Lori Vallow Daybell var fyrr í dag dæmd í lífstíðarfangelsi, án möguleika á reynslulausn, fyrir dómstól í Idaho-ríki í Bandaríkjunum fyrir að hafa orðið tveimur yngri börnum sínum að bana og tekið þátt í samsæri um að myrða fyrri eiginkonu eiginmanns síns.
Daybell hefur stundum verið kölluð dómsdagsmamman en fjallað var um hana og fjölskyldu hennar í Netflix-þáttaröðinni Sins of Our Mother (Syndir móður okkar). Hún var hluti af öfgafullum sértrúarsöfnuði sem klauf sig frá kirkju mormóna og trúði því statt og stöðugt að heimsendir væri í nánd. Talið er að hún hafi orðið börnunum að bana meðal annars til að hlífa þeim við því sem koma skyldi.
Í umfjöllun CNN kemur fram að Daybell hafi orðið 16 ára dóttur sinni, Tylee Ryan, og 7 ára gömlum syni sínum, Joshua Vallow, að bana. Hún átti einnig þátt í samsæri um að myrða Tammy Daybell sem var fyrri eiginkona eigimanns Lori, Chad Daybell. Að auki var hún dæmd í 10 ára fangelsi fyrir stórtækan þjófnað en hún tók við bótum frá almannatryggingum vegna barnanna eftir að þau voru látin.
Lori var fundin sek af öllum ákærum af kviðdómi í maí síðastliðnum.
Elsta barn hennar, Colby Ryan, og stóri bróðir Tylee og Joshua er í dag á þrítugsaldri og lýsti yfir söknuði eftir yngri systkinum sínum við dómsuppkvaðninguna í dag. Hann harmaði mjög að þau hefðu verið svipt tækifærinu til að fullorðnast.
Lori var ekki á sakaskrá áður en þetta mál kom upp og var það metið henni til refsilækkunar en á móti var það metið til refsiauka að hún hefur ekki sýnt neina iðrun. Dómarinn sagði hana hafa framið alvarlegasta glæp sem móðir getur framið gagnvart börnum sínum.
Lori neitaði sök staðfastlega við dómsuppkvaðninguna. Hún sagðist hafa talað við Jesú Krist, börn sín og fyrri konu manns síns og að þau væru öll hamingjusöm í himnaríki. Samkvæmt henni veit Jesú að enginn hafi verið myrtur í þessu tilfelli. Hún segir að slys, sjálfsvíg og banvænar aukaverkanir vegna lyfja geti hins vegar átt sér stað.
Joshua og Tylee sáust síðast á lífi í september 2019 en Tammy Daybell dó mánuði síðar. Ættingjar barnanna höfðu samband við lögreglu þegar ekki hefði heyrst frá þeim í nokkurn tíma. Chad og Lori lugu því að börnin dveldu hjá vinum þeirra og létu sig síðan hverfa en fundust loks á Hawaii. Lík barnanna fundust í bakgarði Chad Daybell í Idaho í júní 2020. Réttað verður yfir honum á næsta ári en hann er m.a. ákærður fyrir yfirhylmingu og að leyna sönnunargögnum.
Saksóknarar sögðu að þeir teldu að Lori og Chad nýttu sér trúarbrögð til að réttlæta morðin. Lori hafi myrt börn sín til að hagnast á því fjárhagslega og leitað réttlætingar í furðulegum trúarskoðunum.
Lögmaður Lori sagði að hún væri góð móðir og saklaus. Hann sagði að í Bandaríkjunum hefði fólk frelsi til að aðhyllast trúarlegar skoðanir í ætt við þær sem Lori fylgdi,