eftir það reyndi hann fyrir sér í kennslu og blaðamennsku. Hann virðist ekki hafa notið sín sérstaklega vel í þessum störfum en honum bauðst hins vegar nýtt tækifæri árið 1924.

Það ár bað maður að nafni George Makgill, sem var milligöngumaður fyrir Vernon Kell æðsta yfirmann leyniþjónustunnar MI5, Knight um að ganga til liðs við fasistahreyfingu sem þá hafði nýlega verið stofnuð í Bretlandi, sú fyrsta í breskri sögu.

Makgill stýrði fleiri njósnurum á vegum MI5 sem ætlað var að greina mögulegar ógnir við breskt þjóðaröryggi og ljá stofnuninni aukin úrræði við að berjast á móti slíkum ógnum.

Knight var maður MI5 innan þessarar fasistahreyfingar allt til 1930 en þá þvarr hana endanlega allan kraft. Hann þótti sýna hugkvæmni við að njósna um fasistana og notaði meira að segja menn úr hreyfingunni til að þykjast vera kommúnistar og ganga í Kommúnistaflokk Bretlands til að njósna um hann. Knight skýrði síðan MI5 frá njósnum fasistanna um kommúnistana.

Á þessum árum þótti Knight standa sig afar vel í njósnarastarfinu og vegur hans innan MI5 fór vaxandi með tímanum. Hann varð yfirmaður þeirrar deildar MI5 sem hafði það verkefni að lauma njósnurum inn í róttækustu stjórnmálahreyfingarnar í Bretlandi, sem þóttu ógna öryggi ríkisins. Í þessu starfi beindi Knight einkum sjónum sínum að Kommúnistaflokki Bretlands.

Hafði mikla trú á konum

Deild Knight náði miklum árangri við að njósna um breska kommúnista. Ein helsta ástæðan fyrir því er talin vera sú staðreynd að Knight var óvenjulegur, af manni sem stýrði hópi njósnara á fyrri hluta 20. aldar að vera, að því leyti að hann hafði mikla trú á hæfni kvenna til njósnastarfa. Hann hafði forystu um að hópur kvenna á vegum MI5 kom sér fyrir innan kommúnistahreyfingarinnar og eins og Knight grunaði voru konurnar ekki grunaðar um græsku. Karlarnir sem mestu réðu í kommúnistahreyfingunni höfðu enga trú á að nokkur ógn gæti stafað af konum og hvað þá að þær væru njósnarar.

Vegna þessa vanmats reyndust konurnar sem Knight hafði yfirumsjón með afskaplega góðir njósnarar. Ein þeirra, Olga Gray(sem var í áratugi aðeins þekkt undir dulnefninu ungfrú X) kom til að mynda upp um hóp breskra kommúnista sem gerði tilraun til að deila leynilegum upplýsingum um vopnakerfi Bretlands með Sovétríkjunum, á 4. áratug 20. aldar.

Umfjöllun Daily Mail um Olga Gray, frá 2017/Skjáskot: Pressreader

Knight sagði síðar að á meðan hann starfaði fyrir MI5 hefðu verið uppi langvarandi og illa ígrundaðir fordómar gegn því að ráða konur sem njósnara. Honum þótti sá árangur sem konur undir hans stjórn náðu í sínum njósnastörfum sanna að þessar hugmyndir um vanhæfni þeirra til slíkra starfa ættu sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Knight hafði mikla ímugust á kommúnisma og kommúnistum og sum sem þekktu hann hvað best sögðu hann nánast hafa verið haldinn þráhyggju fyrir þessum viðfangsefnum. Hann sendi njósnara sína þó ekki eingöngu til að njósna um kommúnista. Sumar konurnar undir hans stjórn njósnuðu um fasista í Bretlandi og náðu einnig góðum árangri við að draga úr ógninni sem af þeim stafaði.

Í seinni heimsstyrjöldinni lýsti Knight miklum áhyggjum af framtíðinni, hver áhrif Sovétríkjanna og heimskommúnismans yrðu að henni lokinni og hver stefna þeirra yrði gagnvart Bretlandi. Lítið var gert úr áhyggjum af hans af helstu sérfræðingum Bretlands um Sovétríkin en eftir stríð kom í ljós að Knight hafði rétt fyrir sér þegar kalda stríðið skall á.

Knight var einnig sannfærður á þessum árum um að kommúnistar hefðu tekið sér bólfestu innan MI5. Framan af var því vísað á bug en í ljós kom að þar hafði Knight einnig rétt fyrir sér. Þar má nefna t.d. Anthony Blunt sem var ekki afhjúpaður sem njósnari fyrir Sovétríkin fyrr en á sjöunda áratug 20. aldar en þá starfaði hann sem umsjónarmaður listasafns Elísabetar Bretlandsdrottningar.

Anthony Blunt ásamt Elísabetu Bretlandsdrottningu árið 1959/Getty

Eins og áður sagði er Maxwell Knight almennt talinn ein helsta fyrirmyndin að M, yfirmanni James Bond. Ian Fleming, höfundur bókanna um Bond, er sagður hafa byggt M á Knight og John Godfrey sem var yfirmaður Fleming í leyniþjónustu breska sjóhersins. Henry Hemming sem ritaði ævisögu Knight telur hins vegar að M sé aðallega byggður á Godfrey en nafnið hafi Ian Fleming sótt til Maxwell Knight.

Nýr starfsferill í rólegra og náttúrulegra umhverfi

Árið 1946 ákvað Maxwell Knight að fá sér aukavinnu meðfram njósnarastörfunum. Hann hafði frá barnæsku verið mikill áhugamaður um náttúruna og náttúrufræði og tók nú að sér að stýra útvarpsþáttum fyrir Breska ríkisútvarpið, BBC, um þessi hugðarefni sín. Knight kom einnig fram í sjónvarpsþáttum um þessi efni og skrifaði jafnframt um þau bækur og greinar. Þetta gerði hann framan af meðfram störfum sínum fyrir MI5 en hann lét loks af störfum sínum fyrir stofnunina árið 1961.

Knight var þrígiftur en sagður hafa í anda starfa sinna sem njósnari tekist að fela samkynhneigð sína, enda var hún ólögleg í Bretlandi þegar hann starfaði fyrir MI5. Hann er til dæmis sagður hafa ráðið bifvélavirkja þótt ekkert hafi verið að bílnum hans.

Maxwell Knight lést árið 1968 og í minningu hans var settur á fót sérstakur sjóður til að fjármagna uppbyggingu bókasafns Náttúrusögusafnsins í London. Annar minningarsjóður tileinkaður Knight kom að varðveislu villtrar náttúru víða um heim en meðal þeirra sem komu að sjóðnum var David Attenborough.

Henry Hemming ævisöguritari Knight segir að meðal helstu afreka hans í starfi sínu hjá MI5 hafi verið aðkoma hans að því að útrýma hreyfingu breskra fasista í seinni heimsstyrjöldinni, breyta því hvernig litið var á konur innan MI5 og auka skilning innan breska stjórnkerfisins á kommúnistahreyfingunni í Bretlandi.

Óútgefnar endurminningar Knight fundust um hálfri öld eftir dauða hans. Þær voru birtar í dagblaðinu The Guardian, árið 2015. undir þeirri fyrirsögn að þær væru ritaðar af hinum „raunverulega M“ en eins og fram hefur komið hér er umdeilt hvort kalla megi Maxwell Knight því nafni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum
Pressan
Fyrir 4 dögum

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans
Pressan
Fyrir 4 dögum

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið