fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Pressan

Sakleysislegi barnaraðmorðinginn sendi fjölskyldum fórnarlambanna fingurinn – „Pabbinn lá grátandi á gólfinu“

Pressan
Mánudaginn 21. ágúst 2023 13:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mál breska hjúkrunarfræðingsins Lucy Letby hefur vakið mikinn óhug, en hún hefur verið sakfelld fyrir að hafa banað sjö fyrirburum og fyrir að hafa reynt að bana sex til viðbótar. Brotin framdi hún í starfi sínu sem hjúkrunarfræðingur, en börnin voru í hennar umsjá þegar þau létust.

Hún átti í morgun að mæta fyrir dóm og hlýða þar á vitnisburð frá fjölskyldum hinna látnu og hvaða áhrif brot hennar hafa haft á líf þeirra. Lucy hins vegar neitaði að mæta, sem þykir gífurleg vanvirðing við aðstandendur barnanna. Við sama tilefni kallaði ákæruvaldið eftir að Lucy yrði gert að verja lífstíð í fangelsi. Rétt er að taka fram að refsing hefur verið opinberuð og það er lífstíðarfangelsi með engum möguleika á reynslulausn.

Rúmlega tólf fjölskyldur söfnuðust saman í dómsal í Manchester í morgun til að sjá alræmdasta barnaraðmorðingja Bretlands horfast í augu við réttvísina. En þeim mætti þó tómur stóll þar sem Lucy kaus að dvelja fremur í fangaklefanum. Saksóknari rakti fyrir dómi að sjaldan hefi jafn ríkt tilefni verið til að beita hörðustu refsingu, lífstíðarfangelsi, en í þessu máli. Lucy hafi myrt af yfirlögðu ráði og brot hennar hafi beinst gegn varnarlausum börnum.

Ég er vond manneskja

Dómari rakti að það væri ekki á hans valdi að þvinga sakborning til að mæta fyrir dóm til að hlýða á uppkvaðningu refsingar, en ríkisstjórnin hefur heitið því að bæta úr þessu og veita dómurum slíka heimild. Forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, sagði það vera hugleysi að fólk sem hafi framið svona hrottalega glæpi geti komist hjá því að horfast í augu við þolendur sína.

Lucy hefur þar að auki neitað að játa brotin með beinum hætti. Það næsta sem hún hefur komist játningu er post-it miði þar sem hún ritaði: „Ég er vond manneskja. Ég gerði þetta.“

Lucy banaði fórnarlömbum sínum, sem flest voru svo smá að hún gat haldið á þeim með einni hönd, með því að sprauta þau með insúlíni eða með lofti. Hún herjaði á þríbura, þrenna tvíbura og eitt barn sem lifði af þrátt fyrir að hafa fæðst eftir 23 vikna meðgöngu inn á salerni spítala. Lucy réðst gegn fyrirburanum í þrígang með því að gefa honum of mikla mjólk og með því að sprauta mjólk beint í maga hans. Fyrirburinn, lítil stúlka, lifði af en mun glíma við varanlegar afleiðingar af þessu tilræði og mun líklega aldrei geta gengið eða talað. Lögregla er nú að kemba lista yfir 4.000 börn sem Lucy gæti hafa haft afskipti af á tímabilinu 2012-2016. Fleiri fjölskyldur hafa verið varaðar við að börn þeirra gætu verið þolendur og því ekki útilokað að Lucy verði aftur dregin fyrir dóm.

Rannsóknarlögreglumenn munu hafa borið kennsl á 30 nýbura til viðbótar sem Lucy hafi líklega ráðist á eftir að hafa farið yfir atvikaskráningu frá sjúkrahúsinu sem Lucy starfaði á. Þá áttu óútskýrðar uppákomur sér stað á meðan Lucy var á vakt. Þau börn lifðu, sem betur fer, af.

Sjá einnig: Óhugnaleg ástæða þess að breski raðmorðinginn Lucy Letby myrti sjö nýbura

Reiðin hefur rústað mér

Faðir þríbura, en aðeins einn er lifandi eftir að Lucy banaði hinum, las grátandi upp yfirlýsingu um áhrif morðsins á líf hans og fjölskyldunnar, en hann er nú í þeirri stöðu að þurfa að útskýra fyrir eftirlifandi barni sínu að hann hafi fæðst sem þríburi, en hinum tveimur hafi verið banað.

