Gypsy Rose Blanchard er aðeins 32 ára en hefur þegar reynt meira en flestir þurfa að þola á heilli ævi.
Móðir hennar, Dee Dee, var veik. Hún glímdi við sjúkdóminn Munchausen by proxy sem gerði það að verkum að hún beitti hinum ýmsu brögðum til að sannfæra umheiminn, sem og dóttur sína, um að Gypsy Rose væri langveik. Gypsy trúði því sjálf að hún væri ekki heilbrigð, enda hafði móðir hennar byrlað henni ýmsum lyfjum til að framkalla einkenni og látið hana gangast undir ótal margar sársaukafullar og óþarfa læknismeðferðir. Hún reyndi að sannfæra heiminn að dóttir hennar væri langt leidd af krabbameini, snoðaði dóttur sína, gaf henni lyf sem gerðu hana veikburða og sannfærði dóttur sína um að hún gæti ekki gengið svo Gypsy varði ómældum tíma í hjólastól þrátt fyrir að hafa tvö heilbrigða fætur.
Hún hélt því eins fram að Gypsy væri mun yngri heldur en hún var og reyndi að hemja kynþroska hennar. Fyrir vikið nutu mæðgurnar mikils stuðnings frá samfélaginu sem meðal annars borguðu fyrir þær hús, ferðalög og uppihald.
Fór það á endanum svo að Gypsy varð gripin uppreisnaranda. Hún hafði kynnst strák í gegnum netið og vildi fyrir alla muni komast undan móður sinni. Það er á vissan hátt skiljanlegt að þessi unga stúlka hafi litið svo að besta leiðin til að losna undan móður sinni væri að hreinlega losa sig við hana fyrir fullt og allt, enda hafði uppeldið ekki beint alið á rökhugsun eða skynsemi.
Þar með tapaði Dee Dee lífinu. Mörgum þótti þó ljóst að Gypsy væri sjálf þolandi sem hafi brugðist við áralöngu ofbeldi. Hún hafi ekki verið haldin rökhugsun, og henni bæri því ekki að refsa með fullum þunga.
Gypsy hefur nú afplánað átta ár af dómi sínum og getur aftur um frjálst höfuð strokið frá og með morgundeginum. Að því tilefni mun hún stíga fram í heimildaþáttum sem byggja á lífi hennar, en þeir verða frumsýndir í janúar. Áður hefur hún opinberlega greint frá því að hún hafi upplifað frelsið í fyrsta sinn í fangelsi, en hún mun svo segja sögu sína alla í væntanlegum heimildaþáttum sem verða frumsýndir í janúar.
Hún ræddi við People nú í aðdraganda frelsisins þar sem hún segist allra helst vilja komast í tímavél og stöðva voðaverkið sem hún lét þáverandi kærasta sinn fremja.
„Ef ég gæti gert allt aftur, þá veit ég ekki hvort ég myndi fara aftur til þess tíma sem ég var barn og segja móðursystkinum mínum að ég væri ekki í raun veik heldur væri mamma að gera mig veika, eða hvort ég myndi fara til baka þegar ég ræddi við Nick og segja honum að ég ætlaði að segja lögreglunni allt að létta. Enginn mun nokkurn tímann heyra mig segja að ég sé ánægð að hún sé dáinn eða að ég sé stolt af því sem ég gerði. Ég mun sjá eftir því daglega út lífið.“
Dee Dee hafði meðal annars haldið því fram að Gypsy væri með vöðvarýrnunarsjúkdóm og þyrfti því að nota hjólastól, jafnvel þó Gypsy gæti vel gengið. Síðan hélt hún því fram að dóttir sín ætti erfitt með að nærast sem gerði að verkum að næringaslöngum var komið fyrir í stúlkunni. Gypsy segir að með tíð og tíma hafi runnið á hana tvær grímur, en hún hafi þó treyst móður sinni. Móðir hennar hafi til að mynda haldið fram að hún væri flogaveik, en einkenni slíkra floga getur verið minnisleysi um flogið sjálft, svo Gypsy gat ekki annað en trúað.
Eftir því sem hún var eldri reyndi hún að hreyfa við mótbárum, en móðir hennar tók því illa. Gypsy átti erfitt með að átta sig sjálf á stöðu sinni enda hafði hún aldrei fengið að ganga í skóla og verið meinað að hitta föður sinn. Hún hafi því verið í litlum tengslum við umheiminn og helst lært um lífið í gegnum Disney myndir.
„Hún átti þetta ekki skilið. Hún var veik kona og því miður vissi ég ekki betur svo ég sá það ekki þá. Hún átti skilið að vera þar sem ég er í dag, í fangelsi að afplána refsingu fyrir brot sín.“
Gypsy er ekki í samskiptum við fyrrverandi kærastann, Nick, sem afplánar lífstíðarfangelsi fyrir að hafa banað Dee Dee. Gypsy er þó ekki einhleyp, enda gekk hún að eiga eiginmann sinn á síðasta ári og segist einnig eiga í góðum samskiptum við föðurfjölskyldu sína.
„Ég vil tryggja að fólk í ofbeldisaðstæðum grípi ekki á það ráð að myrða. Það gæti virts sem öll sund séu lokuð, en það er alltaf til önnur leið. Gerið hvað sem er, nema þetta.“
Gypsy segir að framhaldið sé ferðalag. Hún þurfi að læra að fyrirgefa móður sinni sem og sjálfri sér.
„Ég elska mömmu enn. Og ég er farin að skilja að þetta var eitthvað sem hún hafði enga stjórn á, eins og fíkill í fíkn. Þetta hjálpar mér að takast á við lífið og sætta mig við það sem gerðist.“