fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Pressan

Súrefnið talið uppurið í kafbátnum – Þetta er fólkið um borð og stjúpsonurinn sem kom af stað hatursbylgju

Pressan
Fimmtudaginn 22. júní 2023 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Farþegar um borð í kafbátnum Titan, sem saknað hefur verið síðan á sunnudag, eru taldir af. Bandaríska strandgæslan áætlaði að súrefnisbirgðir um borð yrðu búnar um klukkan 11:00 í dag.

Kafbáturinn var gerður út af fyrirtækinu OceanGate Expeditions, en hann lagði af stað á sunnudaginn í skoðunarferð að flaki fræga skipsins Titanic. Á mánudaginn var greint frá því að súrefni um borð ætti að duga í um 96 klukkustundir og hefur öllu verið kappkostað við að hafa upp á kafbátnum til að bjarga farþegum. Reyndar er kafbátur ekki rétta orðið til að lýsa farartækinu, heldur er þetta köfunartæki sem getur ekki kafað niður á hafsbotn og þaðan upp á yfirborðið án móðurskips. Treysti Titan á móðurskipið til að hjálpa þeim að rata um dýpin.

Sérfræðingar hafa lagt fram þá kenningu að farþegar hafi undanfarin sólarhring reynt hvað þeir gátu til að spara súrefnið, en slíkt væri hægt til dæmis með því að hægja á efnaskiptum líkamans með því að liggja kyrr og reyna ekkert á sig. Að sama skapi hafi súrefnið klárast hraðar ef farþegar voru felmtri slegnir, því slíkt gæti leitt til oföndunar. Manneskjan lifir aðeins í um þrjár mínútur án súrefnis. Súrefnið klárist þó smátt og smátt og séu líkur á því að farþegar missi meðvitund fyrst. Eins gætu farþegar hafa látið lifið af völdum koltvíoxíðs eitrunar, ef lofthreinsibúnaður köfunartækisins hafi orðið fyrir skemmdum eða orðið rafmagnslaust.

Björgunartilraunir hafa ekki borið árangur, en í gær sendi franska ríkisstjórnin vélmennið Victor 6000 sem getur ferðast niður á 20 þúsund feta dýpi og mögulega náð taki á kafbátnum og dregið hann upp á yfirborðið.

Þeirri kenningu hefur einnig verið hent fram að kafbáturinn hafi fallið saman á leið sinni niður í hyldýpið eða að hann hafi orðið undir braki á hafbotni og sitji þar fastur.

Björgunarsveitir hafa þó haldið í vonina hingað til, en eftir að klukkan varð 11 eru líkurnar minni en meiri að áhöfnin sé lifandi.

Kanadísk flugvél sem aðstoðaði við leitina nam hljóð sem minntu á bank á hálftíma fresti á því svæði sem kafbáturinn tapaði sambandi við umheiminn. Var talið að þar væru farþegar kafbátsins að reyna að gera vart um sig.

Þetta er fólkið sem er um borð:

Hamish Harding

Hamish Harding er breskur athafnamaður, flugmaður, könnuður og geimferðamaður. Hann er stjórnarmaður í alþjóðlega fyrirtækinu Action Aviation sem vinnur við sölu á flugvélum. Hann setti árið 2019 heimsmet fyrir hröðustu hringferð um jörðina í flugfari þar sem flogið var yfir bæði norður- og suðurpól jarðarinnar. Hann setti annað heimsmet árið 2021 þegar hann fór á litlum kafbát niður á 36 þúsund feta dýpi. Hann hefur einnig ferðast út í geim, en það gerði hann seinasta sumar þegar hann var um borð í Blue Origin Ns-21 geimferðinni.

Í september á síðasta ári lagði fyrirtæki hans til flugvél til að flytja átta villta blettatígra frá Namibíu til Indlands, en þetta var liður í því að koma blettatígrum aftur upp á Indlandi eftir að tegundin varð þar útdauð árið 1947.

Hamish er 58 ára gamall, giftur og á tvö börn. Hann skrifaði á Instagram áður en Titan lagði af stað að um væri að ræða þriðju ferðina að braki Titanic. Hann væri að fara þangað sem sérfræðingur en hann hafði þó borgað tæpar 35 milljónir fyrir farmiðann. Hann tók fram að ferð Titans yrði líklega fyrsta og eina ferðin á þessu ári þar sem veðrið á svæðinu hafi verið með versta móti.

 

Shanzada og Sulaiman Dawood 

Shanzada Dawood er 48 ára gamall en hann er varaformaður pakistanska orku- og tæknifyrirtækisins Engro Corporation. Shanzada situr einnig í ráðgjafanefnd góðgerðasamtaka Karls III Bretakonungs, Prince Trust International. Hann er eins stjórnarmeðlimur í rannsóknarstofnuninni SETI. Hann er búsettur í Bretlandi ásamt konu sinni og börnum.

Með honum um borð er sonur hans, Sulaiman sem er 19 ára gamall.

Paul-Henri Nargeolet

Paul-Henri er kannski 77 ára gamall en hann er hokinn af reynslu þegar kemur að því að kafa á mikið dýpi. Hann leiddi fyrstu ferðina að braki Titanic árið 1987 en hann starfaði áður sem skipherra í franska sjóhernum.