„Lucy Letby er búin að eyðileggja líf okkar. Reiðin og hatrið sem ég ber til hennar mun aldrei fara. Þetta er búið að rústa mér sem karlmanni og sem föður. Ég hef misst af rúmlega sex árum af lífi barna okkar út af gjörðum hennar. Jafnvel eftir að þessu máli er lokið mun það ásækja okkur og mun ávallt hafa áhrif á líf okkar.“

Faðirinn hafi leitað huggunar í áfengi og andleg heilsa hans hafi aldrei beðið þess bætur að hafa þurft að jarða tvö barna sinna. Hann hafi jafnvel íhugað að taka eigið líf. Síðan hafi farið að birta til, en þá kom næsta áfall – að börnum hans hafi verið banað. Hann hafi hætt að geta sofið vegna martraða sem sóttu á hann og hjónaband hans hafi staðið á brauðfótum. Þetta ástand hafi eins haft gífurleg áhrif á eftirlifandi þríburann og eldra barn þeirra. Móðir drengjanna tók undir með manni sínum og sagði lífið rjúkandi rústir.

Móðir barn sem Lucy reyndi að myrða segir að barnið glímir við varanlegar afleiðingar, á erfitt með að nærast og annað sem má rekja til áverka á hálsi. Vakta þurfi hann í svefni svo hann hætti ekki að anda. Þau foreldrarnir séu svo hrædd að þau hleypi honum nánast ekki úr augsýn og hafi ákveðið að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi hans.

Foreldrar annars barns sem Lucy reyndi að myrða segjast hafa hætt við frekari barneignir þar sem þau geti ekki hugsað sér að enda aftur á vökudeildinni.

Heimurinn hrundi þegar þau mættu illskunni holdi klædda

Faðir tvíbura sem Lucy reyndi að myrða segir að upphaflega hafi þeim verið sagt að uppákoman sem átti sér stað á vökudeildinni 2016 hafi verið útskýrð fyrir þeim sem eðlileg í tilviki fyrirbura. Þau hafi trúað því framan af.

„Þá vissum við ekki að rétt rúmu ári eftir að þeir fæddust þá kæmi lögreglan til okkar til að greina okkur frá því að hér gæti hafa verið um morðtilraun að ræða.“

Foreldrar barns sem Lucy myrti árið 2015 segja að hluti af þeim sjálfum hafi látið lífið með litlu dóttur þeirra.

„Kvöldið sem barnið dó vorum við að ræða við hjúkrunarfræðingana á vakt og þau sögðu að lífsmörk hennar væru orðin það góð að líklega kæmist hún heim fyrir jólin. Svo réttu þau barnið til mín og ég vildi aldrei sleppa af h enni takinu. Við héldum svo fast í hana. Hún var fallega litla prinsessan okkar og ég get ekki einu sinni lýst sársaukanum við að missa hana. Hluti af okkur dó með henni.“

Móðir stúlkunnar segist þurfa svefntöflur til að sofa og þunglyndislyf til að komast í gegnum daginn. Hún sé líka að taka blóðþrýstingslyf til að hjálpa henni með ofsakvíða.

„Ég mun aldrei komast yfir það að dóttir okkar var pyntuð þar til hún gat ekki meira.“

Lucy reyndi að drepa aðra stúlku árið 2015, en tilræðið hafði varanlegar afleiðingar. Stúlkan er nú verulega fötluð, blind, mállaus, með heilalömun og hryggskekkju. Hún þarf að undirgangast erfiða aðgerð sem hún mun  mögulega ekki lifa af.

„Hún mun aldrei geta gist með vinum, farið í gagnfræðisskóla, eignast kærasta eða gift sig.“

Móðir tvíbura, sem Lucy ætlaði báða að myrða en tókst bara ætlunarverk sitt í öðru tilvikinu, segir að Lucy hafi dæmt hana til lífstíðar. Hún geti engum treyst í dag og líf hennar sé í rúst. Eftirlifandi tvíburinn glími við varanlegar afleiðingar banatilræðisins og hafi nú fjölþættar sérþarfir og þurfi sólarhrings umönnun. Móðirin treysti þó engum hjúkrunarfræðing og hafi tekið umönnunina að sér sjálf.

