fbpx
Þriðjudagur 12.nóvember 2024
Pressan

Í þessu landi eru ellefu konur myrtar á hverjum degi

Pressan
Föstudaginn 11. ágúst 2023 20:00

Betty´s Bay í Suður-Afríku/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Suður-afríski vefmiðillinn News24 greinir frá því að forseti landins, Cyril Ramaphosa, hafi kallað þá staðreynd að ellefu konur eru myrtar í landinu á hverjum degi „árás á mennsku okkar.“ Hann hefur lýst yfir stuðningi við frumvarp til laga um kynbundið ofbeldi og kvennamorð sem er nú til meðferðar á þingi landsins og ætlað er að binda enda á þessa nánast endalausu bylgju kynbundins ofbeldis.

Í ræðu, 9. ágúst, á sérstökum degi kvenna í landinu sagði forsetinn að stjórnvöld hefðu náð árangri síðan að sérstök áætlun gegn kynbundnu ofbeldi í landinu öllu var sett á fót 2019. Áðurnefnt lagafrumvarp er sagt afsprengi þessarar áætlunar.

Stjórnarandstöðunni þótti hins vegar ekki mikið til þessa koma og sagðist þreytt á innantómum orðum frá forsetanum og ríkisstjórninni og varpaði fram þeirri spurningu af hverju konur væru myrtar á meðan ríkisstjórnin léti sér standa á sama.

Dagur kvenna í Suður- Afríku er haldinn hátíðlegur til að minnast þess þegar 20.000 konur gengu að skrifstofu forseta landsins, í borginni Pretoria, þann 9. ágúst 1956 og kröfðust breytinga á lögum, apartheid-stjórnar hvíta minnihlutans í landinu, um ofbeldi gegn konum.

Umsagnarfrestur vegna frumvarpsins til laga um kynbundið ofbeldi og kvennamorð er nú liðinn. Ein af helstu ástæðum þess að frumvarpið hefur verið lagt fram eru sláandi tölur um ofbeldi gegn konum frá fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Á þessu tímabil voru á hverjum degi 11 konur myrtar, 17 tilraunir gerðar til að myrða konur og 118 konum nauðgað.

Sá árangur í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi sem Ramaphosa forseti segir að hafi náðst síðan 2019 er sagður meðal annars felast í því að 12.000 lögreglumenn um allt land hafa verið þjálfaðir sérstaklega til að bregðast við málum sem varða ofbeldi gegn konum.

Dæmi um afar vægar refsingar fyrir hrottalegt ofbeldi gegn konum

Mál sem upp hafa komið að undanförnu vegna hrottalegs ofbeldis í garð kvenna eru hins vegar í þversögn við fullyrðingar forsetans um árangur í þessum efnum.

Mál konu að nafni Zakiyah Karim þykir vera dæmi um það en eiginmaður hennar er sakaður um að hafa skorið hana með rakvélablöðum, barið hana með krepptum hnefum, ógnað henni með öxi og haft þvaglát á naktan líkama hennar nokkrum vikum eftir að hún fæddi barn þeirra, í nóvember á síðasta ári. Eiginmaðurinn, Ahmed Paruk, var handtekinn og ákærður fyrir morðtilraun og líkamsárás í þeim tilgangi að valda alvarlegum skaða.

Paruk játaði að hafa framið líkamsárás en sagðist eingöngu hafa slegið konu sína með krepptum hnefum. Hann fékk eins árs skilorðsbundin fangelsisdóm.

Forsetinn fullyrti í ræðu sinni að þegar frumvarpið væri orðið að lögum og þau kæmu til framkvæmda yrði endir bundinn á ofbeldi gegn konum í Suður-Afríku sem í dag væru hvergi öruggar.

Samkvæmt frumvarpinu stendur til að stofna sérstakt ráð skipað 13 fulltrúum en 80 prósent þeirra eiga að vera konur. Þetta ráð á meðal annars að tryggja að úrræði séu nýtt með réttmætum hætti til að tryggja alhliða viðbrögð við kynbundu ofbeldi og kvennamorðum í Suður-Afríku.

Á viðburðinum vegna dags kvenna þar sem Ramaphosa forseti flutti ræðu sína var stödd kona að nafni Sophie de Bruyn. Hún er 85 ára gömul og er ein eftirlifandi af þeim fjórum konum sem leiddu áðurnefnda mótmælagöngu 9. ágúst 1956. Í ræðu, sem dóttir de Bruyn flutti fyrir hennar hönd, sagði hún að engin kona í Suður-Afríku væri óhult. Hún hvatti til þess að vikið yrði frá almennum lausnum og yfirlýsingum og þess í stað fundin praktísk úrræði gegn þessum gríðarlegu áskorunum sem suður-afrískt samfélag stendur frammi fyrir þegar kemur að ofbeldi gegn konum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Norður-kóresku hermennirnir í Rússlandi fengu loks óheftan aðgang að netinu – með fyrirsjáanlegum afleiðingum

Norður-kóresku hermennirnir í Rússlandi fengu loks óheftan aðgang að netinu – með fyrirsjáanlegum afleiðingum
Pressan
Í gær

Þetta ættir þú að þrífa oftar á veturna

Þetta ættir þú að þrífa oftar á veturna
Pressan
Fyrir 2 dögum

Leitin að þessum einstaka bíl stóð yfir áratugum saman

Leitin að þessum einstaka bíl stóð yfir áratugum saman
Pressan
Fyrir 2 dögum

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ fær að finna fyrir reiði kvenna

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ fær að finna fyrir reiði kvenna
Pressan
Fyrir 2 dögum

Hversu mörgum dýrategundum hafa menn útrýmt?

Hversu mörgum dýrategundum hafa menn útrýmt?
Pressan
Fyrir 2 dögum

Móðir opnaði fyrir trúði og var myrt – Gerandinn enn ófundinn

Móðir opnaði fyrir trúði og var myrt – Gerandinn enn ófundinn