Það kom svo sem ekki á óvart að fleiri karlar en konur horfi á klám enda er megnið af klámi framleitt af körlum fyrir karla.
En það kemur kannski á óvart að klám, framleitt af körlum fyrir karla, tryggi konum betra kynlíf á sama tíma og kynferðislegt heilbrigði karla versnar eftir því sem þeir horfa meira á klám. Það er að segja þetta er miðað við klámáhorf kynjanna.
Þetta eru niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem vísindamenn, undir forystu Jacques Berent, við Université de Genéve gerðu. Rannsóknin var birt í Psychological Medicine í byrjun árs.
Rúmlega 100.000 manns tóku þátt í rannsókninni sem beindist að því að kortleggja þýðingu og áhrif kláms á kynlíf karla og kvenna.
„Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að klám sé frekar uppspretta hugmynda en ógn fyrir konurnar en fyrir karla veldur það meira tjóni en gagni,“ sagði Berent í samtali við Weekendavisen.
Hann varaði við því að of ákveðnar niðurstöður séu dregnar af rannsókninni en sjálfur sagðist hann lesa eftirfarandi út úr henni:
Karlar, sem horfa mikið á klám, eiga í erfiðleikum með að fá reisn og segjast glíma við lítið sjálfsálit hvað varðar kynlíf.
Konur, sem horfa mikið á klám, upplifa meiri kynferðislega löngun, meira sjálfstraust og finnst almennt að þær standi sig betur í kynlífinu.
Berent sagði að ástæðan fyrir þessu geti verið að karlar horfi á klám til að bæta frammistöðu sína í kynlífinu en konur leiti frekar að innblæstri með að horfa á klám.