„Heimurinn okkar hrundi þegar við hittum illskuna holdi klædda í gervi umhyggjusams hjúkrunarfræðings.“

Hrottaleg framkoma í kjölfar morðanna

Brot Lucy komu öllum að óvörum, enda var almennt litið á hana sem barnalega unga konu sem hafi þó verið dálítið furðuleg, en þó á jákvæðan hátt. Hún hafi sofið með Disney-tuskubrúður á sama tíma og hún hugsaði upp nýjar leiðir til að valda nýfæddum börnum ómældum kvölum. Munu sumir þolendur hennar hafa rekið upp slík skaðræðiskvein að barnalæknar hafi aldrei heyrt annað eins. Eftir hvert morð mun Lucy hafa verið lífleg og spennt og boðist til að baða, klæða og taka myndir af látnu börnunum.

Enn er á huldu hvað vakti fyrir henni en saksóknarar hafa lagt fram þá kenningu að Lucy hafi viljað leika guð með því að ráða hver af sjúklingum hennar fengi að lifa, og hver ætti að deyja. Mögulega hafi hún verið að reyna að ganga í augun á giftum lækni sem starfaði með henni, en hann hafi gjarnan verið kallaður út þegar lífsmörk barnanna fóru að fjara út. Lucy sneri sér svo að aðstandendum barnanna og vottaði þeim samúð og reyndi að hughreysta. Hún sendi jafnvel samúðarskeyti í jarðarfarir barnanna.

Eftir að hún myrti eitt barnið sendi hún samstarfsfélaga skilaboð og sagði: „Pabbinn lá á gólfinu grátandi og sagði plís ekki taka barnið okkar burt þegar ég færði það yfir í líkhúsið. Það var átakanlegt. Þetta var það erfiðasta sem ég hef þurft að gera.“

Í einu tilfelli hafði reyndari hjúkrunarfræðingur á vakt ítrekað þurft að biðja Lucy að yfirgefa sjúkrastofu þar sem syrgjandi par var að eyða síðustu stundinni með ungabarni sínu. Faðir barnsins hafi kvartað undan því að Lucy hafi komið óboðin inn með kassa og tilkynnt foreldrunum að þau væru búin að kveðja og hvort hún ætti ekki að setja líkið í kassann. Þá hafi eiginkona hans stunið upp að sonur þeirra væri ekki dáinn enn.

Lucy réðst einnig á börn með því að troða hörðu plasti eða slöngum úr járni, ofan í háls þeirra. Eitt barn skaddaðist á lifur, en áverkinn var slíkur að sérfræðingar höfðu aðeins séð annað eins hjá börnum sem hafa lent í ákeyrslu.

Mun Lucy hafa myrt tíu vikna dreng sem fæddist fyrir tímann því hún var pirruð yfir því að vinur sem hún var að senda skilaboð hefði ekki sýnt henni nægan stuðning eftir að henni var skipað að taka sér hlé frá störfum eftir að annað barn hafði látið lífið.

Rannsókn verður einnig hafin innanbúðar hjá sjúkrahúsinu, en talið er að stjórnendur hafi virt ítrekaðar ábendingar um framkomu Lucy að vettugi. Þvert á móti hafi þeim sem báru upp sakir á Lucy verið skammaðir og gert að skrifa afsökunarbréf. Eins hafi samstarfsaðilar Lucy gripið til varna fyrir hana, sannfærð um að hún væri saklaus. Það sé hins vegar erfitt að þræta fyrir málið núna, þar sem eftir að Lucy var handtekinn, fyrir sjö árum, hafi bara eitt barn látið lífið á vökudeildinni.

 

Daily Mail greindi frá

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Hér á aldrei að hafa jólatréð – Fallegasti staðurinn getur verið sá hættulegasti

Hér á aldrei að hafa jólatréð – Fallegasti staðurinn getur verið sá hættulegasti
Pressan
Fyrir 2 dögum

Albatrosinn Wisdom er 74 ára og nýbúin að finna sér nýja maka og verpa enn einu sinni

Albatrosinn Wisdom er 74 ára og nýbúin að finna sér nýja maka og verpa enn einu sinni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað
Pressan
Fyrir 2 dögum

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fundu 76 barnslík – Bringan hafði verið skorin upp á þeim öllum

Fundu 76 barnslík – Bringan hafði verið skorin upp á þeim öllum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hakkarar frá Norður-Kóreu eru sérstaklega stórtækir á einu sviði

Hakkarar frá Norður-Kóreu eru sérstaklega stórtækir á einu sviði
Pressan
Fyrir 4 dögum

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn
Pressan
Fyrir 5 dögum

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“