Þrír einstaklingar eru látnir og þrír aðrir hafa verið fluttir á sjúkrahús eftir að fengið sér mjólkurhristing (e. milkshake) sem var mengaður af bakteríunni listería sem hafði tekið sér bólfestu á veitingastað í borginni Tacoma í Washington-ríki í Bandaríkjunum.
Fulltrúar heilbrigðiseftirlitsins á svæðinu fundu út að útbreiðslu bakteríunnar mátti rekja til ísvéla, sem voru ekki þrifnar á fullnægjandi hátt, á skyndibitastaðnunm Frugals í Tacoma. Bakterían mun geta legið í dvala í líkama fólks í allt að 70 daga og vélarnar voru síðast notaðar 7. ágúst síðastliðinn.
Áðurnefndir sex einstaklingar sem veiktust, þar með talið þeir þrír sem létust, voru lagðir inn á sjúkrahús á tímabilinu frá 27. febrúar og til 22. júlí á þessu ári. Rannsóknir hafa sýnt að allt fólkið var sýkt af sama stofni bakteríunnar.
Tveir af þeim þremur einstaklingum sem lifðu af sögðust hafa neytt mjólkurhristings á Frugals í Tacoma áður en þeir veiktust.
Einkenni listeríu smits eru m.a. hiti, vöðvaverkir, í sumum tillfellum niðurgangur eða annars konar vandamál í meltingarfærum, höfuðverkur, skert vitund og krampaköst.
Öll sem borðuðu á þessum skyndibitastað á tímabilinu 29. maí til 7. ágúst og eru haldin þessum einkennum eru eindregið hvött til þess að leita læknis.
Um 1600 manns veikjast árlega af völdum listeríu bakteríunnar í Bandaríkjunum. Um það bil 260 þessara tilfella enda með dauðsfalli.
Bakterían veldur einkum veikindum hjá eldra fólki, ófrískum konum, ungabörnum og fullorðnum með skert ónæmiskerfi.
Ófrískar konur eru 10 sinnum líklegri til að veikjast af völdum listeríu en ófrískar konur af rómönskum uppruna eru 24 sinnum líklegri til þess.
Það var CNN sem greindi frá.