Ráðist var fyrr í dag á Salwan Momika sem vakið hefur þjóðarathygli í Svíþjóð að undanförnu fyrir að brenna í þó nokkur skipti eintök af Kóraninum, heilagasta riti íslam. Momika er frá Írak og hefur sem stendur stöðu flóttamanns í Svíþjóð, hann segist vilja að Kóraninn verði bannaður í landinu.
Ráðist var á Momika í borginni Södertälje, suður af Stokkhólmi. Árásarmaðurinn var klæddur í boxhanska og á myndböndum sem náðust af atvikinu og dreift var á samfélagsmiðlum má heyra árásarmanninn ávarpa og örgra Momika á arabísku og slá síðan og sparka í hann.
Momika varðist í fyrstu höggum mannsins með því að lyfta handleggjunum en náði að krækja sér í skilti af götunni og á myndböndunum má sjá hann sveifla skiltinu í átt að árásarmanninum sem á endanum flúði af vettvangi.
Árásin var tilkynnt til lögreglu en enginn hefur verið handtekinn grunaður um hana. Lögreglan hefur ekki staðfest að Momika hafi verið þolandi árásarinnar en segir málið vera í rannsókn.
Það var SVT sem greindi frá.