Maður að nafni Chad Doerman var handtekinn í bænum Monroe Township í Ohio-ríki í Bandaríkjunum 15. júní síðastliðinn fyrir að myrða þrjá syni sína.
Segir í frétt Mirror að Doerman, sem er 32 ára gamall, hafi stillt sonum sínum upp og skotið þá til bana af stuttu færi. Þeir voru sjö, fjögurra og þriggja ára gamlir. Einn þeirra náði að flýja en Doerman elti hann uppi nánast eins og á veiðum og náði honum.
Doerman hefur verið ákærður fyrir morðin og einnig fyrir árás á móður drengjanna.
Segir saksóknari á svæðinu þetta versta morðmál sem hann hafi upplifað á sínum starfsferli.
Doerman hefur viðurkennt að hafa skipulagt morðin í marga mánuði. Þegar lögreglan kom á staðinn sat hann í makindum á útidyratröppum heimiils fjölskyldunnar með rifil sinn við hlið sér á meðan lík sona hans lágu fyrir framan húsið.
Móðir drengjanna reyndi að koma þeim til bjargar en fékk skot í aðra höndina. Dóttir hennar úr fyrra sambandi, sem er 14 ára gömul, náði að flýja og gera nærstöddum viðvart sem hringdu á lögregluna. Að sögn hrópaði stúlkan að stjúpfaðir hennar væri að drepa alla fjölskylduna.
Doerman veitti enga mótspyrnu við handtökuna. Morðin komu mörgum nágrönnum fjölskyldunnar algjörlega í opna skjöldu en þeir höfðu ekki orðið varir við annað en að Doerman væri hændur að sonum sínum og þeim góður faðir. Þó höfðu aðrir nágrannar margsinnis orðið varir mið mikla reiði hjá Doerman sem hafi reglulega öskrað á börn sín og eiginkonu
Faðir Doerman, Keith Doerman, segist ekki skilja hvernig sonur hans skuli hafa verið fær um slíkt voðaverk. Hann telur hugsanlegt að eitthvað hafi verið á seyði í lífi Chad sem hann hafi ekki höndlað og því gengið af göflunum. Hann bíði eftir að fá leyfi til að ræða við son sinn og leita svara.
Kona sem segist vera systir móður drengjanna hefur beðið fólk að styrkja systur sína svo hún hafi efni á að greiða fyrir útför þeirra.