Maður stakk sjálfan sig til bana á Sloane Square neðanjarðarlestarstöðinni í miðborg London í morgun. Í frétt Mirror segir að vitni og aðrir farþegar á stöðinni hafi hlaupið í ofboði út af stöðinni og sum hrópuðu á fólk að forða sér. Fjölmennt lið lögreglu var kallað út en staðfest var um hádegisbilið að maðurinn hefði veitt sjálfum sér svo alvarlega áverka að hann hefði beðið bana af.
Bráðaliðar gerðu það sem þeir gátu til að bjarga lífi mannsins en án árangurs. Talið er full víst að ekkert saknæmt hafi átt sér stað. Umferð lesta inn á stöðina var ekki stöðvuð en lögreglumenn mynduðu hring utan um manninn á meðan reynt var að bjarga lífi hans svo farþegar aðkomandi lesta gætu ekki séð hvað um var að vera.
Fólk sem var á stöðinni þegar atburðurinn átti sér stað hefur lýst ótta, á samfélagsmiðlum, við að ferðast með neðanjarðarlestunum. Borgarfulltrúi þessa borgarhluta sagði hug sinn hjá fjölskyldu hins látna og þeim sem urðu vitni að atvikinu. Stöðin var síðan alfarið opnuð almenningi á ný 45 mínútum eftir atvikið.