Hann hefur gegnt stöðu forstjóra fyrirtækisins RMS Titanic Inc, sem stundar rannsóknir á hafsbotni og á Titanic brakið, eða réttinn að brakinu, réttara sagt. Hann hefur tekið þátt í fjölda kvikmynda og heimildaþátta um Titanic enda gengur hann undir gælunafninu „Herra Titanic“. Árið 2019 ferðaðist hann enn einu sinni að brakinu og sagði af því tilefni, aðspurður um hvort hann yrði hræddur þegar hann kafaði að brakinu:

„Þegar þú ert í mjög miklu dýpi, þá ertu dauður áður en þú áttar þig á því að eitthvað er að gerast, svo það er ekki vandamál“

Ári síðar sagði hann í útvarpsviðtali að hann óttaðist ekki dauðann og reiknaði fastlega með því að dauðinn vitjaði hans einn daginn.

Stockton Rush

Sjálfur stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem gerir kafbátinn Titan út, er um borð. En það er Stockton Rush sem er 61 árs gamall. Árið 1981 varð hann yngsti flugmaðurinn til að afla sér réttinda til að stýra flutningaflugi, aðeins 19 ára gamall.

Hatursbylgja vegna framkomu stjúpsonar

Önnur hlið á þessu sorglega máli sem vakið hefur athygli er háttsemi manns að nafni Brian Szasz, sem er stjúpsonur Hamish Hardings. Hann ákvað að nýta þennan harmleik til að daðra við OnlyFans-stjörnu og fékk fyrir vikið yfir sig reiði netverja. Hatrið virðist hafa sigraði því Brian hefur nú eytt Twitter-síðu sinni.

Brian er 36 ára gamall og svaraði hann færslu OnlyFans-stjörnunnar Breu með athugasemdinni: „Má ég sitja á þér?“, en netverjum þótti þetta óviðeigandi framkoma í ljósi þess að Brian ætti að vera að bíða milli vonar og óvonar eftir fréttum um afdrif stjúpföður hans.

Hann vakti einnig reiði þegar hann ákvað að fara á tónleika með pönkurunum í Blink-182, þó að faðir hans væri horfinn. Rapparinn Cardi B ákvað að gagnrýna Brian með opinberum hætti og áttu þau nokkur orðaskipti í kjölfarið.

„Þessi gaur elskar Blink-182 og að láta konur sitja á andliti sínu og hann er ekki feiminn að láta heiminn vita af því,“ skrifaði einn netverji.

Brian reyndi að svara fyrir sig og sagði að enginn væri í þeirri stöðu að geta dæmt viðbrögð  hans við áfalli. Cardi B var því ósammála og sagði að eðlilega ætti hann að vera heima grátandi, að bíða eftir fréttum, frekar en „hrista lókinn“ á tónleikum.

Aftur reyndi Brian að verja sig og sagði að fjölskylda hans hefði viljað að hann héldi lífi sínu áfram.„Þetta gæti litið út fyrir að vera óviðeigandi en fjölskylda mín hefði viljað að ég færi á Blink-182 tónleikana því þetta er uppáhalds hljómsveitin mín og tónlist hjálpar mér á erfiðum tímum.“

Hann hjólaði einnig í Cardi B og kallaði hana skíthæl sem væri að reyna að græða áhrif á raunum fjölskyldu hans.

„Ég fór á Blink 182 tónleika til að takast á við raunir mínar, frekar en að sitja heima og horfa á fréttirnar. Skammastu þín Cardi B og sýndu smá tillit. Cardi B. Við vitum að nýjustu lögin þín eru glötuð en ertu svona ólm í athyglina?“

Netverjar brugðust ókvæða við framkomu Brians og voru fljótir að finna út að hann hafi fyrir nokkru þurft að sitja af sér fangelsisdóm fyrir umsáturseinelti. Aðrir stigu fram honum til varna og bentu á að Brian sé með einhverfu og því sé ekki skrítið að hann bregðist við aðstæðum með öðrum hætti en aðrir. Þeim vörnum var þó vísað á bug þegar fólk benti á að einhverfa gefur fólki ekki leyfi til að áreita konur, þó svo að tónleikaferðin sé kannski skiljanleg í því samhengi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Hakkarar frá Norður-Kóreu eru sérstaklega stórtækir á einu sviði

Hakkarar frá Norður-Kóreu eru sérstaklega stórtækir á einu sviði
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tekinn af lífi á afmælinu sínu

Tekinn af lífi á afmælinu sínu
Pressan
Fyrir 5 dögum

Rex Heuermann ákærður fyrir sjöunda morðið – Hin látna fannst bæði í Manorville og við Gilgo-ströndina

Rex Heuermann ákærður fyrir sjöunda morðið – Hin látna fannst bæði í Manorville og við Gilgo-ströndina
Pressan
Fyrir 6 dögum

Harðar lottódeilur – Vann 28 milljarða og krefst 28 milljarða í viðbót

Harðar lottódeilur – Vann 28 milljarða og krefst 28 milljarða í viðbót